Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Óábyrg hegðun Icelandair

Óábyrg hegðun Icelandair er að kosta fyrirtæki mitt hundruði þúsunda, en ég er í milljónaviðskiptum við félagið. Icelandair hefur undanfarnar vikur haldið til streitu allt of mörgum auglýstum ferðum þótt félagið viti að stórum hluta þeirra verði aflýst, í stað þess að auglýsa færri ferðir og standa við þær.
 
Icelandair hagar sér eins og þeir sem neyðast að fljúga með því komi einungis frá áfangastöðum Icelandair, en komi ekki með tengiflugi inn á áfangastaði Icelandair. Icelandair hefur verið að aflýsa ferðum með nánast engum fyrirvara, ferðum sem við höfum bókað far fyrir portúgalska starfsmenn okkar. Eðli málsins vegna þá koma þeir frá Portúgal á áfangastaði Icelandair með öðrum flugfélögum og halda áfram frá áfangastöðum Icelandair til Portúgal með öðrum flugfélögum.
 
Þótt Icelandair hætti við að fljúga og við getum fengið flug með félaginu síðar, þá breyta önnur flugfélög ekki farseðlum sínum eftir duttlungum Icelandair. Oft á tíðum eru þau fargjöld töpuð fyrir okkur og í öðrum tilfellum verðum við að greiða verulegan kostnað vegna breytinga á farseðli. Breytinga sem við vitum ekkert hvort dugi, því duttlungar Icelandair eru ekki fyrirsjáanlegir. Þau gætu frestað hvaða flugi sem er. Þessi hegðan félagsins sem ég sem skattgreiðandi er að fara að styðja með ríkisábyrgð á lánalínu verður til þess að fyrirtæki mitt mun ekki fljúga með Icelandair nema enginn annar kostur sé í boði.
 
Fyrst ég er að byrja að ræða Icelandair - þá er galið að veita Icelandair Group ríkisábyrgð, því Icelandic Group er í samkeppnisrekstri bæði á sviði ferðaskrifstofa og hótelreksturs. Ríkisábyrgðin verður að vera einskorðuð við flughluta samsteypunnar.

mbl.is Meirihluta flugferða Icelandair aflýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn faglegust í ESB?

Framsóknarflokkurinn var um langt árabil faglegasti stjórnmálaflokkurinn þegar unnið var í stefnumótun um aðildarumsókn eða aðildarumsókn ekki að ESB.  Framsóknarflokkurinn vann undirbúning Evrópustefnu sinnar á árabilinu 2001 til 2009 afar faglega.

Í kjölfar afar vandaðrar greiningarvinnu Framsóknarflokksins í aðdraganda flokksþings árið 2005 var ljóst að klár meirihluti Framsóknarmanna vildu skoða aðildarumsókn að Evrópusambandinu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

En vegna hatrammrar baráttu stækra andstæðinga Evrópusambandsins gegn því að aðildarumsókn að Evrópusambandinu yrði skoðuð gáfu stuðningsmenn mögulegrar aðildarumsóknar eftir. Flestir þeirra mátu mikilvægara að halda flokknum saman og fresta ákvörðun um aðildarumsókn eða aðildarumsókn ekki að sinni.

Enda börðust meðal annars áhrifamiklir ráðherrar og fyrrverandi ráðherrar með kjafti og klóm gegn meirihlutaskoðun flokksþingsfulltrúa í Evrópumálum. Þar gerði tilfinnaríkt innlegg hins ástsæla leiðtoga Framsóknarmanna, Steingríms Hermannssonar, gegn aðildarumsókn að Evrópusambandinu gæfumuninn.

Fylgjendur aðildarumsóknar að Evrópusambandinu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum drógu sig í hlé í anda samvinnu og frjálslyndis til að koma í veg fyrir alvarlega sundrung flokksins. Andstæðingar aðildarumsóknar unnu fullan sigur þótt færri væru.

Afleiðingar þessa varð sú að fjölmargir góðir samvinnumenn og frjálslyndir miðjumenn hættu þátttöku í starfi Framsóknarflokksins og sumir sögðu sig alfarið úr flokknum.

Þrátt fyrir þetta hélt fagleg umræða um kosti og galla aðildar að Framsóknarflokknum áfram innan flokksins. Sú umræða náði hámarki í aðdraganda flokksþings í janúar 2009 – flokksþings sem svaraði kalli þjóðarinnar um endurnýju og endurnýjaði algerlega forystusveit Framsóknarflokksins.

Hluti hins nýja Framsóknarflokks var breið samstaða um að sækja skyldi um aðild að Evrópusambandinu með ákveðnum skilyrðum. Rúmlega 90% þingfulltrúa á rúmlega 900 fulltrúa flokksþingi Framsóknarflokksins í janúar 2009 samþykkti að hefja ætti aðildarumsókn.

Þrátt fyrir það var lítill en afar öflugur hópur innan Framsóknarflokksins sem staðfastlega vildi vinna gegn aðildarviðræðum að Evrópusambandinu. Sumir þeirra ákváðu að bera kápuna á báðum öxlum og tjá sig sem minnst um samþykkta stefnu Framsóknarflokksins í Evrópumálum.

Fleiri en einn og fleiri en tveir þeirra náðu að komast í efstu sæti Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningarnar 2009 og fleiri en einn og fleiri en tveir náðu kjöri.

Þrátt fyrir skýra stefnu Framsóknarflokksins sem byggist á margra ára faglegrar upplýsingaöflunar og umræðu um kosti og kalla aðildar að Evrópusambandinu, þá telja flestir kjósendur að Framsóknarflokkurinn sé gegn aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Eðlilega þar sem áberandi þingmenn tala og kjósa gegn stefnu sem grasrót Framsóknarflokksins vann og samþykkti á flokksþingi í janúar 2009.

Stefnu sem byggir á margra ára umræðu og upplýsingaöflun.

Það er sárgrætilegt að horfa upp á þessa stöðu þar sem sumir þingmenn og forystumenn Framsóknarflokksins vanvirða áralanga faglega vinnu almennra Framsóknarmanna og vinan gegn samþykktri stefnu flokksins um aðildarviðræður á grunni ákveðinna skilyrða.

Eftirfarandi var eitt helsta áherslutriði í kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningarnar árið 2009:

“… að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar líkt og kveðið er á um í skilyrðum síðasta flokksþings framsóknarmanna. Viðræðuferlið á að vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings.”

Þar sem Framsóknarflokkurinn er ekki lengur að vinna heilsteyptur að framgangi aðildarumsóknar að Evrópusambandinu er ljóst að núverandi og fyrrverandi Framsóknarmenn og aðrir miðjumenn sem vilja láta reyna á aðildarumsókn að Evrópusambandinu verða að finna sér öflugan vettvang utan Framsóknarflokkinn þar sem leiðarljósið er samvinna og frjálslynd miðjustefna.

Fagleg vinna Framsóknarflokksins í Evrópumálum:

Evrópunefnd Framsóknarflokksins 2001 – niðurstöður smella hér 

Skýrsla Evrópunefndar Framsóknarflokksins 2007 – smella hér

Skýrsla gjaldmiðilsnefndar Framsóknarflokksins 2008: „Staða krónunnar og valkostir í gjaldeyrismálum“

Samþykkt stefna Framsóknarflokksins á flokksþingi 2009 – smella hér


Ég legg hugsjónir mínar í dóm þjóðarinnar

Ég er stoltur af því að vera einn hinna rúmlega 500 Íslendinga sem voru reiðubúnir að leggja sig, stefnumál sín og framtíðarsýn í dóm þjóðarinnar með því að bjóða sig fram til stjórnlagaþings.

Ég er ánægður yfir því hve fjölbreyttur hópurinn er og sérstaklega hve stór hluti frambjóðendanna eru venjulegt fólk víðs vegar úr samfélaginu og af öllum stéttum.

Það er nefnilega meira en að segja það að leggja sig, hugðarefni sín og vonir í dóm þjóðarinnar. Því það að vilja taka þátt í sköpun nýrrar stjórnarskrár er að leggja vonir sínar um framtíð Íslands og Íslendinga sem þjóðar í dóm þjóðarinnar.

Ég gleðst yfir því hve kosningabaráttan hefur verið hófsöm, jákvæð og uppbyggjandi. Þvert á kosningahefð þjóðarinnar þar sem átök, neikvæðni og niðurrif hefur verið fyrirferðarmeiri en jákvæðni og uppbyggjandi umræða.

Mér líður vel í því frelsi sem felst í því að bjóða mig fram alfarið á mínum eigin forsendum, með mínar skoðanir og stefnumál ómenguð. Sú upplifun treystir enn þá trú mína að viðhafa skuli persónukjör í kosningum á Íslandi.

Þótt ég berjist af alefli fyrir mínum hugsjónum og vil veg þeirra sem mestan þá finnst mér mikilvægt að á stjórnlagaþing verði kjörnir fulltrúar mismunandi sjónarmiða og mismunandi hugsjóna. Því stjórnlagaþing á að vera stjórnlagaþing þjóðarinnar en ekki stjórnlagaþing einstakra hugmynda og hópa.

Stjórnlagaþing þjóðarinnar verður stjórnlagaþing þjóðarinnar með því að fulltrúar með mismundandi bakgrunn og mismunandi hugmyndir takist á í uppbyggilegum umræðum og komi sér saman um meginreglur stjórnskipunar Íslands í tillögu til nýrrar, sterkrar stjórnarskrár. Traustri stjórnarskrá sem þjóðin geti í þjóðaratkvæðagreiðslu sammælst um að geti orðið leiðarljós þjóðarinnar á 21. öldinni.

Ég legg mínar hugsjónir, mínar áherslur og mína krafta í dóm þjóðarinnar undir auðkenninu #9541 í kosningum til stjórnlagaþings þjóðarinnar.


Stjórnarskrá Íslands byggi á frjálslyndi og umburðarlyndi

Stjórnarskrá Íslands á að byggja á frjálslyndi og umburðarlyndi, tryggja þegnum landsins örugg mannréttindi og beint lýðræði, skilvirka og lýðræðislega stjórnskipun, réttlátt og óháð dómskerfi og að landsmenn njóti allir ávaxtanna af nýtingu náttúruauðlinda landsins.
Stjórnlagaþing þjóðarinnar er eðlilegt og nauðsynlegt skref í endurreisn Íslands. Á það benti ég í kjölfar hrunsins í pistli mínum þann 12. janúar 2009 " Þjóðkjörið stjórnlagaþing móti stjórnskipan framtíðarinnar". Ég hef barist fyrir þessari hugsjón minni æ síðan. Því var það eðlilegt af minni hálfu að gefa kost á mér til setu á stjórnlagaþingi.

Í stjórnarskrá vil ég helst tryggja:

  • Persónukjör og rétt til þjóðaratkvæðagreiðslna.
  • Raunverulegan aðskilnað löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds.
  • Að dregið verði úr miðstýringu ríkisstjórnarvaldsins.
  • Nýjar grunnstjórnsýslueiningar í formi öflugra, sjálfstæðra og lýðræðislegra héraðsstjórna sem taki yfir sem stærstan hluta fjárveitingarvalds, framkvæmdavalds og samfélagslegra verkefni ríkis og sveitarfélaga.

Þessi baráttumál mín eru ekki ný af nálinni eins og sjá má á pistlum mínum "Stjórnlagaþing, persónukjör og auðlindirnar í þjóðareigu " og "Sterk og miklu stærri sveitarfélög eru framtíðin".

Að sjálfsögðu eru stefnumál mín fleiri og fjölbreyttari.  Til að kynna þau hef ég ákveðið að rjúfa árslanga bloggþögn mína og er nú farinn að blogga á Eyjunni

Á þessari bloggsíðu minni á Moggablogginu hef ég sett upp tengla sem vísa á gagnlegar upplýsingar sem varða stjórnlagaþing og kosningar til þess, tengla sem vísa á stjórnarskrár ýmissa landa og tengla sem tengjast síðum áhugaverðra frambjóðenda til stjórnlagaþings. Sá listi mun lengjast þegar ég hef kynnt mér stefnumál meðframbjóðenda minna.

Ég bloggaði nær daglega og stundum oft á dag á þessari bloggsíðu um landsins gagn og nauðsynjar frá því í marsmánuði 2007 fram í septembermánuð 2009. Því hafa þeir sem vilja kynna sér stefnumál mín og skoðanir úr drjúgum potti að veiða. Til að auðvelda aðgang að fyrri pistlum mínum hef ég komið fyrir leitarvél hér til hægri.

Starfsferil minn, nám og þátttaka í félagsstörfum er einnig að finna á vefsíðunni hér til hægri og einnig unnt að skoða hann með því að smella á hér.

Ábendingum og athugasemdum er unnt að koma til mín á netfangið hallur@spesia.is auk þess sem athugasemdakerfið á blogginu er að sjálfsögðu öllum opið.

Ég hlakka til að taka þátt í þeirri umræðu og þeirri kosningabaráttu sem framundan er og óska eftir stuðningi í kosningunum til stjórnlagaþings 27. nóvember.


Auðkennisnúmer mitt á stjórnlagaþing er 9541

Aðdragandi, innleiðing og áhrif breytinga á útlánum Íbúðalánasjóðs 2004

Rannsóknarnefnd Alþingis kannaði ekki nægilega undirbúning og skipulag ákvarðana um breytingar á útlánareglum Íbúðalánasjóðs sem áttu að taka gildi á árunum 2004 til 2007.

Allur undirbúningur ákvörðunartöku vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á opinbera húsnæðislánakerfinu miðuðu markvisst að því að valda eins litlum efnahagslegum áhrifum og nokkur kostur var og allt kapp var lagt á að vanda undirbúning og feril þessara breytinga.

Skýrslan sýnir að það voru róttækar breytingar á útlánareglum viðskiptabankanna sem settu þessar fyrirætlanir í uppnám og voru meginorsök víðtækrar hækkunar fasteignaverðs og þenslu efnahagslífsins sem stjórnvöld höfðu takmörkuð tök á að bregðast við.

Þær breytingar sem stjórnvöld gerðu á opinbera húsnæðiskerfinu í kjölfar þessa höfðu hverfandi áhrif á þróun efnahagsmála.

Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis um að þær breytingar sem gerðar voru á útlánareglum Íbúðalánasjóðs árið 2004 hafi verið með stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda að falli bankanna stenst því ekki gaumgæfilega skoðun.

Sjá staðreyndir málsins:

Aðdragandi, innleiðing og áhrif breytinga á útlánum Íbúðalánasjóðs 2004


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Takk fyrir mig!

Kæru lesendur!

Nú þegar Ólafi Þ Stephensen hefur verið sagt upp sem ritstjóra Morgunblaðsins hef ég ákveðið að hætta að blogga á mbl.is. Ég vil því þakka þeim 415.606 gestum sem lesið hafa blogg mitt frá því ég byrjaði að blogga á haustmánuðum árið 2007. Sérstaklega vil ég þakka þeim 289.674 gestum sem ómökuðu sig á að lesa pistla mína undanfarið ár.

Ég hef haft það sama að leiðarljósi á blogginu og ég hef haft í lífinu frá því á unglingsaldri - að segja það sem mér finnst - hvort sem það komi mér illa eður vel.

Ég vona að innlegg mitt hér á mbl.is undanfarin tvö ár hafi eitthvað haft að segja í þjóðmálaumræðunni - umræðu sem líklega hefur sjaldan verið eins frjó og undanfarin misseri - þökk sé þessum lýðræðislega miðli blogginu.

Kærar þakkir fyrir mig.

Kveðja

Hallur Magnússon

www.spesia.is


Ólafur Stephensen var góður ritstjóri Morgunblaðsins

Ólafur Stephensen var að mínu mati góður ritstjóri Morgunblaðsins á erfiðum tímum. Mér finnst hann hafa reynt að gera Morgunblaðið að óháðum, kröftugum og vönduðum fjölmiðli. Vandi Ólafs var hins vegar verulegir fjárhagslegir erfiðleikar í rekstri blaðsins - og að hann fékk aldrei fullkomið ritstjórnarvald yfir blaðinu. Þurfti að dragnast með það sem einhverjir gætu kallað lík í lestinni.

Því fer fjarri að ég og Ólafur Stephensen séum sammála um allt. Þvert á móti erum við ósammála um mjög marga hluti. Það breytir ekki skoðun minni á Ólafi sem ritstjóra og vönduðum blaðamanni.

Sú skoðun byggir á kynnum mínum af Ólafi þegar við störfuðum báðir sem ungir blaðamenn á sitthvorum fjölmiðlinum og vorum hvor á sinn hátt róttækir. Sátum oft hlið við hlið á borgarstjórnarfundum og sendum fréttir þaðan. Þá var Davíð Oddsson borgarstjóri.

Við tókumst þá stundum á um menn og málefni í samræðum. Vorum nánast alltaf ósammála.

Ég var reyndar skammaður af félögum mínum þegar ég bloggaði á þann veginn að ég teldi Ólaf rétta manninn í djobbið. Ég er ennþá þeirrar skoðunar.


mbl.is Ólafur kvaddi starfsmenn Morgunblaðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lykilatriði í framþróun Evrópusambandsins

Samþykkt efri deildar hins þýska Bundersrat á lögum sem heimila staðfestingu á Lissabonsáttmálanum er lykilatriði fyrir framþróun Evrópusambandsins og skiptir miklu máli fyrir inngöngu Íslands í bandalagið kjósi íslenska þjóðin inngöngu þegar aðildarsamningur liggur fyrir.

Nú eru það frændur okkar Írar sem eiga næsta leik - en þeir hafa verið afar tortryggnir gagnvart  Lissabon sáttmálanum.

Talandi um Íra. Andstæðingar Evrópusambandsins hafa mikið velt sér upp úr efnahagsörðugleikum Íra um þessar mundir. Þeir virðast reyndar hafa gleymt hver staða Írlands var áður en þeir gengu í Evrópusambandið og tóku upp Evru. Nánast efnahagsleg auðn!

Þá er ljóst að írska kreppan væri enn dýpri - og jafnvel svipuð okkar - ef Írar hefðu ekki verið í Evrópusambandinu og tekið upp Evru.

Við ættum að hafa það í huga.


mbl.is Staðfestu Lissabon-sáttmálann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afstaða Spánverja til aðildarviðræðna mikilvæg fyrir Íslendinga

Það eru gleðifréttir að Miguel Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar skuli leggja áherslu á að aðildarviðræðum Íslendinga við Evrópusambandið ljúki strax á næsta ári. Spánverjar taka við formennsku í Evrópusambandinu af Svíum um áramót. Það er því mikilvægt að Spánverjar styðji aðild Íslands að Evrópusambandinu og þeir leggja áherslu á að hraða viðræðum eins og kostur er.

Það skiptir nefnilega miklu máli að Íslendingar geti sem allra fyrst tekið endanlega afstöðu til aðildar þannig það sé ljóst sem allra fyrst hvort framíðaruppbygging Íslands verði innan eða utan Evrópusambandsins.

Afstaða Íslendinga mun ekki verða ljós fyrr en aðildarsamningur liggur fyrir og ljóst er hver staða Íslands innan Evrópusambandsins yrði og hvort mikilvægum hagsmunum Íslendinga verði fórnað ef gengið er í sambandið.

Um þessar mundir er nokkur meirihluti landsmanna sem er mótfallinn inngöngu í Evrópusambandið - en fyrir skömmu var því öfugt farið.

Það var því rétt að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið og fá á hreint hvað aðild þýðir fyrir Íslendinga í aðildarsamningi. Á grundvelli aðildarsamnings á þjóðin að taka endanlega afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er best fyrir alla að það verði gert fyrr en síðar.

Fundir Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar með Moratinos eru mikilvægt skref í umsóknarferlinu. Stjórnvöld þurfa á næstu vikum og mánuðum að vinna mikilvæga vinnu við undirbúning aðildarviðræðnanna svo unnt verð að ná fram eins hagstæðum samningi og unnt er þannig að þjóðin sé þess fullviss að hún sé að greiða atkvæði um besta mögulegu stöðu Íslands innan Evrópusambandsins þegar þar að kemur.

Það er mikilvægt fyrir framhaldið að þjóðin sé þess fullviss að ekki hafi verið slakað á í aðildarviðræðunum og að niðurstaðan sé sú besta mögulega.

Hvort sá samningur er nægilega góður svo meirihluti þjóðarinnar samþykki hann mun framtíðin leiða í ljós. En niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar ákvarðar framtíðastefnu Íslands og þjóðin á að standa saman um áframhaldið hver sem niðurstaðan verður. En sú framtíðarstefna þarf að liggja fyrir eins fljótt og auðið er.


mbl.is Aðildarferli ljúki á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármögnun á núllausn á fjárhagsvanda heimilanna

Það verður spennandi að sjá hver svör Breta og Hollendinga verða - þau geta skipt sköpum hvað varðar endurreisn Íslands. Hluti af endurreisn Ísland er að styðja fjölskyldurnar í landinu við að komast í gegnum stóraukna greiðslubyrði af lánum á meðan tekjur dragast saman og fasteignaverð lækkar.

Ég kom á framfæri svokallaðri núllausn á bloggi mínu í morgun. Tillögu að lausninni var komið til mín af hugmyndasmiðnum fyrir allnokkru síðan - þótt ég birti hana opinberlega fyrst nú.

Lausnin hefur einnig verið kynnt á bloggsíðu Jóns Árna Bragasonar. 

Bæti nú við í umræðuna umfjöllun um það hvernig fjármagna skuli núllausnina:

"Gefum okkur að af 1200 milljarða fasteignalánum heimilanna séum við að greiða 90 milljarða á ári í vexti. Það er það sem fjármálakerfið eða öllu heldur eigendur fasteignalána yrðu af árlega næstu 3 árin ef þjóðarsátt um núllvexti yrði gerð.

Í Vaxtasjóðinn kæmu 30 milljarðar þar sem við skattleggjum sparnaðinn ( minni vaxtagreiðslur heimilanna ) um 33%. Greitt er af honum til eigenda fasteignalánanna. Í þessu tilfelli myndi ég greiða það allt saman inn í Íbúðalánasjóð. Þá standa eftir 60 milljarðar í tapaðar tekjur.

Lífeyrissjóðir, sem eru eign heimilanna, tækju á sig 36 milljarða af þeirri upphæð með því að fá 36 milljarða í lægri ávöxtun á eignir sínar árlega. Lífeyrissjóðirnir, sem eru eign okkar, eiga í dag um 1.800 milljarða. 1% ávöxtun eigna skilar því 18 milljörðum á ári. Því er einungis um það að ræða að Lífeyrirsjóðirnir, sem eru eign heimilanna, sætti sig við 2% lægri ávöxtun en ella væri á samningstíma. Rétt er að benda á í þessu sambandi að Lífeyrissjóðirnir, sem eru eign okkar, töpuðu um 200 milljörðum á síðasta ári og þeir hurfu í fjármálakerfið og atvinnulífið. Þetta eru því smámunir einir og krefst eingöngu vandaðrar og áhættulausrar stýringu á eignum.

Eftir voru 60 milljarðar og Lífeyrissjóðirnir, sem eru eign heimilanna, tækju 36 milljarða og þá eru 24 milljarðar eftir.

Fjármálakerfið, sem er að mestum hluta í eign ríkisins, sem er í sameign okkar, er líklega um 4.000 milljarðar að stærð. Stór hluti rekstrarkerfisins byggir á þeim vaxtamun sem kerfið tekur sér. 1% vaxtamunur gefur til dæmis af sér um 40 milljarða á ársgrunni. Gefum okkur það að við ætlum fjármálakerfinu, sem er okkar sameign, að taka á sig 15 milljarða af þessum 24 milljörðum. Það þýðir að fjármálakerfið, sem er sameign okkar, þarf einungis að vinna með 0,4% minni vaxtamun en ella. Þessu er auðveldlega hægt að ná með betri rekstri og hagkvæmari einingum.

Þá eru eftir 9 milljarðar enn sem þarf að bæta úr. Það er einfalt. Gert er ráð fyrir því að greiða 9 milljarða árlega í vaxtabætur til heimilanna og svo var gert vegna tekjuársins 2008. Þau útgjöld ríksins falla niður vegna þess að heimilin hætta að borga vexti í 3 ár. Því eru þeir 9 milljarðar afskaplega einfaldlega fluttir yfir í Vaxtasjóðinn og úr honum greitt inn til Íbúðalánasjóðs.

Hér með er því búið að dreifa byrðunum með sanngjörnum og réttlátum hætti. Heimilin losna við 90 milljarða vaxtagreiðslur. Heimilin greiða 30 milljarða í skatt inn í Vaxtasjóðinn. Heimilin geta notað hina 60 milljarðana til að mæta lækkandi tekjum, eða aukið neysluna, eða greitt lánin sín hraðar niður eða sparað og lagt fyrir. Á hinni hliðinni eru ríkið engu að kosta til. Íbúðalánsjóður fær allt sitt bætt. Lífeyrissjóðirnir, sem eru eign heimilanna, taka þátt í endurreisninni og styðja við eigendur sína án þess að afskrifa krónu. Þeir meira að segja ávaxta sitt fé betur en ella og minnka áhættuna sína á töpuðum eignum. Fjármálakerfið tekur sínar byrðar en samt að algjöru lágmarki og vel innan þeirrar kröfu sem hægt er að gera um hagkvæmar, arðsamari, áhættulausari og skynsamlegri rekstur en verið hefur.

Vandinn leystur fyrir alla og við getum einbeitt okkur að því að laga til í þjóðfélaginu og koma atvinnulífinu í gang og atvinnustiginu í samt lag."

 


mbl.is Hugmyndir Breta og Hollendinga kynntar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband