Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
Félagslegar lánveitingar Íbúðalánasjóðs 1999-2006
20.11.2007 | 19:42
Uppáhalds vinstri græni þingmaðurinn minn - Katrín Thoroddsen Tulinius Möller Jakobsdóttir - bað um utandagskrárumræðu um húsnæðismál í þinginu í dag.
Ég ætla ekki að taka afstöðu til pólitískra álitamála í umræðunni - en verð - vegna þess að fram hefur komið sá misskilningur að Íbúðalánasjóður hafi ekki sinnt félagslegum lánveitingum á starfstíma sínum - að birta upplýsingar um lánveitingar sjóðsins til félagslegra og almennra leiguíbúðalána á tímabilinu - sem og félagsleg lán til fjölskyldna undir skilgreindum tekju og eignamörkum.
Ástæða þessa er sú að ég vil gjarnan að hin pólitíska umræða byggi á staðreyndum - en ekki því sem fólk hefur pikkað gagnrýnilaust úr slagorðakenndri umræðu.
Fyrst ber að halda til haga að á tíma hinna félagslegu viðbótarlána 1999-2004 veitti Íbúðalánasjóður lán til alls 13.500 fjölskyldna sem féllu undir félagsleg viðmið um tekju og eignamörk.
Auk þessa hefur ekki staðið á lánveitingum til leiguíbúða, hvorki almennra né félagslegra.
Þá ber einnig að halda til haga að félagsmálaráðherrar tveir, þeir Páll Pétursson og Árni Magnússon gerðu samninga við fjármálaráðuneytið um niðurgreiðslu lána til félagslegra leiguíbúða svo unnt væri að byggja upp öflugan, faglegan leiguíbúðamarkað sem taki einnig tillit til félagslegra aðstæðna fólks.
Reyndar má bend á að Íbúðalánasjóður hefur aldrei, ég endurtek, aldrei náð að veita lán til félagslegra leiguíbúða í takt við lánsfjárheimildir, vegna þess að ekki hefur verið næg eftirspurn eftir slíkum lánum. Það er fyrst nú árið 2007 sem stefnir í að heimildir til slíkra lánveitinga verða fullnýttar.
Eftirfarandi er yfirlit yfir annars vegar fjárhæð leiguíbúðalána Íbúðalánasjóðs frá stofnun sjóðsins 1999 og hins vegar fjöldi leiguíbúðalána sama tímabil. Hafa ber í huga að fjöldi leiguíbúða er mun hærri en fjöldi leiguíbúðalána þar sem stundum hefur verið veitt eitt lán til heilla leiguíbúðablokka.
Fjólubláu súlurnar sýna félagsleg leiguíbúðalán - en bláu súlurnar almenn leiguíbúðalán. Það kemur skýrt fram að mun hærri fjárhæðir hafa verið veittar til félagslegra leiguíbúðalána en almennra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.11.2007 kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frábært framtak hjá Jóhönnu!
20.11.2007 | 10:08
Það gladdi mig verulega þegar Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra kynnti nýtt frumvarp að lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Svo virðist sem loksins sé að nást ásættanleg staða hvað varðar stuðning samfélagsins við foreldra langveikra barna, en því miður varð raunin sú að lagasetning Alþingis um slíkan stuðning fyrir tveimur árum síðan varð ekki sú stoð sem tilstóð. Reglurnar voru allt of stífar.
Þegar litla systir mín greindist með hvítblæði fyrir hartnær 20 árum síðan kynntist ég þeirri stöðu sem fjölmargir foreldrar barna með alvarlega sjúkdóma lenda í. Ég sá dæmi þess að fjölskyldur yrðu nánast gjaldþrota vegna þess að foreldrarnir fengu enga fjárhagslega aðstoð þegar þeir þurftu að hætta að vinna til að vera við hlið barna sinna í þeirri erfiðu baráttu upp á líf og dauða sem hvítblæði krefst.
Reyndar hefur staðan batnað verulega síðan, ekki hvað síst vegna þrotlausrar sjálfboðavinnu sem fólk í samtökum, eins og til dæmis Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna, hafa unnið gegnum árin. Ég gleymi aldrei gleðinni yfir því hve íslenska þjóðin tók myndarlega þátt í söfnun til styrktar krabbameinssjúkum börnum fyrir um það bil 15 árum síðan. Sá mikli stuðningur og stuðningur einstaklinga og fyrirtækja síðan þá hefur gjörbreytt stöðu fjölskyldna krabbameinssjúkra barna. Það sama má segja um stuðning þjóðarinnar við önnur samtök langveikra barna.
Því skal haldið til haga að á þessu tímabili hafa stjórnvöld tekið ákveðin skref til stuðnings foreldrum langveikra barna, eins og td. með umönnunarbótum sem mig minnir að hafi verið komið á í heilbrigðisráðherratíð Ingibjargar Pálmadóttur og lagasetningin fyrir tveimur árum - sem því miður gekk þó allt of skammt.
En nú hefur Jóhanna kynnt frumvarp að lögum sem væntanlega mun gera stöðu þessara fjölskyldna eins bærilega og unnt er á erfiðum tímum.
Takk Jóhanna!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rykinu dustað af lyklaborðinu
19.11.2007 | 15:12
Það er nokkuð um liðið síðan ég stakk niður penna og bloggaði síðast. Ástæða þess er einföld. Sem opinber embættismaður á ég erfitt með að blogga um mál sem að atvinnu minni snúa. Húsnæðislánamál og málefni Íbúðalánasjóðs hefur verið mjög áberandi í umræðunni - ekki hvað síst þeirri pólitísku - og mig klæjað í lofana að blogga um eitt og annað.
Það er hins vegar ekki hlutverk mitt sem embættismaður að tjá mínar persónulegu skoðanir hvað þetta svið varðar. Því hef ég látið það vera að blogga.
Nú er ég hins vegar búinn að segja upp starfi mínu hjá Íbúðalánasjóði - eftir rúmlega 8 ára krefjandi og skemmtilegt starf - þar sem við höfum staðið okkur frábærlega - þótt ég segi sjálfur frá.
Því dusta ég nú rykið af lyklaborðinu og byrja að blogga á ný. Af nógu er að taka!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)