Fjármögnun á núllausn á fjárhagsvanda heimilanna

Það verður spennandi að sjá hver svör Breta og Hollendinga verða - þau geta skipt sköpum hvað varðar endurreisn Íslands. Hluti af endurreisn Ísland er að styðja fjölskyldurnar í landinu við að komast í gegnum stóraukna greiðslubyrði af lánum á meðan tekjur dragast saman og fasteignaverð lækkar.

Ég kom á framfæri svokallaðri núllausn á bloggi mínu í morgun. Tillögu að lausninni var komið til mín af hugmyndasmiðnum fyrir allnokkru síðan - þótt ég birti hana opinberlega fyrst nú.

Lausnin hefur einnig verið kynnt á bloggsíðu Jóns Árna Bragasonar. 

Bæti nú við í umræðuna umfjöllun um það hvernig fjármagna skuli núllausnina:

"Gefum okkur að af 1200 milljarða fasteignalánum heimilanna séum við að greiða 90 milljarða á ári í vexti. Það er það sem fjármálakerfið eða öllu heldur eigendur fasteignalána yrðu af árlega næstu 3 árin ef þjóðarsátt um núllvexti yrði gerð.

Í Vaxtasjóðinn kæmu 30 milljarðar þar sem við skattleggjum sparnaðinn ( minni vaxtagreiðslur heimilanna ) um 33%. Greitt er af honum til eigenda fasteignalánanna. Í þessu tilfelli myndi ég greiða það allt saman inn í Íbúðalánasjóð. Þá standa eftir 60 milljarðar í tapaðar tekjur.

Lífeyrissjóðir, sem eru eign heimilanna, tækju á sig 36 milljarða af þeirri upphæð með því að fá 36 milljarða í lægri ávöxtun á eignir sínar árlega. Lífeyrissjóðirnir, sem eru eign okkar, eiga í dag um 1.800 milljarða. 1% ávöxtun eigna skilar því 18 milljörðum á ári. Því er einungis um það að ræða að Lífeyrirsjóðirnir, sem eru eign heimilanna, sætti sig við 2% lægri ávöxtun en ella væri á samningstíma. Rétt er að benda á í þessu sambandi að Lífeyrissjóðirnir, sem eru eign okkar, töpuðu um 200 milljörðum á síðasta ári og þeir hurfu í fjármálakerfið og atvinnulífið. Þetta eru því smámunir einir og krefst eingöngu vandaðrar og áhættulausrar stýringu á eignum.

Eftir voru 60 milljarðar og Lífeyrissjóðirnir, sem eru eign heimilanna, tækju 36 milljarða og þá eru 24 milljarðar eftir.

Fjármálakerfið, sem er að mestum hluta í eign ríkisins, sem er í sameign okkar, er líklega um 4.000 milljarðar að stærð. Stór hluti rekstrarkerfisins byggir á þeim vaxtamun sem kerfið tekur sér. 1% vaxtamunur gefur til dæmis af sér um 40 milljarða á ársgrunni. Gefum okkur það að við ætlum fjármálakerfinu, sem er okkar sameign, að taka á sig 15 milljarða af þessum 24 milljörðum. Það þýðir að fjármálakerfið, sem er sameign okkar, þarf einungis að vinna með 0,4% minni vaxtamun en ella. Þessu er auðveldlega hægt að ná með betri rekstri og hagkvæmari einingum.

Þá eru eftir 9 milljarðar enn sem þarf að bæta úr. Það er einfalt. Gert er ráð fyrir því að greiða 9 milljarða árlega í vaxtabætur til heimilanna og svo var gert vegna tekjuársins 2008. Þau útgjöld ríksins falla niður vegna þess að heimilin hætta að borga vexti í 3 ár. Því eru þeir 9 milljarðar afskaplega einfaldlega fluttir yfir í Vaxtasjóðinn og úr honum greitt inn til Íbúðalánasjóðs.

Hér með er því búið að dreifa byrðunum með sanngjörnum og réttlátum hætti. Heimilin losna við 90 milljarða vaxtagreiðslur. Heimilin greiða 30 milljarða í skatt inn í Vaxtasjóðinn. Heimilin geta notað hina 60 milljarðana til að mæta lækkandi tekjum, eða aukið neysluna, eða greitt lánin sín hraðar niður eða sparað og lagt fyrir. Á hinni hliðinni eru ríkið engu að kosta til. Íbúðalánsjóður fær allt sitt bætt. Lífeyrissjóðirnir, sem eru eign heimilanna, taka þátt í endurreisninni og styðja við eigendur sína án þess að afskrifa krónu. Þeir meira að segja ávaxta sitt fé betur en ella og minnka áhættuna sína á töpuðum eignum. Fjármálakerfið tekur sínar byrðar en samt að algjöru lágmarki og vel innan þeirrar kröfu sem hægt er að gera um hagkvæmar, arðsamari, áhættulausari og skynsamlegri rekstur en verið hefur.

Vandinn leystur fyrir alla og við getum einbeitt okkur að því að laga til í þjóðfélaginu og koma atvinnulífinu í gang og atvinnustiginu í samt lag."

 


mbl.is Hugmyndir Breta og Hollendinga kynntar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þórðarson

Mér þótti þetta svolítið fyndið:

"Hér með er því búið að dreifa byrðunum með sanngjörnum og réttlátum hætti. Heimilin losna við 90 milljarða vaxtagreiðslur. Heimilin greiða 30 milljarða í skatt inn í Vaxtasjóðinn. Heimilin geta notað hina 60 milljarðana til að mæta lækkandi tekjum, eða aukið neysluna, eða greitt lánin sín hraðar niður eða sparað og lagt fyrir."

Hinir 60 milljarðarnir eru ekki til. Ef þeir væru það væri þetta ekkert vandamál og heimilin gætu haldið áfram að greiða að sínum lánum eins og áður. Þau geta það mörg hver ekki og þess vegna þarf að hjálpa þeim. 

Þetta er eins og að segja einhverjum sem skuldar 90 milljónir og getur aðeins greitt 30, að 60 milljónirnar verði felldar niður og að hann geti notað þær til að gera hitt eða þetta. Hann getur ekki gert neitt með eitthvað sem ekkert er. Hann fær 60 milljónir felldar niður og er þá á núlli. ("notað hina 60 milljarðana til að mæta lækkandi tekjum, eða aukið neysluna, eða greitt lánin sín hraðar niður eða sparað og lagt fyrir.")

Hörður Þórðarson, 17.9.2009 kl. 20:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband