Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Sjálfstæðismenn á réttum teinum - vilja skoða lestarsamgöngur!

Ég er ánægður með  Sjálfstæðismennina í borginni í dag. Þeir hafa lagt fram tillögu þess efnis að kanna skuli hagkvæmni þess og fýsileika að koma á lestarsamgöngum milli Keflavíkur og miðborgar Reykjavíkur. Með þessu undirstrika þeir það sem ítrekað hefur komið fram hjá einstaka borgarfulltrúa þeirra - ekki hvað síst hjá Gísla Marteini - að Sjálfstæðismenn ætla ekki að hafa Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni til frambúðar.

Enda var á dögunum Flugvöllurinn teiknaður úr Vatnsmýrinni af öryggi!

Ég minnist þess reyndar að Alfreð Þorsteinsson talaði fyrir lestarferðum frá Keflavík til Reykjavíkur hér um árið!

Þá vilja Sjálfstæðismenn einnig láta kanna kosti léttlestarkerfis í Reykjavík.

Þar hvet ég þá til að ganga alla leið og kanna kosti þess að setja upp neðanjarðarlestarkerfi um borgina!  Þótt það sé dýrt þá verður bara að hafa það! Metró er eina raunhæfa leiðin til að draga úr bílaumferð í borginni.

Skemmtilegar hugmyndir um slíkar neðanjarðarsamgöngur í Reykjavík hafa áður litið dagsins ljós. Látum skoða þær líka! Ef Sjálfstæðismenn bæta slíkri athugun í tillögu sína - þá yrði ég líka ánægður með þá á morgun!


mbl.is Vilja skoða lestakerfi í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sópa Suðurnesjamenn nauðsynlegu álveri á Bakka út af borðinu?

Álbræðsla í Helguvík gæti orðið til þess að sópa álveri á Bakka út af borðinu, því ef umhverfisráðherra vill ekki berjast fyrir því að Íslendingar fái auknar losunarheimildir þá er einungis pláss fyrir eitt álver - annað hvort á Bakka við Húsavík eða Helguvík.

Því má halda fram að Sjálfstæðismennirnir á Suðurnesjum séu með ákvörðun sinni að auka byggðavandann á Norður og Norðausturlandi með því að koma í veg fyrir byggingu álvers þar. Reyndar sýnist mér óðagot þeirra við að koma framkvæmdum við álbræðslu í Helguvík af stað beinlínis vera vegna þess að þeir viti af þessari staðreynd og ætli að hreppa hnossið - á kostnað Þingeyinga.

Ég er ekki í vafa um hvort ætti frekar að reisa álver á Bakka eða í Helguvík. Ég vil sjá álver á Bakka - því Suðurnesjamenn hafa margfalt meiri möguleika á annars konar atvinnustarfsemi en Þingeyingar - sem verða að renna fleiri öruggum stoðum undir atvinnulífið þar.

Á Íslandi eru annars vegar álbræðslur sem einungis bræða ál og hins vegar álverksmiðjur sem bræða ál og vinna úr því til dæmis barra, álþráð og bolta með þeim virðisauka fyrir Íslendinga sem því fylgir.

Álbræðslan á Grundartanga er álbræðsla sem ekki áframvinnur álið á Íslandi. Álverið á Reyðarfirði og í Straumsvík vinna meira úr álinu og nýta því losunarkvótan mun betur fyrir efnahagslífið á Íslandi.

Fyrirhuguð álbræðsla í Helguvík er af fyrri taginu og því ekki eins dýrmæt fyrir Íslendinga og fyrirhugað álver á Bakka sem nýta mun losunarkvótan miklu mun betur fyrir íslenskt efnahagslíf - auk þess að skipta miklu meira málið fyrir nærumhverfið en álbræðslan í Helguvík.

Þá má bæta við að með álverinu á Bakka gætu skapast aðstæður til þess að setja á fót völsunarverksmiðju á norðausturlandi þar sem samanlögð framleiðsla Bakka og Reyðaráls yrði það mikil að rekstrarlegar forsendur fyrir slíkri, umhverfisvænni stóriðju skapast.

Suðurnesjamenn!

Sýnið ábyrgð og samstöðu með landsbyggðinni - látið Þingeyingum eftir álverið og losunarkvótann!

 


mbl.is Efast um réttmæti leyfisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilhjálmur smáfjárfestir og vortúlípanarnir!

Það er eins klárt og túlípanarnir spretta upp úr blómabeðunum á vorin að Vilhjálmur smáfjárfestir sprettur upp á aðalfundum stóru fyrirtækjanna með gagnrýnar spurningar og athugasemdir.

 

Það er jafn gott fyrir smærri fjárfesta að hafa svo einbeittan talsmann og Vilhjálm smáfjárfesta og það er gott fyrir sálartetur blómaunnenda að sjá túlípanana teygja sig á móti vorsólinni.

 

Á aðalfundi FL Group í dag stóð Vilhjálmur upp að venju og baunaði löngum spurningalista á stjórnendur fyrirtækisins. Ekki veit ég hvernig forsvarsmennirnir náðu að snúa sig út úr spurningaflóði Vilhjálms. En þeir höfðu þó haft vit á því að leggja fram tillögu um að lækka stjórnarlaun sín í fyrirtækinu um helming – svo Vilhjálmur þurfti ekki að ómaka sig í að leggja fram slíka tillögur.

 

Vilhjálmur smáfjárfestir neyddi nefnilega stjórn SPRON um daginn að lækka nefndarlaun sín um helming í kjölfar umræðu um ofurlaun stjórnarmanna í öðrum banka – Kaupþingi – þar sem nefndarlaunin voru margfalt hærri – en lækkuðu ekki.

 

Það er óeðlilegt að laun fyrir nefndarsetur í fjármálafyrirtækjum séu út úr korti, en ég er ekki viss um að til lengri tíma sé það skynsamlegt að stjórnarmenn fjármálafyrirtækja séu á smánarlaunum miðað við þá lagalega ábyrgð sem þeir nú bera.

 

Mín persónulega skoðun er sú að ekki hafi verið ástæða til að lækka laun stjórnarmanna í SPRON. Þau voru hófleg fyrir lækkun – miklu lægri en þóknun annarra fjármálafyrirtækja. Þar var Vilhjálmur smáfjárfestir að hengja bakara fyrir smið.

 

En svona er lífið! Það er ekki alltaf dans á rósum – frekar en það er ekki alltaf ylur í túlípanabeðinu!


mbl.is Tap vegna AMR, Commerzbank og Finnair nam 38 milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mögnuð uppbygging á Borgarfirði eystra!

"Sérstök gerð af ökutækjum sást í hóp út á Bökkum í dag, en þetta eru svokallaðir steypubílar. Þeir þóttu gríðarlega sjaldséðir á Borgarfirði allt fram á síðasta ár, en nú sjást þeir annað slagið hér í firðinum og er víst von á fleiri slíkum ökutækjum á næstu vikum samkvæmt áreiðanlegum heimildum. Þessir 3 bílar sem sáust voru að koma með fyrstu steypuna í grunninn undir mótelið sem hefur fengið vinnsluheitið Útskálar."

Svona hljómar frétt gamals nemanda míns á Borgarfirði eystra, Hafþórs Snjólfs Helgasonar, á skemmtilegum vef Borgarfjarðar eystra.

Hafþór er að lýsa hluta magnaðrar uppbyggingar á Borgarfirði eystra - þessarar stórkostlegu perlu á Austfjörðum.  Um þessar mundir er verið að byggja eitt hótel og eitt mótel á Borgarfirði eystra - sem ekki er svo ýkja fjölmennir staður. En þörfin er brýn - en ferðamenn heimsækja Borgarfjörð eystra í þúsundatali - en hafa ekki haft mikla möguleika á nútímagistingu.

Annars vegar er verið að breyta gamla frystihúsinu niðrá Eyri í heilsuhótel, Hótel Blábjörg og hins vegar er verið að byggja nýtt gistiheimili út á Bökkum, Mótel Útskála, með 20 herbergjum með baði.

Það er Angrímur Viðar Ásgeirsson, annar stóri bróðir söngfuglanna Magna og Aldísar, sem stendur fyrir byggingu Mótels Útskála, en fjölskyldan sú hefur verið viðloðandi ferðaþjónustu á Borgarfirði um langt árabil - voru í þeim bransa þegar ég starfaði sem kennari á Borgarfirði eystra 1992-1993.

Ásta og Kjartan eru að breyta frystihúsinu í hótel - og gallerí - Gallerí Clarissu - þar sem verður ýmisskonar handverk eftir Ástu - glerbrennsla og fleira.

Það eru ekki einungis mögnuð náttúrufegurð og frábærara gönguleiðir um Borgafjörð, Loðmundarfjörð og Víkurnar - sem draga ferðamenn að! Nei - Borgarfjörður er mikið menningarpláss þótt þar séu einungis 146 einstaklingar skráðir til heimilis.

Minna má á Kjarvalsstofu - og yfir sumarið eru uppákomur sem vert er að mæta á!

Tónlistarhátíðin Bræðslan er ein flottasta tónlistarhátíð landsins og Álfaborgarsjéns er árviss um verslunarmannahelgina!

Það er miklu fleira að sjá á Borgarfirði eystra!  Hér er hlekkur á upplýsingasíðu þeirra Borgfirðinga! 

Kæru Borgfirðingar!  Það er frábært að sjá kraftinn í uppbyggingunni. Gangi ykkur allt í haginn!


Barack Obama er gegnheill Framsóknarmaður!

Barack Obama er Framsóknarmaður. Já, gegnheill Framsóknarmaður. Það er ekkert flóknara en það! Velkist einhver í vafa ætti sá hinn sami að lesa bók Obamas: The Audacity of Hope: Thoughts on Reclaiming the American Dream.

Maðurinn talar nánast eins og hann væri á flokksþingi Framsóknarflokksins. Er ekki fjarri því að Obama og Eysteinn heitinn Jónsson séu andlega skyldir.

Ég hafði svo sem séð Framsóknartakta í Obama í kosningabaráttunni - en hafði ekki áttað mig á því hversu gegnheill Framsóknarmaður maðurinn er - fyrr en kunningi minn benti mér á að glugga í bókina The Audacity of Hope með þeim orðum að bókin væri klárlega skrifuð af Framsóknarmanni!

Fyrir þá sem telja að það séu ekki Framsóknarmenn í Bandaríkjunum - þá er rétt að leiðrétta þann misskilning. Það er fullt af þeim.

Fyrir þá sem telja að ekki séu samvinnufélög í Bandaríkjunum - þá er rétt að leiðrétta þann misskilning. Það er fullt af þeim.

Það stefnir því allt í að við fáum Framsóknarmann í Hvíta húsið - Bandaríkjunum og heiminum öllum til heilla!


Ekki nauðga Viðey!!!

"Áhugamenn" um Sundabraut hafa lagt fram tillögur um nauðgun Viðeyjar - þessarar perlu okkar Reykvíkinga!

Röksemdin er að spara nokkrar krónur í lífsnauðsynlegum samgöngubótum fyrir landsbyggðina - og merkilegt nokk - höfuðborgarsvæðið.

"Áhugamennirnir" vilja hætta við Sundagöng en þess í stað leggja Viðey í rúst vegna þess að það er örlítið ódýrara!

Í fréttum Stöðvar 2 segir eftirfarandi:

"Áhugamenn um Sundabraut hafa lagt fram nýja tillögu að Sundabraut sem er mun ódýrari en fyrirhuguð Sundabraut með göngum en hópinn skipa brúarsmiðir, byggingaverktakar og jarðvegsfræðingar.

Hugmynd hópsins er sú að frá Laugarnesi verði reist lág brú sem lægi yfir í Skúlahól í Viðey og yrði sú brú að hluta byggð með skerjum. Þaðan myndi vegurinn liggja með suðurströnd Viðeyjar, að hluta til á uppfyllingu.

Frá Viðey lægi síðan skipgeng hábrú yfir í Gufunes og vegur með ströndinni yfir í Eiðsvík. Vegurinn yrði þaðan tengdur Geldingarnesi með lágbrú og að lokum lægi vegurinn yfir Geldingarnes og þaðan yfir í Álfsnes með annarri brú. 

Frá Viðey lægi síðan skipgeng hábrú yfir í Gufunes og vegur með ströndinni yfir í Eiðsvík. Vegurinn yrði þaðan tengdur Geldingarnesi með lágbrú og að lokum lægi vegurinn yfir Geldingarnes og þaðan yfir í Álfsnes með annarri brú."

Er ekki kominn tími til að klára þessa framkvæmd - á besta hátt með Sundabrautargöngum - í stað þess að koma endalaust með vondar tillögur sem einungis verða til þess að fresta nauðsynlegum samgöngubótum!

 


Framsóknarmenn með aðild að Evrópusambandinu!

Framsóknarmenn eru með aðild að Evrópusambandinu!  Ekki allir - en afar margir!

Einn glæsilegasti leiðtogi Framsóknarflokksins, Valgerður Sverrisdóttir, hefur undanfarin misseri nálgast Evrópumálin af skynsemi eins og hennar er von og vísa - og flutti hún ákaflega málefnalega og góða ræðu um Evrópumálin á Iðnþingi á dögunum.

Þar sagði hún meðal annars:

“Við erum Evrópuþjóð og eigum sögulega og menningarlega samleið með Evrópu. Langstærstur hluti viðskipta okkar er við Evrópuþjóðir. Vegna þessara nánu tengsla ákvað Ísland árið 1994, ásamt öðrum EFTA-ríkjum, að gerast þátttakandi í Evrópusamrunanum. Aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu var mjög umdeilt mál á sínum tíma en nú eru í raun allir sammála um að aðild hafi verið rétt ákvörðun.
Mér segir svo hugur að eins muni það verða ef við gerumst aðilar að Evrópusambandinu. Það verður umdeilt í aðdragandanum og að einhverju leyti á meðan á aðildarviðræðum stendur, en ef við næðum samningi sem þjóðin teldi hagstæðan og myndi samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu, hef ég þá trú að niðurstaðan myndi verða okkur farsæl.

Það sem fyrst og fremst fengist með slíkri aðild er að mínu mati aukinn stöðugleiki og meira öryggi til framtíðar.”

Þessi afstaða er mjög lýsandi fyrir stóran hluta Framsóknarflokksins.

Björn Ingi Hrafnsson kom fram á ritvöllinn í dag eftir langt hlé og rifjaði upp afstöðu Halldórs Ásgrímssonar í bloggfærslu sinni, "Rætist spádómurinn fyrr en margur hugði?".

Björn Ingi segir meðal annars:

"Um þessar mundir eru liðin tvö ár frá því Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, setti fram þá spá á Viðskiptaþingi að Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu fyrir árið 2015. Spádómur þessi vakti mikla athygli þá og töldu einhverjir slíkt tal æði fjarstæðukennt. Í ljósi þess sem síðan hefur gerst, er fróðlegt að rifja upp rök þáverandi forsætisráðherra fyrir aðild og velta upp þeirri spurningu, hvort vera kunni að spádómur hans muni rætast fyrr en margur hugði."

Einnig:

"Vitað er að innan Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins eru margir ötulir talsmenn þess að Ísland gangi í ESB. Jafnframt er að finna marga af heitustu andstæðingum aðildar. Segir sína sögu, að í báðum flokkum er að finna stjórnarmenn í Heimssýn, samtökum þeirra sem vilja ekki aðild, og Evrópusamtökunum, sem styðja hana eindregið. Vinstri grænir virðast alveg einhuga í andstöðu sinni við aðild, sem og Frjálslyndi flokkurinn."

Þá bloggaði Framsóknarmaðurinn Friðrik Jónsson í dag "Vala víkingur og staða Framsóknar". Friðrik segir þar meðal annars:

"Það er nokkuð ljóst að innan Framsóknarflokksins eru skiptar skoðanir um afstöðuna til ESB...

...Hvað stefnu flokksins í Evrópumálum varðar, er líka nokk óumflýjanlegt að á næsta flokksþingi verði mörkuð framtíðarstefna flokksins. Leiðin hefur í reynd þegar verið vörðuð, en skýrari niðurstaða í þeim efnum mun án efa hafa veruleg áhrif á samsetningu og fylgisaukningarmöguleika flokksins til frambúðar. Kurteisiskomprómí á flokksþingum hingað til, sem einkum hafa verið til að friðþægja mestu afturhaldsöflin í flokknum, hafa lítið hjálpað."

Málið er nefnilega að þótt vinur minn Bjarni Harðarson hafi komið þvi inn í kollinn á Íslendingum að Framsóknarflokkurinn sé á móti inngöngu í Evrópusambandið, þá er það einfaldlega rangt!

Þótt Bjarni Harðarson sé holdgervingur andstöðunnar gegn Evrópusambandinu - þá er fjarri því að afstaða hans sé lýsandi fyrir Framsóknarflokkinn!

Bjarni er talsmaður minnihluta Framsóknarmanna - þe. harðra andstæðinga Evrópusambandsins.

Annar minnihlutahópur eru Evrópusinnarnir sem er að líkindum ekki minni en hópurinn hans Bjarna.

Þessi hópur fer óðum stækkandi á kostnað þess þriðja - og líklega stærsta - sem eru þeir sem eru beggja blands - eru reiðubúnir að skoða aðild að Evrópusambandinu - en setja það ekkert sérstaklega á oddinn. 

Minni á Evrópuumræðuna á þarsíðasta flokksþingi - þar sem Evrópumálin voru áberandi - flokkurinn skiptist nánast í tvennt - og sátt náðist um það að Framsóknarmenn væru ósammála um Evrópumálin.

Einnig skýrslu Evrópunefndar Framsóknarflokksins frá því í fyrra!

Framsóknarmenn eru í grunninn skynsamir - og styrkur flokksins felst í því að ná samkomulagi um erfið mál. Ég spáí því að flokkurinn muni verða lykillinn í að ná ásættanlegri lausn við inngöngu Íslands í Evrópusambandið - hvað sem vini mínum og fyrrum kollega í blaðamennskunni - Bjarna Harðarsyni finnst!


61,7% telja borgarstjórann, Ólaf Friðrik, setja borgarstjórn niður!

61,7% þeirra sem svöruðu spurningunni "Hvaða borgarfulltrúi setur niður borgarstjórn" töldu að borgarstjórinn Ólafur Friðrik væri sá borgarfulltrúi sem fyrst og fremst hefur setti borgarstjórn niður, en eins og kunnugt er bera einungis 9% landsmanna traust til borgarstjórnar.

Næstflestir eða 21,3% töldu Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson vera þann borgarfulltrúa sem helst setti niður borgarstjórn. Dagur B. Eggertsson var sá þriðji í röðinni sem skúrkurinn með einungis 4,7%.

Ástæða þess að ég setti framangreinda viðhorfskönnun á netið var sú að Ólafur Friðrik Magnússon borgarstjóri missti sig örlítið á borgarstjórnarfundi í vikunni þegar hann fékk eðlilega, en óþægilega spurningu frá öðrum borgarfulltrúa.

Ólafur sagði reiður að borgarstjórn  "setti niður við nærveru borgarfulltrúans".

Ég var hugsi yfir þessu upphlaupi borgarstjórans og velti því fyrir mér hver borgarfulltrúanna setji helst niður borgarstjórn, en eins og menn muna treysta einungis 9% landsmanna borgarstjórn sem Ólafur Friðrik leiðir sem borgarstjóri.

Í ljósi þessa setti ég  upp skoðanakönnun þar sem spurt er: "Hvaða borgarfulltrúi setur niður borgarstjórn".

Niðurstaðan er skýr. Það er ekki óþekki borgarfulltrúinn sem spurði óþægilegra spurninga sem er skúrkurinn.

Sá sem að mati lesenda mbl bloggsins hefur sett niður borgarstjórn er borgarstjórinn sjálfur, Ólafur Friðrik Magnússon!

Ég persónulega held að Ólafur Friðrik hafi ekki svona mikil áhrif. Gruna helst að hann hafi ekki staðið sig nægilega vel í almannatengslum. Í ljósi þess býður ráðgjafafyrirtæki mitt Spesía, Ólafi Friðriki ókeypis 8 klukkustunda ráðgjöf í almannatengslum til að rétta hlut hans í huga almennings.

Ólafur Friðrik.

Síminn hjá Spesíu ráðgjöf er 588 5686. Tölvupósturinn er spesia@spesia.is. Veffangið er www.spesia.is . Þú hefur bara samband þegar þú hefur tíma. Við munum hliðra til verkefnum fyrir þig.

Ath. Þetta er niðurstaða könnunarinnar þegar hún hefur verið á netinu í sólarhring og 253 hafa greitt atkvæði. Þessar tölur geta eitthvað breyst ef fólk heldur áfram að kjósa - en ég held að það verði erfitt fyrir aðra borgarfulltrúa að ná borgarstjóranum!


Hvaða borgarfulltrúi setur niður borgarstjórn?

Ólafur Friðrik Magnússon missti sig á borgarstjórnarfundi í vikunni þegar hann fékk eðlilega, en óþægilega spurningu frá öðrum borgarfulltrúa. Ólafur sagði reiður að borgarstjórn  "setti niður við nærveru borgarfulltrúans".

Ég hef verið hugsi yfir þessu upphlaupi borgarstjórans og velt því fyrir mér hver borgarfulltrúanna setji helst niður borgarstjórn, en eins og menn muna treysta einungis 9% landsmanna borgarstjórn sem Ólafur Friðrik leiðir sem borgarstjóri.

Í ljósi þessa  hef ég sett upp skoðanakönnun þar sem spurt er: "Hvaða borgarfulltrúi setur niður borgarstjórn".

Þá er ég ekki að kalla eftir þekkingu á mati Ólafs Friðriks - heldur skoðunum ykkar!

Endilega takið þátt!


Kaupþingssigur og vonandi fyrirboði um að vextir á teknum íbúðalánum banka verði ekki 7,80% haustið 2009

Það eru gleðileg tíðindi að Kaupþing hafi náð á svo myndarlegan hátt að fjármagna sig næstu mánuðina á mun betri kjörum en skuldatryggingaálag bankans sagði til um! Enn einu sinni brjóta íslensku bankarnir neikvæða umræðu erlendis á bak aftur. Ég tek ofan fyrir drengjunum í Kaupþingi.

Vonandi verður þetta til þess að fjármögnunarvextir íslensku bankanna lækki það verulega að lántakendur íbúðalána þeirra muni ekki sæta óhóflegri hækkun íbúðalánavaxta við 5 ára endurskoðun á vöxtum haustið 2009 og mánuðina þar á eftir.

Reyndar skal því haldið til haga að vextir hækka ekki hjá Íbúðalánasjóði. Þeir sem tóku lán á 4,15% vöxtum munu halda þeirri vaxtaprósendu út lánstímann. Einnig skal haldið til haga að ekki eru öll íbúðalán bankanna með slíkum endurskoðunarákvæðum, en ljóst að bankarnir tapa verulegum fjármunum á þeim lánum sem ekki eru með endurskoðunarákvæði á meðan þeir geta ekki endurfjármagnað sig á lágum vöxtum.

Vextir verðtryggðra húsnæðislána bankanna sem veitt voru haustið 2004 og eru með fimm ára vaxtaendurskoðunar gætu hækkað úr 4,15% vöxtum í 7,80%, að mati Ingólfs H. Ingólfssonar fjármálaráðgjafa í viðtali við Morgunblaðið á dögunum. Vonandi er nýjasta lántaka Kaupþings skref í þá átt að viðskiptavinir bankanna þurfi ekki að sæta slíkum ofurkjörum.

 


mbl.is Kaupþing selur skuldabréf fyrir 1.675 milljónir dala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband