Engin lausn, aðeins spuni

"Engin lausn. aðeins spuni" er heiti leiðara Viðskiptablaðsins í dag. Finnst leiðarinn áhugaverður og eiga erindi til fleiri en bara lesenda Viðskiptablaðsins og ákvað því að birta hann:

Engin lausn, aðeins spuni 

Ríkisstjórnin hefur nú kynnt niðurstöður í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga um Icesave-deiluna. Eftir átta mánaða samningaþref,þar sem núverandi ríkisstjórn stýrði viðræðunum meirihluta tímans, er árangurinn þessi:

Íslendingar eiga að taka á sig allar þær byrðar sem hin erlendu ríki krefjast en fá ekkert í staðinn sem talandi er um.

Ríkisstjórnin kynnir málið með þeim hætti að tæpast er hægt að tala um annað en spuna í því sambandi. Látið er að því liggja að ekki sé beint um ríkisábyrgð að ræða þar sem eignir Landsbanka og Tryggingasjóðs innstæðueigenda standi á móti skuldbindingunni og ríkið komi þar á eftir. Staðreyndin er hins vegar sú að ríkið hefur tekið á sig fulla ábyrgð á greiðslu 660 milljarða króna auk tiltölulega hárra vaxta. Ríkisstjórnin gerir sjálf ráð fyrir að eftir sjö ár lendi 170 milljarðar króna á ríkinu, en sú upphæð gæti orðið hærri eða lægri. Við þetta bætast vextir og upphæðin þá komin í 300-400 milljarða króna eftir því hve hratt greiðist inn á skuldina af eignum Landsbankans.

Upphæðin gæti orðið talsvert lægri, en verður tæpast minni en 100-200 milljarðar króna.

Skuldirnar hafa verið bornar saman við landsframleiðslu en það er samanburður sem segir lítið sem ekkert. Nær er að horfa á útflutning og innflutning. Allur vöruútflutningur í fyrra nam tæplega 470 milljörðum króna en vöruinnflutningur var yfir 500 milljarðar króna. Jafnvel þó að við hefðum ekki flutt inn neina bíla eða heimilistæki, svo dæmi séu tekin um vörur sem hefur snarlega dregið úr innflutningi á, hefði aðeins verið um 30 milljarða króna afgangur af vöruskiptunum.

Af þessum tölum má ljóst vera að skuldirnar sem ríkisstjórnin vill að Íslendingar axli vegna Icesave-málsins eru í senn óraunsæjar og óásættanlegar.

Því er haldið fram að skuldirnar séu ekki mikið áhyggjuefni þar sem þær eigi ekki að greiða fyrr en eftir 7 ár.

Þetta minnir óneitanlega mikið á kúlulánahugsunarháttinn sem tröllreið viðskiptalífinu á síðustu árum. Látið er að því liggja að þessar skuldir séu ekki raunverulegar þar sem ekki þurfi að greiða af þeim strax, en það er mikill misskilningur. Íslendingar munu þegar í stað finna mikið fyrir þeim í formi óhagstæðara gengis og lakari lánskjara.

Þó að ríkisstjórnin reyni að halda öðru fram þá munu allir sjá að Ísland getur ekki staðið undir þessum skuldum og að með þessum samningum er aðeins verið að fresta því að taka á vandanum.

Ekki skal lítið gert úr óbilgirni Breta og þeirri erfiðu stöðu sem ríkisstjórnin var í að þurfa að reyna að ná hagstæðum samningum við þá. Það afsakar hins vegar ekki að bjóða Alþingi Íslendinga nú upp á að samþykkja slíka afarkosti. Ríkisstjórninni bar að leita allra leiða til að losna undan því að taka á sig þessa ábyrgð, meðal annars með því að fara leið réttarríkisins.

Menn hafa leitað til dómstóla fyrir minni fjárhæðir.

Þá má einnig spyrja hvernig á því standi að ríkisstjórnin skuli sætta sig við að umræður um svo brýna þjóðarhagsmuni fari fram á milli embættismanna en ekki á milli æðstu ráðamanna.

Verkefnið sem ríkisstjórnin hafði var ekki að semja um vaxta- eða afborgunarskilmála, sem embættismenn hefðu út af fyrir sig getað rætt útfærslu á. Ríkisstjórnin átti að ræða við erlendar ríkisstjórnir – og þá ekki aðeins þá bresku og hollensku – um réttmæti þess að Íslendingar öxluðu þessar byrðar og um getu þeirra til þess. Þannig hefði mátt halda því til haga hvernig bresk stjórnvöld hafa leikið Ísland og hvílíku ranglæti Íslendingar hafa verið beittir. Ennfremur þeim mistökum sem Evrópusambandið hefur gert við reglusetningu.

Þessu hefðu forsætisráðherra, utanríkisráðherra og fjármálaráðherra átt að halda að erlendum kollegum sínum. Embættismenn ná ekki árangri um slíka hluti í viðræðum um vaxtaprósentur.

Ekki þarf að koma á óvart að stjórnarandstaðan á þingi hyggist greiða atkvæði gegn samningsdrögunum. Þá er ánægjuefni að sjá að í röðum stjórnarliða virðast vera þingmenn sem ekki ætla að taka flokkshagsmuni fram yfir þjóðarhagsmuni. Alþingi hlýtur að hafna þessum samningi og álykta um leið um að forystumenn ríkisstjórnarinnar taki málið upp við erlenda kollega sína og útskýri fyrir þeim að Íslendingar samþykki enga samninga sem kippa fótunum undan fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ertu að spara pláss með því að hafa letrið svona smátt

Marinó G. Njálsson, 11.6.2009 kl. 12:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband