Tannálf í skólann, takk!

Það vantar tannálfa í grunnskólann. Tannheilsu barnanna okkar hefur hrakað verulega á undanförnum árum. Við erum að upplifa það sama og ljósálfarnir í álfheimum í hinu frábæra barnaleikriti Benedikt búálfur. Þegar Tóti tannálfur var numinn á brott af svartálfum, þá fengu ljósálfarnir tannpínu.

Þegar ég var í grunnskóla þá var tannálfur í skólanum í gerfi skólatannlæknis. Skólatannlæknirinn fylgdist með tannheilsu barnanna og gerði við tennurnar þegar þess þurfti.  Fyrir allmörgum árum var þessi tannálfur numinn á brott með kerfisbreytingum. Afleiðingarnar eru þær sömu í grunnskólanum og í álfheimum. Tannpína og verri tannheilsa barnanna okkar.

Það voru og eru góð og gild rök fyrir því að ríkisvaldið sjái ekki um tannviðgerðir í grunnskólanum með ríkisreknum tannlækni, heldur sjái tannlæknar hverrar fjölskyldu fyrir sig um eftirlit og tannviðgerðir skólabarna. Enda gert ráð fyrir að Tryggingastofnun tæki þátt í þeim kostnaði.

Hins vegar er staðreyndin sú að við foreldrarnir höfum brugðist börnunum okkar með því að trassa að tryggja reglubundið tanneftirlit. Mánuðirnir og árin fjúka hjá og það gleymist að panta tannlæknatíma fyrir börnin þar til allir vakna upp við vondan draum - og slæma tannpínu og tannheilsu. Þá er rokið af stað, en skaðinn skeður.

Þótt ég sé ekki mikið fyrir forræðishyggju þá held ég að þegar um tannheilsu barnanna okkar er að ræða - þá verðum við að breyta um takt.  Við eigum fá tannálfa í formi tannfræðinga eða tannlækna inn í grunnskólana til að sjá um tanneftirlit og tannfræðslu. Slíkir tannálfar ættu að skoða öll grunnskólabörn reglubundið - og ef Karíus og Baktus eru að láta á sér kræla - þá vísi tannálfurinn í skólanum börnunum til fjölskyldutannlæknisins sem sjái um að fylla í holurnar þeirra og skola þeim félögum á haf út.

Og að sjálfsögðu á að greiða tannlækningar - og tannréttingar á börnum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

Svo er nú það!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þór Bjarnason

Við erum í þessu eins og mörgu öðru að líkjast meir og meir bandarísku samfélagi, þar sem bros barna kemur upp um þjóðfélagsstöðu þeirra; þau efnameiri brosa breiðar með sínar fallegu tennur, meðan hin líða í margföldu tilliti fyrir þá mismunun sem þau búa við. Fréttir undanfarna daga af raunveruleikanum í tannlæknamálum ungra barna á Íslandi eru eins og margt annað, í engu samræmi við þá þjóðfélagsglansmynd sem dregin er upp af landsfeðrunum. Rangar áherslur gera það að verkum að við erum að bregðast þeim sem síst skyldi.

Jón Þór Bjarnason, 17.3.2007 kl. 11:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband