Dúkarinn segir mig rætinn!
16.9.2008 | 19:28
Dúkarinn Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi Vinstri grænna sagði mig rætinn þar sem hann stóð í öllu sínu veldi í ræðustól borgarstjórnar Reykjavíkur í dag. Þorleifur vísaði í - að hans mati - "afar rætið blogg nýkjörins varaformanns velferðarráðs" - eins og hann orðaði það - en varaformaðurinn er ég - og las í kjölfarið beina tilvitnun úr meintu, rætnu bloggi mínu - sem reyndar var í allt öðru bloggi:
"Þegar nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við stjórn Reykjavíkurborgar á dögunum þá sammæltust við fulltrúar meirihlutans í Velferðarráði að leggja á haustmánuðum áherslu á málefni utangarðsfólks."
Það fer greinilega afar illa í dúkaran að þegar við í Framsóknarflokknum tókum af skarið og leystum slæma stjórnarkrísu með því að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn- þá settum við það á oddinn að setja punt á bak við endalaus samræðustjórnmál og byrja að framkvæma.
Dúkarinn Þorleifur Gunnlaugsson vildi fresta afgreiðslu stefnumótunar um málefni utangarðsfólks og metnaðarfulla aðgerðaráætlun sem henni fylgdi - og tryggð verður í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar. Væntanlega hefur ósk hans um frestun verið byggð á göfugum hvötum - en eins og ég sagði í mínu "rætna bloggi" þá var ég:
"...mjög harður á því að stefnumótunin og aðgerðaáætlunin yrði samþykkt í dag svo unnt væri að hefja strax handa við að bæta aðstöðu útigangsfólks. Enda var vinnuhópur stjórnmálamanna og embættismanna búinn að vinna að stefnumótuninni allt frá því verkefninu var komið á fót í fyrri meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Haldnir voru 18 fundur - þótt vinnan hafi legið fyrir meðan Samfylkingin fór með formennsku í Velferðarráði í valdatíð Tjarnarkvartettsins."
Ég ætla ekki að elta ólar við misskilning Þorleifs - sem sumir myndu kannske kalla rangfærslur - um nýsamþykkta metnaðarfulla stefnu og aðgerðaráætlun í málefnum utangarðsfólks borgarstjórn í dag - þrátt fyrir að formaður velferðarráðs hafi ítrekað leiðrétt velferðarráðsfulltrúann.
En það verður greinilega athyglisvert að vinna með dúkaranum, borgarfulltrúanum og fulltrúanum í velferðarráði - Þorleifi Gunnlaugssyni - þessa mánuði sem eftir eru fram að kosningum!
Hina metnaðarfullu stefnum - sem Þorleifur vildi ekki samþykkja heldur fresta á fundi Velferðarráðs í síðustu viku - má sjá hér á vefsvæði Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.9.2008 kl. 07:46 | Facebook
Athugasemdir
Hallur
Hvað kemur það málinu við að Þorleifur er dúklagningamaður, af hverju er það margnefnt? Er verið að halda því fram að vegna þess að Þorleifur er iðnaðarmaður en ekki háskólagenginn, þá sé einhvað minna að marka þau sjónarmið sem hann setur fram, eða hvað?
Flosi (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 19:41
Ekki byrjar hin þverpólitíska samstaða gæfulega,vona samt að það eigi ekki eftir að bitna á framkvæmdum. Einhvað finnst mér þú Hallur vera gera lítið úr því að vera dúklagningamaður, en mundu að hrokinn fer öllum illa.
Rannveig H, 16.9.2008 kl. 19:43
Flosi!
Ég er bara alls ekki að gera lítið úr ágætri iðn Þorleifs - sem getur verið afar ábatasöm eins og dæmin sanna! Það er rétt hjá ykkur að það kemur málinu ekkert við að maðurinn er dúkari. Það breytir því ekki að maðurinn er dúkari.
Við skulum ekki láta það trufla okkur frekar.
Ég ber mikla virðingu fyrir iðnaðarmönnum - alinn upp af húsasmiði - sem var meðal þeirra fremstu í sinni tíð að mínu mati!
Bendi hins vegar á að andstæðingar húsasmiðsins Óskar Bergssonar í minnihlutaflokkunum í borgarstjórn gerðu mikið úr því að hann væri húsasmiður - sem ég tel af hinu góða - og sömu andstæðingar Guðlaugs Sverrissonar stjórnarformanns Orkuveitunnar gerðu mikið úr því að hann værði vélfræðingur - sem ég tel af hinu góða!
Hélt bara - í kjölfar þessa málflutnings stuðningsmanna minnihlutans - að það væri æskuilegt að tiltaka starfsheiti iðnaðarmanna sem taka þátt í borgarmálunum!
Hallur Magnússon, 16.9.2008 kl. 19:54
Ef Þorleifur er dúkari hvað ert þú þá Hallur. Því miður þá finnst mér bæði Samfylkingar og Vinstri Grænna fnykur af uppnefni því sem þú viðhefur, en sá er munurinn á þér og þeim að þú segir upphátt sem þau hugsa.
Sigurgeir Jónsson, 16.9.2008 kl. 20:34
Sæll. Tilvitnun er "afar rætið blogg nýkjörins varaformanns velferðarráðs" er hér.
Rauða Ljónið, 16.9.2008 kl. 20:44
Sæll. Tilvitnun hér á vefsvæði Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar! hér
Rauða Ljónið, 16.9.2008 kl. 21:05
Hallur
Takk fyrir svarið. Ætla ekki að bregðast sérstaklega við illa dulinni pillu þinni á að fyrirtæki nefnds Þorleifs hafi fengið verk hjá borginni, sem til þess bærir aðilar hafa vottað að hafa verið með fullkomlega eðlilegum hætti ef marka má fréttir.
En sú röksemdafærsla að af því að meintir ,,andstæðingar húsasmiðsins Óskar Bergssonar andstæðingar" nota menntun míns ágæta kollega, að þínu mati sem einhvers konar ,,skammaryrði" þá eigir þú að svara í sömu mynt og kalla Þorleif dúkara í öðru hverju orði, heldur náttúrulega ekki vatni. Það verður að segjast eins og er að,,vörnin" í svarinu bæti ekki málstaðinn!
með kveðju, Flosi
Flosi (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 21:59
Flosi!
Sammála að "vörninni" í svarinu bæti kannske ekki vörnina - en mér hefur fundist afar miður hvernig reynt hefur verið að vega að ágætum mönnum - með iðnnám að baki - og reyndar meira nám en það - í þessari pólitísku umræðu.
Ákvað að draga athyglina að þeim tvískinnungi stuðningsmanna minnihlutans - sem sérstaklega hafa ráðist að Guðlaugi Sverrissyni vegna meints vanhæfis vegna iðnmenntunar hans! Það tóskt kannske ekki nægilega vel!
Verð reyndar að leiðrétta þetta með Guðlaug - hann er vélstjóri.
Ég get bara alls ekki verið sammála slíkum röddum!!! Það á að vera styrkur í stjórnmálum að þeir sem veljast þar til trúnaðarstarfa og forystu séu úr sem fjölbreyttustu umvherfi, með sem fjölbreytilegastan bakgrunn og menntun! Ekki vildum við hafa alla stjórnmálamenn lögfræðinga?
Hvað varðar það sem þú kallar: "illa dulinni pillu þinni á að fyrirtæki nefnds Þorleifs hafi fengið verk hjá borginni, sem til þess bærir aðilar hafa vottað að hafa verið með fullkomlega eðlilegum hætti ef marka má fréttir"
... þá vissi ég ekki að það hefði verið talin ástæða til þess að taka þá starfsemi sérstaklega út! Ég get ekki séð að menn sem vinna fyrir borgina séu vanhæfir þess vegna! Það væri að mínu mati alvarleg aðför að atvinnufrelsi!
Hafði einhver efasemdir?
Af hverju?
Af hverju þurfti að votta að allt væri í lagi og hver gerði það?
Hallur Magnússon, 16.9.2008 kl. 22:48
Ágæti Sigurgeir.
Ef þú vilt fá að vita bakgrunn minn þá er hann að finna í ferilskrá minni á slóðinni:
http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/about/
Er ekki með iðnaðarmenntun reyndar - enda erfði ég því miður ekki listasmíðihæfileika föður míns heitins. Því miður.
Hallur Magnússon, 16.9.2008 kl. 22:52
Hallur
Er ekki sagt að margir vildu Lilju kveðið hafa, er ÞG nokkur undantekning frá því ?
Ágúst Jónatansson (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 09:43
Fín færsla, þegar maður skilur af hverju það skiptir máli að Þorleifur er dúkari.....
Held að þetta í fyrsta skipti síðan í MH sem ég er sammála Halli.....jæja kanske ekki alveg í fyrsta skipti. Mér finnst þetta verkefni sem Hallur stendur fyrir innan Velferðarráðs vera löngu tímabært og sjálfsagt að hrósa mönnum þegar menn fara vel af stað.
Ólafur H. Guðgeirsson, 17.9.2008 kl. 14:38
Eftir lestur minn á þinni glæsilegu ferilskrá í námi og starfi er mér fyrirmunað að skilja Framsóknarmennsku þína. Ég hélt að gáfað og lesið fólk aðhylltist ekki Framsókn. Sveiattan!
Hvað gerðist eiginlega hjá þér Hallur?
Sigurður Sigurðsson, 17.9.2008 kl. 15:09
Til SS:
Þetta er hárrétt skýring hjá þér, það er alltof lítið til af gáfuðu og lesnu fólki, þess vegna er Framsókn svo risasmá sem raunin er...
Ágúst Jónatansson (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 15:50
Hallur
Þá erum við sammála. Í umræðu um pólitík á það ekki að skipta neinu máli hvaða menntun menn hafa, heldur hvað þeir hafa fram að færa.
Kveðja
Flosi
Flosi (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 20:44
Hvað menn hafi fram að færa
er farartálminn mestur.
En liggja á milli meyjarlæra
er langtum betra, bestur.
Sigurður Sigurðsson, 18.9.2008 kl. 15:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.