Mögnuð uppbygging á Borgarfirði eystra!

"Sérstök gerð af ökutækjum sást í hóp út á Bökkum í dag, en þetta eru svokallaðir steypubílar. Þeir þóttu gríðarlega sjaldséðir á Borgarfirði allt fram á síðasta ár, en nú sjást þeir annað slagið hér í firðinum og er víst von á fleiri slíkum ökutækjum á næstu vikum samkvæmt áreiðanlegum heimildum. Þessir 3 bílar sem sáust voru að koma með fyrstu steypuna í grunninn undir mótelið sem hefur fengið vinnsluheitið Útskálar."

Svona hljómar frétt gamals nemanda míns á Borgarfirði eystra, Hafþórs Snjólfs Helgasonar, á skemmtilegum vef Borgarfjarðar eystra.

Hafþór er að lýsa hluta magnaðrar uppbyggingar á Borgarfirði eystra - þessarar stórkostlegu perlu á Austfjörðum.  Um þessar mundir er verið að byggja eitt hótel og eitt mótel á Borgarfirði eystra - sem ekki er svo ýkja fjölmennir staður. En þörfin er brýn - en ferðamenn heimsækja Borgarfjörð eystra í þúsundatali - en hafa ekki haft mikla möguleika á nútímagistingu.

Annars vegar er verið að breyta gamla frystihúsinu niðrá Eyri í heilsuhótel, Hótel Blábjörg og hins vegar er verið að byggja nýtt gistiheimili út á Bökkum, Mótel Útskála, með 20 herbergjum með baði.

Það er Angrímur Viðar Ásgeirsson, annar stóri bróðir söngfuglanna Magna og Aldísar, sem stendur fyrir byggingu Mótels Útskála, en fjölskyldan sú hefur verið viðloðandi ferðaþjónustu á Borgarfirði um langt árabil - voru í þeim bransa þegar ég starfaði sem kennari á Borgarfirði eystra 1992-1993.

Ásta og Kjartan eru að breyta frystihúsinu í hótel - og gallerí - Gallerí Clarissu - þar sem verður ýmisskonar handverk eftir Ástu - glerbrennsla og fleira.

Það eru ekki einungis mögnuð náttúrufegurð og frábærara gönguleiðir um Borgafjörð, Loðmundarfjörð og Víkurnar - sem draga ferðamenn að! Nei - Borgarfjörður er mikið menningarpláss þótt þar séu einungis 146 einstaklingar skráðir til heimilis.

Minna má á Kjarvalsstofu - og yfir sumarið eru uppákomur sem vert er að mæta á!

Tónlistarhátíðin Bræðslan er ein flottasta tónlistarhátíð landsins og Álfaborgarsjéns er árviss um verslunarmannahelgina!

Það er miklu fleira að sjá á Borgarfirði eystra!  Hér er hlekkur á upplýsingasíðu þeirra Borgfirðinga! 

Kæru Borgfirðingar!  Það er frábært að sjá kraftinn í uppbyggingunni. Gangi ykkur allt í haginn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Áræðið dugnaðarfólk í Borgarfirði Eystri

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 11.3.2008 kl. 14:33

2 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Flott mál hjá þessu góða fólki.

Jón Halldór Guðmundsson, 11.3.2008 kl. 15:55

3 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Já Hallur, það verður ekki tekið frá Borgfirðingum að þeir kunna að bjarga sér og það skemmtilega við þetta allt saman er, að þeir byggja á því sem fyrir er á staðnum. Með því hefur þeim tekist að gera Borgarfjörð eystra sífellt áhugaverðari stað að heimsækja enda skipta ferðamennirnir þúsundum, sem koma þar hvert sumar. Ég sé að þú skrifar Borgarfjörður eystra. Sama hef ég gert og fékk um það tilmæli á sínum tíma frá Árna Böðvarssyni þáverandi málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins. Rökin voru þau að segja ætti eystra vegna þess að Borgarfirðirnir á landinu væru fleiri en tveir, einn slíkur á Suð-Vesturlandi, annar á Vestfjörðum og sá þriðji eystra. Ef þeir hefðu bara verið tveir ætti að segja eystri. Þetta hefur þvælst fyrir mönnum í gegnum tíðina og heimamenn hafa ekki verið á einu máli um þetta og eru ekki enn. Mér fannst þetta haldgóð rök og hef haldið mig við Borgarfjörð eystra síðan, ekki bara í orði heldur líka á borði.

Haraldur Bjarnason, 11.3.2008 kl. 21:32

4 Smámynd: Óttarr Makuch

Skemmtileg frétt þetta.

Ég er þér hjartanlega sammála að það er harðduglegt fólk sem er frá Borgarfirði, já og ekki sé nú talað um fólkið sem er ættað þaðan....

Óttarr Makuch, 12.3.2008 kl. 22:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband