Aðgerðir fyrir utangarðsmenn í burðarliðnum!

Það sló mig illa sem nýkjörins varaformanns Velferðarráðs að heyra viðtal á Stöð 2 við útigangsmann sem skýrði frá því að útigangsmenn neyddust til þess að sofa úti þar sem ekki væri pláss fyrir þá í gistiskýlum.  Það gengur náttúrlega ekki svo ég ákvað að ganga af krafti í málið og byrjaði á því að leita mér upplýsinga um stöðu mála.

Ég komst að því að í kjölfar erfiðrar stöðu í fyrravetur þegar ítrekað þurfti að vísa mönnum frá gistiskýli utangarðsmanna - þá var plássum þar fjölgað úr 16 - 20.

Frá því það var gert hefur einu sinni - endurtek - einu sinni þurft að vísa einum manni frá gistiskýlinu. Þannig að líkindum var maðurinn að lýsa ástandinu frá því í fyrravetur - ástandi sem ekki var bjóðandi - en hefur verið bætt úr.

Að vísa einum manni einu sinni frá er reyndar einu sinni of oft, en því þarf að kippa í liðinn fyrir veturinn.

Mér fannst því undarlegt að heyra fulltrúa Vinstri græna í Velferðarráði halda því fram að á undanförnu hefðu utangarðsmenn ítrekað þurft frá gistiskýlinu frá að hverfa. Þeim ber greinilega ekki saman starfsmönnum gistiskýlisins og fulltrúa Vinstri grænna. Hvor ætli hafi rétt fyrir sér?

Hins vegar er ljóst að það þarf að gera mun betur í málum utangarðsfólks.

Þegar nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við stjórn Reykjavíkurborgar á dögunum þá sammæltust við fulltrúar meirihlutans í Velferðarráði að leggja á haustmánuðum áherslu á málefni utangarðsfólks.

Eitt fyrsta verk mitt var að fara yfir þá heildstæðu stefnumótun í málefnum utangarðsmanna sem sett var á fót af fyrri meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Það gladdi mig að stefnumótun þessi er á lokastigi og allt útlit fyrir að góð samstaða náist innan Velferðaráðs um stefnumótunina og  aðgerðaáætlun byggða á henni, en stefnan hefur verið unnin af vinnuhóp sem hefur verið skipaður bæði pólitískum fulltrúum meirihluta og minnihluta sem og starfsfólki Velferðasviðs.

Ég verð reyndar að segja að mér fannst einnig afar sérstakt að horfa á fulltrúa Vinstri grænna í Velferðarráði þylja upp helstu atriði stefnunnar í fréttum Stöðvar 2 og láta líta út sem um sé að ræða persónulegar tillögur hans en ekki sameiginlegar niðurstöður vinnuhópsins.

Reyndar veit fulltrúinn að niðurstöður hinnar þverpólitísku vinnu verður lögð fyrir Velferðarráð í næstu viku til samþykktar og að stefnan og aðgerðaráætlunin verður kynnt í kjölfarið - enda maðurinn í starfshópnum!

En það er gott að vita til þess að fulltrúi Vinstri grænna stendur með okkur hinum í Velferðaráði að hinni heildstæðu stefnu og mun væntanlega leggja okkur lið við að koma aðgerðaráætlun í framkvæmd sem allra fyrst.

Því það eru úrbæturnar fyrir utangarðsfólkið sem skipta máli - ekki skrautfjaðrir stjórnmálamannanna!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

góður pistill Hallur.

Óskar Þorkelsson, 3.9.2008 kl. 22:24

2 identicon

Ég vinn í dagsetri hjálpræðishersins.Þú hefðir kannski gott af því að koma í heimsókn og tala sjálfur við þá menn sem sofa úti.Þeir eru fleyri en einnog tveir.Ekki veit ég í hvaða draumaveröld velferðarfulltrúar Reykjavíkurborgar eru.Alla vega EKKI þeirri sömu og mínir skjólstæðingar eru í svo mikið er víst.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 22:34

3 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Það er ótrúlegt að heyra Þorleif blaðra svona um mál sem er trúnaðarmál þangað til að það er borið upp á réttum stöðum.

Hann ætti að fara á stjórnsýslunámskeið hjá Gunnari Eydal.

Gestur Guðjónsson, 3.9.2008 kl. 22:54

4 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Gott innlegg Hallur í þessa þörfu umræðu. Það er til skammar að fólk hafi ekki húsaskjól  í okkar þjóðfélagi. Allt krepputal, sem er nú bara spurning um einhverjar milljónir í lægri laun á mánuði til einhverra bankastjórnenda sem eru búnir að klúðra öllu, er hlægilegt í þessum samanburði. - Halltu áfram á þessari braut.

Haraldur Bjarnason, 3.9.2008 kl. 22:57

5 Smámynd: Hallur Magnússon

Birna Dís.

Ég hef rætt við þá suma að undanförnu - og er á fullu að vinna að úrbótum fyrir þennan hóp - ásamt félögum mínum í Velferðarráði og á Velferðasviði.

Stefna og aðgerðaáætlun verður kynnt í næstu viku. Í kjölfarið verður væntanlega ný úrræði fyrir útigangsfólk tekin í gagnið.

Það breytir því ekki að mínar upplýsingar frá gistiskýlinu eru þær að eftir að fjölgað var úr 16 plássum í 20 hafi einum manni einu sinni verið vísað þar frá. Ertu að véfengja þær upplýsingar?

Hallur Magnússon, 3.9.2008 kl. 22:59

6 identicon

Hallur minn, bara gott mál - en hvað með unglingana.. sem eru upp á móti öllu - og ekki síst foreldrunum!!  Hvað eigum við að gera við þau??

Edda (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 01:10

7 Smámynd: Rannveig H

Hallur! Ekki efast ég um einlægan vilja þinn til að koma þessum málum í lag. Ekki fann ég svosem að því þó Þorleifur væri að tjá sig enda löngum komið að þessum málum og þekkir til þeirra. Engin að ykkur í velferðaráði fær skrautfjaðrir, því þetta er þjónusta sem á að vera til staðar  en ekkert til að skreyta sig með. Það er svo rétt og satt sem Birna Dís seigir enda veit hún hvar hjartað slær í þessum málaflokki. Þá myndalegu þjónustu sem Hjálpræðisherinn rekur fyrir útigangsfólk þurfti ekki margra mánaða áætlanir þau létu verkin tala og þar af leiðandi vinna þau verkin ykkar. Og meðan félagsráðgjafar hafa ekki önnur úræði en að benda fólki á líknarsamtök,fá þeir aðilar ekki einu sinni styrk frá borginni til að standa undir kostaði. það er skömm af þessu. Stofnandi Hjálpræðishersins sem vann með götufólk í London sagði  það þarf þrjú S til að vinna eftir Súpa,Sápa,Sáluhjálp. Eftir þessu vinnur Birna Dís og hennar fólk,og mætti þið öll hjá velferðaráði taka það til fyrirmyndar.

Rannveig H, 4.9.2008 kl. 09:17

8 identicon

Bíddu sagðirðu okkur ekki frá því um daginn að þú hefðir ekkert fengið greitt fyrir að agitera fyrir nýjum meirihluta? Ég myndi nú kalla varaformennsku í velferðarráði hina sæmilegustu dúsu.

Fær varaformaður velferðaráðs kannski ekkert greitt fyrir vinnuna sína?

lesandi (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 09:23

9 Smámynd: Hallur Magnússon

Rannveig!

Hjálpræðisherinn hefur unnið ótrúlegt og óeigingjarnt starf í þágu bágstaddra á Íslandi um áratuga skeið. Það ber svo sannarlega að þakka!

Gleymi aldri stuttum kynnum mínum af  Ingibjörgu og Óskari - þessu yndislega fólki sem í mínum huga verða alltaf andlit Hersins á Íslandi.

Kann hins vegar ekki við að menn eru að reyna að eigna sér vinnu hóps fólks sem leggja sitt af mörkum - þótt viðkomandi hafi tekið þátt í þeirri hópavinnu. Það liðkar ekki fyrir nauðsynlegri samvinnu - og er ekki málefninu til framdráttar!

Hallur Magnússon, 4.9.2008 kl. 09:29

10 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæti lesandi.

Ég get fullvissað þig um að tímakaupið í þeirri vinnu sem liggur að baki varaformennskustarfi í Velferðaráði er ekki til að hrópa húrra yfir. Langt undir lágmarkslaunum :)

Get einnig fullvissað þig um það að ég hefði fengið miklu mun hærra greitt fyrir vinnu mína við ráðgjöf þann tíma sem ég sit á fundum Velferðaráðs og þeim fundum sem því tengjast.

Seta í Velferðaráði er ekki dúsa. Seta í Velferðaráði krefst þess að þú hafir virkilegan áhuga á að bæta samfélagi í kring um þig. Því fer fjarri að ég hagnist á þeirri setu. Það er frekar að ég tapi fjárhagsleg - jafnvel verulega - á þessari þegnskylduvinnu minni. En ég valdi að gera skyldu mín og leggja mitt af mörkum. Það er mitt val.

Skrif mín gegn fráfarandi meirihluta byggðust á því að ástandið fyrrverandi borgarstjóra í brúnni var sífellt að verða alvarlegra - og var farið að skaða borgina verulega. Get einnig fullvissað þig um að ég fékk ekkert greitt fyrir þá pistla mína. Þeir byggði á öflugri tjáningarþörf minni :)

Hallur Magnússon, 4.9.2008 kl. 09:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband