Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Árni Páll Árnason framtíðarformaður Samfylkingarinnar?

Ég efast um að Ingibjörg Sólrún muni segja af sér sem formaður Samfylkingarinnar á næsta flokksþingi flokksins. En ég tel hins vegar líkur á að hún muni draga sig í hlé í kjölfar Alþingiskosninga.

Því mun eiginleg barátta um formennsku Samfylkingarinnar verða baráttan um varaformannsembættið. Þar hefur einungis einn gefið kost á sér. Hinn öflugi þingmaður Árni Páll Árnason - sem væntanlega er ráðherraefni Samfylkingarinnar í dómsmálaráðuneytið eftir að Lúðvík var úr leik.

Mun Árni Páll Árnason verða framtíðarformaður Samfylkingarinnar?

Eða munu fleiri koma fram á næstunni?

Ég held það.

Það er hins vegar enginn sterkur leiðtogi í sjónmáli. Dagur B. mun væntanlega koma fram.  Björgvin mun reyna. Sé enga sterka konu. Gunnar Svavarsson kemur örugglega til að missa ekki sæti sitt til Árna Páls. Nema Lúðvík bæjarstjóri í Hafnarfirði ákveði að taka slaginn.

Það ríkir greinilega forystukrísa í Samfylkingunni. Jón Baldvin sá það - og stimplaði sig inn.


mbl.is Segir þagnarmúr um formennsku í Samfylkingu rofinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðin kennir naktri konu að spinna

 „Við erum aldrei svo blönk að við höfum ekki efni á að hugsa.“ segir Vilhjálmur Bjarnason. Það er mikill sannleikur í þessu hjá honum. Þá vitum við líka að neyðin kennir naktri konu að spinna.

Við erum skítblönk og nánast eins og nakin kona.

En í þessari stöðu okkar eru möguleikar. Eins og alltaf. Við þurfum bara að hugsa skýrt, draga fram rokkinn og byrja að spinna ný sóknarfæri.  Ég finn í kring um mig að það er mikil gerjun í gangi. Það eru margar nýjar og góðar hugmyndir komnar á loft. Ég sé líka í kring um mig að rokkarnir eru farinn að snúast.

Við munum rísa úr öskustónni á ný.

Vilhjálmur bendir á þá staðreynd að Alþingi hafi aldrei tekið neina grundvallarákvörðun í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Hann nefnir að sú ráðstöfun að gengi gjaldmiðilsins skuli ákveðið í Seðlabankanum hafi verið ákveðið með bráðabirgðalögum árið 1961 framhjá Alþingi. Einnig hafi heimild til almennrar verðtryggingar verið lögfest sem aukaatriði með frumvarpi til laga um stjórn efnahagsmála. Ekki liggi heldur fyrir ákvörðun Alþingis í tengslum við frjálsa vexti, heldur hafi þeir verið heimilaðir á grundvelli gleymds ákvæðis í lögum um Seðlabanka Íslands í andstöðu við forsætisráðherra þegar hann var í fríi. 

Þetta er athyglisvert. Það er kannske þess vegna sem dregast að leggja skýra aðgerðaráætlun í efnahagsmálum fyrir Alþingi!

Nýtt Alþingi verður kosið næsta vor. Það hlýtur að vera eitt af meginverum þess Alþingis að taka grundvallarákvarðanir um efnahagsmál íslensku þjóðarinnar til framtíðar.

Það hlýtur einnig að vera eitt af meginverkum þess Alþingis að hugsa skýrt og veita þeim sem stíga rokkana stuðning og réttlátan lagaramma til þess að spinna garn í vef endurreisnarinnar á Íslands.

En Alþingi má þó ekki spinna togann. Við höfum nefnileg ekki langan tíma til að koma okkur á réttan kjöl á ný. 


mbl.is Aldrei of blönk til að hugsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við bíðum eftir íslenskum efnahagsaðgerðum

Við bíðum eftir íslenskum efnahagsaðgerðum. Vonandi tekur ríkisstjórnin á sig rögg og kemur fljótlega með íslensku aðgerðaráætlunina sem ríkisstjórnin lofaði okkur Framsóknarmönnum þegar ákveðið var að verja stjórnina falli.

Reyndar verið að taka nokkur hænuskref.

Ég hef sett fram aðgerð sem getur skipt sköpum fyrir heimilin, sjá: Aðgerðir vegna greiðslubyrði íbúðalána


mbl.is Efnahagsaðgerðir afgreiddar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgerðir vegna greiðslubyrði íbúðalána

Vonandi tekur ríkisstjórnin á sig rögg og kemur fljótlega með íslensku aðgerðaráætlunina sem ríkisstjórnin lofaði okkur Framsóknarmönnum þegar ákveðið var að verja stjórnina falli.

Set fram aðgerð sem getur skipt sköpum fyrir heimilin. Hef talað fyrir þessari leið frá því í haust - meðal annars á blogginu. Setti hugmyndina í minnisblað þegar ljóst var að ný ríkisstjórn væri að komast á koppinn.

Aðgerðir vegna greiðslubyrði íbúðalána

 Há greiðslubyrði íbúðalána ógnar stöðu fjölmargra íslenskra heimila í þeirri efnahagslægð sem nú gengur yfir.  Hættan á greiðsluþroti fjölda heimila sem leiðir af sér greiðslufall vegna íbúðalánas ógnar stöðu Íbúðalánasjóðs og annarra fjármálafyrirtækja. Markmið stjórnvalda í þessari stöðu hlýtur að vera sú að tryggja heimilum bærilegri greiðslubyrði vegna íbúðalána svo heimilin komist ekki í greiðsluþrot og jafnframt að tryggja Íbúðalánasjóði og öðrum fjármálafyrirtækjum sem veitt hafa heimilunum íbúðalán öruggt greiðsluflæði til að stöðu þeirra sé ekki ógnað. Það er ljóst að framtíðarfyrirkomulag íbúðalána og húsnæðisbóta getur ekki verið verkefni minnihlutastjórnar sem starfar nánast sem starfsstjórn fram að kosningum þar sem þjóðin mun endurnýja pólitískt umboð Alþingis. Hér á eftir koma tillögur að bráðabirgðaaðgerðum sem tryggja hóflega greiðslubyrði heimilanna og tryggja öruggt fjárstreymi til fjármálafyrirtækja vegna íbúðalána á næstu mánuðum og misserum. 

Greiðslubyrði fast hlutfall af brúttó innkomu

 Greiðendum íbúðalána verði gefinn kostur á að greiða ákveðið fast hlutfall brúttó innkomu sinnar  20% sem greiðslu af íbúðalánum sínum.. Íbúðalánasjóði, ríkisbönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum sem lánað hafa íbúðalán verði gert skylt að heimila lántakendum að velja tímabundið slíkt fast greiðsluhlutfall.  Gengið verði síðar frá uppgjöri á greiðslu mismunar lægri greiðslu vegna hins fasta hlutfalls og fjárhæðar hefðbundinnar afborgunar íbúðalánsins. 

Hefðbundin vísitölutryggð lán

Mismunur á greiðslu vegna hins fasta hlutfalls og fjárhæðar hefðbundinnar afborgunar íbúðalánsins verði fryst og bætist við höfuðstól lánsins um áramót. Ákvörðun um meðferð mismunarins til lengri tíma verði tekin að 3 árum liðnum.  Möguleika á meðhöndlun hærra láns gera þá orðið lenging láns ef greiðslubyrði er og há og í einhverjum tilfellum möguleg afskrift hluta lánsins. Ákvörðun um slíkt verði í höndum nýrrar ríkisstjórnar.

Gjaldeyrislán

Haldið verði utan um greiðsluflæði vegna gjaldeyrislána í íslenskum krónum. Uppgjör á greiðslum vegna gjaldeyrisláns verði um hver áramót. Ákvörðun um  hvort miðað verði við þá gengisvísitölu sem ríkir um áramót eða að uppgjör verði gert á sérstaklega ákveðinni gengisvísitölu verðu tekin þegar þar að kemur enda er ekki um endurgreiðslu ríkisbankanna á fjármögnun gjaldeyrislánanna að ræða fyrr en síðar.  

Hefðbundin vísitölutryggð lán

Ríkisbönkum verði gert skylt að veita viðskiptavinum sínum sambærilega greiðsluerfiðleikaaðstoð og hefðbundin greiðsluerfiðleikaaðstoð Íbúðalánasjóðs.

 


mbl.is Samþykktu aðgerðaráætlunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður drengur etur kappi við mig um 1. sæti xB í Reykjavík suður

Það er góður drengur sem etur kappi við mig um 1. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavík suður.  Ég hef átt gott samstarf við Einar Skúlason sem framkvæmdastjóra Alþjóðahúss. Bæði við uppbyggingu þjónustu Íbúðalánasjóðs við fólk af erlendu bergi brotnu og við undirbúning kynningarfunda sem ég hef haldið í Alþjóðahúsi fyrir útlendinga um íbúðalán og húsnæðismarkaðinn

Við erum - held ég - samstíga í afstöðunni til fólks af erlendu bergi brotnu - og í fjölda annarra mála!

Það verður skemmtileg að keppa við Einar um fyrsta sætið!

En fyrst það er komin samkeppni um sætið - þá er ekki úr vegi að minna á hvað ég hef verið að sýsla í gegnum árin - menntun, störf og félagsstörf.  Ferilskrá mín er hér.

Af því ég er farinn að ræða málefni fólks af erlendu bergi brotnu - þá er ekki úr vegi að vísa á blogg mitt frá því í gærkvöldi: Tökum áfram á móti flóttamönnum þótt harðni á dalnum


mbl.is Einar stefnir á fyrsta sætið hjá framsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tökum áfram á móti flóttamönnum þótt harðni á dalnum

Þótt það harðni á dalnum hjá okkur Íslendingum þá eigum við að halda áfram að leggja okkar af mörkum við móttöku flóttamanna. Íslendingar hafa um nokkurt skeið tekið reglulega á móti hópum flóttamanna, nú síðast einstæðum palestínskum mæðrum sem fengju skjól á Akranesi.

Ég hef verið sérstakur áhugamaður um móttöku flóttamanna um langt árabil. Ég fylgdist vel með því þegar Páll á Höllustöðum setti af stað metnaðarfullt móttökuverkefni flóttamanna þegar hann var félagsmálaráðherra og ég átti því láni að fagna að taka þátt í tveimur slíkum móttökum.

Verkefnið fólst í fyrstu að taka á móti flóttamönnum frá stríðshrjáðum svæðum fyrrum Júgóslavíu. Ég var framkvæmdastjóri fræðslu- og fjölskylduskrifstofu Suðausturlands á Höfn þegar Hornafjarðarbær, Félagsmálaráðuneytið og Rauðikrossinn unnu saman að móttöku 17 flóttamanna frá Krajina héraði árið 1997.

Það var afar ánægjulegt verkefni sem og undirbúningur móttöku næsta hóps á eftir en ég tók þátt í þeim undirbúningi til að miðla reynslu okkar á Hornafirði.

Talið er að um 20 miljón manns séu á flótta í heiminum. Einungis hluti þeirra fær stöðu flóttamanns. Mjög lítill hluti þeirra sem fá stöðu flóttamanns hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðannna (UNHCR). Mjög lítill hluti þeirra sem fá stöðu flóttamanna eru metnir í það mikilli hættu að þeim sé ekki vært nema í þriðja landi.

Íslendingar hafa tekið á móti flóttamönnum úr þessum hópi.   Við höfum tekið á móti fjölskyldum af blönduðum hjónaböndum Serba og Króata sem á sínum tíma var hvorki vært í Serbíu né Króatíu. Við höfum tekið á móti fólki sem hefur sætt ofsóknum í Kosovo. Tekið á móti einstæðum mæðrum og börnum þeirra frá Kólumbíu, sem sætt hafa ofsóknum, líflátshótunum og jafnvel mannsali. Móttaka flóttafólks til Íslands er mannúðarstarf og við getum verið stolt af hverju einasta mannslifi sem hefur verið bjargað. 

Við getum líka verið stolt af því hvernig tekist hefur að aðlaga flóttamennina að íslensku samfélagi og gera þeim kleift að standa á eigin fótum.
Ekki einn einasti flóttamaður sem ég veit að komið hefur til Íslands til að segja sig þar til sveitar. Þvert á móti. Fólkið vill hefja nýtt líf, vinna fyrir sér og sínum og taka virkan þátt í íslensku samfélagi.  

Við aðlögun flóttamannanna hefur verið fylgt þeirri ágætu meginreglu að  Róm ertu Rómverji og á  Íslandi ertu Íslendingur. Ætlir þú að taka virkan þátt í samfélaginu þarftu að spila eftir leikreglum þess og læra tungumál, siði og venjur. Á sama hátt hefur verið lagt að flóttamönnum á Íslandi að halda í sína menningu og kenna börnum sínum sitt upprunalega tungumál. Það er mjög mikilvæg fyrir hugtakaskilning og málþroska að þeir sem eru að læra nýtt tungumál leggi jafnframt rækt við sitt eigið.

Einnig má minna á að við erum stolt af því hvernig íslenskir innflytjendur í Kanada viðhéldu sínu móðurmáli og héldu siðum upprunalandsins Íslands.

Allir sem til þekkja eru sammála um að framkvæmd flóttamannaverkefna á Íslandi hafi tekist vel. Þau kosta vissulega peninga og þrátt fyrir að þeir fjármuni skili sér fljótt til baka þegar fólkið fer að vinna og skapa verðmæti eigum við að líta á þá fjármuni sem framlag ábyrgrar þjóðar til mannúðarmála.  

Fólk og stjórnmálaflokkar geta haft sínar skoðanir á alþjóðavæðingu, frjálsri för launafólks milli landa og þeirri staðreynd að á Íslandi búa um 19 þúsund manns af erlendum uppruna. En látum það vera að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur.   Móttaka flóttamanna og aðstoð við þá erlendis snýst um björgun mannslífa og gera fórnarlömbum stríðsátaka og ofbeldis kleift að hefja nýtt líf. Þess vegna á ekki að draga málefni flóttamanna inní rökræður þeirra sem hafa mismunandi skoðanir á Íslendingum af erlendum uppruna. 

Ég vona að við Íslendingar höldum áfram að taka á móti flóttamönnum á þann hátt sem við höfum gert fram að þessu, þrátt fyrir efnahagslægðina sem hrjáir okkur.


Gylfi vill evruna eins og ég - þótt ég sætti mig við færeysku krónuna!

Talandi um íslenskan Seðlabanka - þá er merkilegt að sjá íslenska viðskiptaráðherrann halda því fram að rökréttast væri að taka upp evruna.

Ég er reyndar sammála Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra um þetta og finnst hugmynd hans með því jákvæðasta sem komið hefur fram frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar.

Eftirfarandi frétt var á www.dv.is:

"Rökréttast væri fyrir Ísland að taka upp evruna, fremur en tengjast norsku krónunni, til að endurreisa efnahagslegan stöðuleika þjóðarinnar. Þetta segir Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, í samtali við Reuters fréttastofuna í dag.

Gylfi segir að skiptar skoðanir séu hér á landi um inngöngu í Evrópusambandið, sérstaklega vegna sjávarútvegsstefnu sambandsins sem Íslendingum hugnist mörgum hverjum illa.

„En ef við viljum trúverðugan gjaldeyri með trúverðugan seðlabanka að baki honum þá virðist sem svo að evran sé rökréttasta skrefið,“ er haft eftir Gylfa á Reuters. „Það eru aðrir möguleikar í stöðunni eins og einhverskonar samkomulag við Noreg en það er langsótt að mínu mati.“"

Reyndar sætti ég mig við færeysku krónuna, sem er beintengd við dönsku krónuna sem er tengd við evruna!


mbl.is Venjan að hafa einn eða fleiri aðstoðarbankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistök Framsóknar að hleypa ríkisstjórn af stað án raunhæfrar aðgerðaráætlunar?

Ég sé ekki betur en að Framsóknarmenn hefðu átt að bíða enn lengur eftir að ganga endanlega frá vilyrði sínu um að verja minnihlutastjórn VG og Samfylkingar vantrausti, en eins og alþjóð veit þá vildu Framsóknarmenn sjá raunhæfa aðgerðaráætlun VG og Samfylkingar áður en gengið yrði formlega frá vilyrði um að verja minnihlutastjórnina falli.

Slík aðgerðaráætlun leit ekki dagsins ljós - og hefur ekki gert það enn!

Það er vert að rifja upp að á sama tíma og þingflokkur Framsóknarflokksins fékk "aðgerðaráætlun" fyrirhugaðrar ríkisstjórnar í hendur voru klækjastjórnmálamenn Samfylkingarinnar - með framkvæmdastjóra þessara regnhlífarsamtaka í fararbroddi  - komnir á fullt í fjölmiðlum og í samfélaginu í áróðursherferð gegn Framsóknarmönnum sem sagðir voru draga lappirnar gegn myndun ríkisstjórnar - áður en unnt var að meta svokallaða "aðgerðaráætlun" VG og Samfylkingar.

Slíkir klækjastjórnmálamenn eru reyndar í essinu sínu hjá sömu flokkum í borgarstjórn en það er annað mál.

Niðurstaða Framsóknarmanna var sú að þótt "aðgerðaráætlun" VG og Samfylkingar væru hvorki fugl né fiskur - þá myndi flokkurinn verja minnihlutastjórn þessara flokka vantrausti - í trausti þess að ríkisstjórnin myndi fljótlega leggja fram raunhæfa aðgerðaráætlun til stuðnings heimilunum og atvinnulífi.

Því miður þá hefur minnihlutastjórnin ekki staðið undir væntingum. Líklega hefði það verið betra fyrir þjóðina að Framsóknarmenn hefðu verið staðfastari - og krafið núverandi ríkisstjórnarflokka um raunhæfa aðgerðaráætlun áður en gengið væri frá stjórnarsamstarfinu - í stað þess að treysta á að VG og Samfylking inni eftir slíkri áætlun.

Mér virðist alla vega að minnihlutastjórnin hafi svikið þjóðina um slíka raunhæfa áætlun.


mbl.is Niðursveiflan meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram, ekkert stopp í málefnum utangarðsfólks í Reykjavík!

Mikill árangur hefur náðst í málefnum utangarðsfólks í Reykjavík á undanförnum mánuðum og á næstunni munu verða tekin afar mikilvæg skref í heilbrigðis- og félagsþjónustu utangarðsfólks á grunni stefnu Velferðarráðs Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks.

Þetta kom meðal annars fram á morgunverðarfundi  samráðshóps um málefni heimilislausra í morgun.

Ég er stoltur yfir því að eiga þátt í þessi starfi á sama tíma og ég geri mér grein fyrir að mörg stór skref eru framundan, ekki hvað síst hvað varðar úrlausnir fyrir heimilislausar konur.

Meðal jákvæðra hluta sem unnið hefur verið að á undanförnu er opnun fjögurra smáhýsa fyrir utangarðsfólks þar sem fólkið hefur fengið varanlega búsetu, fjölgun plássa í gistiskýli, samningur við SÁÁ um allt að 20 búsetuúrræði með miklum félagslegum stuðningi, tilkoma iðjuþjálfunar fyrir utangarðsfólk á vegum Velferðarsviðs í dagsetri Hjálpræðishersins þar sem Velferðarsvið leggur til iðjuþjálfa í 1/2 stöðugildi, nýtt 1/2 stöðugildi hjúkrunarfræðings og nýtt 1/2 stöðugildi félagsráðgjafa sem sinna skulu utangarðsfólki á vettvangi - en gert er ráð fyrir að á næsta ári verði stöðugildin heil. 

Þá kom fram að Velferðarráð hyggst koma á fót nýjum búsetuúrræðum fyrir konur næsta vetur og að í gangi sé greiningar og undirbúningsvinna vegna þess. Einnig kom fram að í undirbúningi er sérstök úttekt á stöðu ungs heimilislauss fólks til þess að undirbúa markvissa aðstoð við það þar sem erfiðlega hefur gengið að ná til þess hóps .

Í fréttum ríkisútvarpsins í dag var frétt um að heimilislausar konur með geðrænan vanda dagi uppi á geðdeildum Landspítalans sökum skorts á búsetuúrræðum í borginni.  Þarna er sjónum beint að ákveðnum vanda sem verður að taka á, en í viðtali við deildarstjóra á sértækri geðdeild Landspítalans kom fram að nýgengi í hóp kvenna með geðrænan vanda og vímuefnavanda sé mikið og þörf sé á húsnæði og stuðningi við þennan ört stækkandi hóp.

Reyndar kom það skýrt fram á fundinum að verið er að vinna að málefnum utangarðskvenna hjá Reykjavíkurborg og að nú standi yfir á vegum Velferðarsviðs greiningarvinna og undirbúningsvinna fyrir ný búsetuúrræði fyrir konur sem gert ráð fyrir að verði tekið í gagnið næsta vetur.

Þrátt fyrir að fréttamaðurinn hafi setið morgunverðarfundinn taldi hann ekki ástæðu til þess að halda þessari vinnu Velferðarsviðs og áformum um ný búsetuúrræði fyrir konur til haga - né að draga fram þær mikilvægu úrbætur sem gerðar hafa verið í málefnum utangarðsfólks að undanförnu og þær mikilvægu aðgerðir sem koma til framkvæmda á næstu vikum.

Mér hefði þótt ástæða til þess að geta þess mikla jákvæða sem er í gangi í málaflokknum - en ekki einungis einblína á þau verkefni sem skemur eru komin - en eru þó í undirbúningi og vinnslu.

Svona er nú fréttamat fólks misjafnt!

En málefnið sem fjallað var um í fréttinni er mikilvægt og ástæða til að beina sjónum að því. Þar liggur mikilvægt verkefni sem þarf að leysa!

Frétt RÚV


Hjálparsamtök dýrmæt fyrir samfélagið

Samtök eins og Hjálparstofnun kirkunnar, Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálpin eru okkur Íslendingum ómetanleg. Mikilvægi þeirra kemur enn frekar í ljós þegar harðnar á dalnum.

Við í Velferðarráði ákváðum að hækka styrki til einmitt þessara stofnana þegar við skiptum takmörkuðum styrkjapotti til aðilja sem vinna að velferðarmálum nú í vikunni.

Það hefði verið æskilegt að veita hærri styrki en fjármagn er því miður takmarkað.

En við eigum að vera þakklát fyrir það mikla óeigingjarna starf sem unnið er af samtökum sem þessum.


mbl.is 152% fjölgun umsókna eftir neyðaraðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband