Færsluflokkur: Bloggar
Alveg ágætur Árni Páll
10.4.2007 | 19:33
Það var alveg ágætur Árni Páll Árnason í hinum frábæra Morgunhana Jóhanns Haukssonar í morgun. Árni Páll sýndi með sköruglegum málfutningi að þar er á ferðinni öflugt leiðtogaefni, sem Samfylkingunni veitir ekki af.
Ljóst að Árni Páll verður afar öflugur varaþingmaður á næsta kjörtímabili og mun væntanlega taka við sem leiðtogi Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi að fjórum árum liðnum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nauðsynlegt að flytja Seðlabankann á Ísafjörð!
29.3.2007 | 18:42
Í ljósi röksemdafærslna Seðlabankans í tengslum við verðbógluspá sína er ljóst að það er ekki einungis rétt að flytja Seðlabankann, heldur er nauðsynlegt að flytja Seðlabankann á Ísafjörð.
Seðlabankinn verður að ná jarðtengingu og sambandi við vinnandi fólk í landinu, venjulegt fólk sem stritar í svita síns andlits. Ísafjörður er úrvalsstaður til þess.
Það er alveg ljóst að þótt sérfræðingarnir í Seðlabankanum telji sér trú um það að þjóðin sé tilbúin að horfa fram á 5% atvinnuleysi til að ná verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, þá er það ekki raunin. Íslendingar sætta sig ekki við atvinnuleysi.
Menn ætti kannske að rifja upp þátt Seðlabankans í þenslu undanfarinna ára! Það var nefnilega Seðlabankinn sem minnkaði bindiskyldu bankanna á versta tíma og fyllti þannig vasa bankanna af peningum sem þeir þuftu að koma út í formi útlána. akkúrat þegar ljóst var að þensluskeið var framundan. Sú aðgerð kynnti heldur betur á verðbólgubálinu sem bankinn hefur síðan verið að eiga við - og stundum virst bæta í köstinn frekar en hitt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Opið land - gott innlegg
27.3.2007 | 12:50
Er með í höndunum Opið land, nýja bók Eiríks Bergmanns. Verð að segja að mér virðist þetta gott innlegg í þjóðmálaumræðuna og skyldulesning fyrir þá sem hafa áhuga á þjóðmálum á Íslandi. Eftir að hafa rétt flett gegnum gripinn finnst mér innlegg hans um óttann við útlendinga sérstaklega áhugaverður - sem og umfjöllun um Litháa sem eru bara alveg eins og Íslendingar!
Sá á heimasíðunni hans Eiríks að það er unnt að lesa upphaf bókarinnar á netinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Já, Seðlabankann á Ísafjörð!
26.3.2007 | 23:46
Pistill minn, Seðlabankann á Ísafjörð? hefur vakið nokkra athygli og hefur jafnvel verið vitnað til hans á vefsíðu hins skemmtilega vestfirska blaðs BB sem er mér mikill heiður.
Margir hafa spurt mig hvort ég meini virkilega að það ætti að færa Seðlabankann á Ísafjörð. Já, ég meina það virkilega. Geri mér grein fyrir að það eru ekki miklar líkur á að bankinn verði fluttur þar í einu lagi, en er eitthvað því til fyrirstöðu að færa einhvern hluta hans þangað?
Eins og fram kom í fyrri pistli mínum þá vinn ég í opinberu fyrirtæki sem er með starfsstöðvar bæði í Reykjavík og Sauðárkróki. Ég veit hvað starfstöðin á Sauðárkróki skiptir fyrir Skagfirðinga. Vestfirðingar eiga það inni hjá okkur að fá hluta af alvöru opinberu fyrirtæki flutt vestur til að styrkja samfélagið þar.
Opinber fyrirtæki eiga að flytja þann hluta starfsemi sinnar sem unnt er að flytja með góðu móti frá höfuðborgarsvæðinu út á land. Við eigum öll ríkisfyrirtækin - ekki bara við höfuðborgarbúarnir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Óli "Léttfeti" og Mjólka í Borgarnes!
25.3.2007 | 12:02
Það eru ánægjuleg tíðindi að vinur minn Ólafur "Léttfeti" Magnússon hyggist flytja Mjólku í Borgarnes vegna þess að starfsemin hefur sprengt utan af sér í núverandi húsnæði.
Gleði mín er þríþætt.
Í fyrsta lagi gleðst ég yfir velgengni vinar míns Ólafs "Léttfeta".
Í öðru lagi gleðst ég yfir velgengni Mjólku sem er nauðsynlegt aðhald risans MS Auðhumlu, bæði á neytendamarkaði og gagnvart bændum sem hafa nú val um hverjum þeir selja mjólkina sína.
Í þriðja lagi gleðst ég yfir því að aftur er farið að vinna mjólk í Borgarnesi, sem reyndar er nú orðinn hluti Kolbeinstaðahrepps hins forna, enda hálfur Kolhreppingur. Þetta styrkir atvinnulífið á þessum slóðum.
Svona í lokin fyrst ég er farinn að snerta sameiningarmál - þá skil ég ekkert í því afhverju sveitarfélagið var ekki nefnt því tígurlega nafni "Eldborg" - þegar Eldborg í Hnappadal kom inn í sveitarfélagið með Kolbeinsstaðahreppi hér um árið
Svo er nú það!
Afurðastöð Mjólku verði flutt í Borgarnes | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Unglingur um hækkun bílprófsaldurs
22.3.2007 | 08:57
Dóttir mín var að fá æfingaleyfi vegna bílprófs og mun væntanlega fá bílprófsréttindi í lok apríl. Þetta minnir mann á að tíminn líður - og ég er ekkert unglamb lengur!
Það er væntanlega þess vegna sem hún velur að skrifa smá pistil í skólanum um hækkun bílprófsaldurs, en umræða um að hækka bílprófsaldur í 18 ár hefur skotið upp kollinum af og til.
Mér finnst ekki úr vegi að sýna alþjóð viðhorf 16 ára stelpu sem bíður eftir bílprófinu sínu:
"Hér á eftir ætla ég að fjalla lítilega um hækkun bílprófsaldursins og af hverju ég tel hann ekki eiga eftir að fækka slysum.
Mikið hefur verið rætt um það að hækka bílsprófsaldurinn vegna þess hve mörgum slysum ungt fólk veldur, eða hefur sjálft lent í undanfarin ár . Það er að vísu rétt að mörg slys verða vegna ungs fólks á aldrinum 17 20 ára . En það má ekki gleyma þvi að fullorðið fólk veldur þeim líka .
Ég tel að það muni ekki hjálpa neitt að hækka aldurinn uppi 18 ár . Því fólk þroskast ekki svo mikið á einu ári . Auk þess fær það alveg jafn langan undirbúningstíma hvort sem er. Það má byrja í ökukennslu einu ári áður en aldri til að byrja keyra er náð.
Oft verða umferðaslys þegar ungir strákar ( í flestum tilvikum ) eru að sýna hvað þeir geta og keyra þar af leiðandi of hratt. Í þeim tilvikum finnst mér að í staðinn fyrir að hækka bílprófsaldurinn, eigi einfaldlega að vera betri löggæsla í umferðinni og hærri sektir heldur en nú gengur og gerist. Því ungt fólk á oft ekki mikið af peningum og ef það lendir einu sinni í svona aðstöðu að borga himinháa sekt t.d. fyrir að vera ekki með bílbelti, fara yfir á rauðu ljósi, eða einfaldlega keyra of hratt.
Þá myndi það forðast eins og heitan eldinn að endurtaka svona vitleysisgang aftur og kanski gera sér betur grein fyrir alvöru málsins.
Þess vegna tel ég að fólk komi alveg jafn óundirbúið eða vel undirbúið, út í umferðina hvort sem það fengi prófið 18 ára eða 17 ára . Vegna þess að það er einfaldlega með sömu reynsluna .
Þetta er eins og að halda því fram að nemandi í myndlist kynni betur að teikna ef hann væri 18 ára og byrjaði 17 ára að læra að teikna en myndi teikna ver ef hann myndi byrja að læra þegar hann væri 16 ára og lyki teiknináminu við 17 ára aldurinn.
Ungt fólk sem er ekki komið með bílpróf notar strætó mikið og er það bæði dýrt , tímafrekt og mjög leiðinlegt . Strætisvagninn er nær aldrei á réttum tíma og þá er unga fólkið að koma of seint til vinnu eða skóla og ekki er það nú gott . Það er því voða gott að geta verið komin með bílpróf þegar maður er orðinn 17 ára . Þá getur maður hjálpað til heima og t.d sótt yngri systkini sín á leikskólann þegar foreldrar eru i vinnu.
Í staðinn fyrir að hækka aldurinn uppí 18 ár væri ef til vill sniðugra að leyfa unga fólkinu að byrja að læra fyrr svo það hafi meiri tíma til að venjast umferðinni og hættunum sem í henni leynast . Þá myndi unga fólkið koma betur undirbúið út í umferðinna og væri að auki vanara að keyra. Það myndi klárlega fækka slysum í umferðinni.
Álfrun Elsa Hallsdóttir "
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Seðlabankann á Ísafjörð?
20.3.2007 | 11:24
Hvernig væri að flytja Seðlabankann á Ísafjörð? Þessa spurningu spurði vinnufélagi minn mig í morgun.
Fyrstu viðbrögð mín voru neikvæð, en svo fór ég að hugsa!
Ísafjörður hefur farið illa út úr flutningi hátæknifyrirtækis af staðnum og samkvæmt nýlegri tölfræði hefur staðurinn verið afar afskiptur hvað varðar flutning opinberra starfa út á landsbyggðina. Það er æskilegt að flytja alvöru opinbert fyrirtæki vestur, allt eða hluta þess. Vestfirðingar eiga það inni hjá þjóðinni.
Ég vinn í fyrirtæki sem er staðsett á tveimur stöðum, 50 manns í Reykjavík og 16 á Sauðárkróki. Þetta fyrirkomulag hefur gengið afar vel og starfstöðin á Sauðárkróki er til fyrirmyndar mönnuð metnaðarfullu starfsfólki.
Því þá ekki að flytja Seðlabankann á Ísafjörð?
Það myndi fjölga hámenntuðu fólki á staðnum sem hvort eð er er ekki á þeytingi vítt og breytt um höfuðborgina í starfi sínu, enda fer starfið fyrst og fremst fram inn á kontór og með upplýsingaöflun gegnum netið, skilst mér.
Margföldunaráhrifinn fyrir Ísafjörð yrðu veruleg - og háskóli á Vestfjörðum hefði aðgang að bestu hagfræðingum til kennslu og jafnvel rannsókna.
Auk þess myndi úrvals húsnæði á besta stað losna í miðbænum. Það væri best nýtt undir listaháskóla - sem stæði þá við hlið stærstu menningarhúsa landsins og við hlið ráðuneyti menningarmála!
Já, af hverju ekki að flytja Seðlabankann á Ísafjörð!
Svo er nú það!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sameign þjóðarinnar hefur gildi!
14.3.2007 | 11:09
Stjórnarskrá Íslands er sameign þjóðarinnar en ekki séreign lögfræðingastéttarinnar eins sjálfhverfir júristar vilja vera láta. Hún er pólitísk stefnuyfirlýsing sem leggur grunn að fullveldi Íslands og því stjórnarfari og lagasetningu sem Íslendingum er ætlað að búa við.
Það kann að vera lögfræðilegt álitamál hvort hugtakið sameign þjóðarinnar eitt og sér hafi beint lögfræðilegt gildi. Það skiptir bara engu máli. Hugtakið sameign þjóðarinnar hefur ótvírætt gildi sem pólitísk yfirlýsing sem alþjóð skilur og sem slíkt mun ákvæði um sameign íslensku þjóðarinnar á auðlindum Íslands hafa bein áhrif á lagasetningu eftir að það tekur gildi í stjórnarskrá.
Sjá nánar í pistlinum "Sjálfhverfir júristar og sægreifar"
SUF styður auðlindaákvæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Athyglisverð umræða um húsnæðislið vísitölunnar
12.3.2007 | 22:03
Það var ekki meiningin að fyrsta blogfærslan mín snerist um húsnæðismál, en ég rakst á athyglisverða blogfærslu frá fyrrum skólabróður mínum úr MH, Eyþóri Arnalds, "Á húsnæði heima í neysluvísitölunni".
Umræðan um það hvort sú aðferð sem notuð er á Íslandi við að reikna húsnæðisliðinn inn í vísitöluna á fullkomlega rétt á sér. Sú aðferð sem beitt hefur verið varð til þess að verðbólga á Íslandi hefur að sumra mati mælst langt umfram það sem hún hefði raunverulega átt að mælast að þeirra mati. Afleiðingar þess hafa verið okkur Íslendingum erfiðar.
Fram hafa komið athyglisverðar hugmyndir um að þróun húsnæðisverðs verði tekin úr verðbólgumælingunni, en þess í stað verði miðað við þróun byggingakostnaðar og húsaleigu. Það er ekki svo galin nálgun, sérstaklega í ljósi þess að stórhækkun húsnæðisverðs á afmörkuðum "lúxussvæðum" eins og við heitar götur í 101 Reykjavík endurspeglar ekki húsnæðiskostnað miðlungs Íslendings. Hækkunin sú hefur hins vegar haft mikil áhrif á hækkun neysluvísitölunnar.
Þegar skipulagsbreytingar voru gerðar á húsnæðislánakerfinu árið 2004 var fyrirsjáanlegt að einhverjar breytingar yrðu á verðstrúktúr íbúða, þótt engum hafi dottið í hug að nýir 200 - 300 milljarðar dældust inn á lánamarkaðinn frá bankakerfinu á örfáum mánuðum og að hækkanir á húsnæðisverði yrðu svo miklar sem raun bar vitni.
Þrátt fyrir að sú innspýting fjármagns væri ekki fyrirsjáanleg - þá voru á lofti raddir um að rétt væri að taka húsnæðisliðinn út úr mælingu neysluvísitölunnar á meðan möguleg áhrif skipulagsbreytinganna gengju yfir - enda ekki raunveruleg hækkun á neysluverði almennings að ræða þótt íbúðaverð hækkaði - þar sem greiðslubyrði af hærri lánum sem nýtt voru til að fjármagna kaup á dýrari íbúðum en áður, hækkaði ekki endilega þar sem vextir og þar af leiðir vaxtabyrði lækkaði á móti. Þá hækkaði greiðslubyrði þeirra sem ekki voru að kaupa húsnæði ekki vegna hækkunar húsnæðisverð - fyrr en það hafði áhrif á vísitöluna!
Kannske höfðu þessar raddir rétt fyrir sér! Allavega á umræða um húsnæðisliðinn í neysluvísitölunni fullkomlega rétt á sér.
Svo er nú það!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
...stigið létt inn í óðum stækkandi bloggheim!
12.3.2007 | 21:16
Ég er þeirrar gerðar að hafa skoðanir á flestu sem viðkemur þjóðmálum og finnst heilbrigð skoðanaskipti og vönduð umræða mikilvægur grunnur að þróun þess samfélags sem við búum við.
Vegna stöðu minnar sem starfsmaður opinbers fyrirtækis hef ég veigrað mér við að taka þátt í þeirri umræðu á mínum eigin persónulegu forsendum, enda legg ég áherslu á að vinna vinnunna mína faglega og koma fram fyrir fyrirtækið á forsendu þess óháð mínum eigin skoðunum.
Ég hef hins vegar ákveðið að stíga létt inn í óðum stækkandi bloggheim og koma mínum persónulegu skoðunum á framfæri þegar sá gállinn er á mér, ekki síst vegna þess að konan mín og börnin eru orðin leið á því að ég sé að rífast upphátt við sjónvarpið - eða fréttir og blogg á netinu
Þar sem margir tengja mig fyrst og fremst við vinnuna mína og það fyrirtæki sem ég starfa fyrir, þá vil ég biðja lesendur að hafa það ætíð í huga að ég er aldrei á blogginu sem opinber starfsmaður og málsvari þess fyrirtækis sem ég vinn hjá, heldur er um að ræða mínar eigin, persónulegu skoðanir.
Vonandi skripla ég ekki á skötunni í bloggskrifum mínum, en ef mér verður á, þá er það persónan Hallur Magg en ekki embættismaðurinn Hallur Magnússon sem heldur um pennann ...
Svo er nú það!
Kveðja
Hallur Magg
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)