Borgarráð eykur fjármagn til félagslega einangraðra unglinga

Það er ánægjulegt að borgarráð skuli íhuga að auka fjármagn til stuðnings unglingum í Reykjavíkurborg sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda vegna félagslegrar einangrunar, en framundan er nauðsynleg þróun á þeirri starfsemi sem slíkir unglingar hafa fengið að undanförnu.

Það var ekki auðvelt fyrir okkur fulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í meirihluta Velferðaráðs að geta ekki mælt með auknum stuðningi og auknu fjármagni til þessara mála vegna takmarkaðs fjármagn sem við höfðum til reksturs Velferðarsviðs. Tillaga okkar miðaðist því við að halda uppi sambærilegri þjónustu og verið hefur - en ekki viðbót.

Ástæðan var sú að við ákváðum frekar að leggja áherslu á hækkun hámarksfjárhæðar fjárhagsaðstoðargreiðslna og heimildagreiðslna til barna. Náðum reyndar sögulegu samkomulagi við minnihlutann í Velferðaráði um bókun þess efnis - sem skilaði sér í frumvarp til fjárhagsáætlunar þar sem gert er ráð fyrir slíkri hækkun!

En það er þakkarvert að borgarráð skyldi taka af skarið varðandi fjárframlög til stuðnings unglinga sem líða fyrir félagslega einangrun og veita meira fjármagni en við lögðum til.

Framundan er nauðsynleg þróun á þessu starfi sem unnt er að bæta enn frekar.

Nokkurar óvissu gætti meðal þeirra unglinga og foreldra þeirra sem nú njóta þessarar þjónustu vegna fyrirhugaðra breytinga, sem reyndar áttu ekki að ná til þeirra sem nú þegar njóta þessarar þjónustu, heldur þeirra unglinga sem koma nýir í starfið á nýju ári.

Borgarráð ákvað í fjárhagsáætlunargerðinni að taka af allan vafa og gefa út að breytingar á núverandi starfsemi verði ekki gerðar á fyrstu mánuðum ársins heldur í haust í kjölfar sumarfría. Það er vel.

Hins vegar féll nokkur skuggi á vinnu Velferðarráðs vegna þess máls á sínum tíma.  Fulltrúi Vinstri grænna sýndi af sér ótrúlegt dómgreindarleysi og sendi til fjölmiðla persónulegt bréf ungrar stúlku sem nýtir þessa mikilvægu þjónustu unglingasmiðja til fulltrúa í Velferðaráðis - og það með nafni stúlkunnar!

Slík mistök - þótt af góðum hug hafi verið - eru mjög alvarleg! Fulltrúinn beitti fyrir sig persónulegu bréfi 16 ára stúlku pólitískum tilgangi í fjölmiðlum - reyndar með samþykki stúlkunnar að sögn.

Það getur ekki talist annað en misbeiting á stöðu fulltrúa VG sem fulltrúa í Velferðaráði til þess að fá 16 ára stúlku til að samþykkja að nota persónulegt bréfi hennar í pólitískum tilgangi á opinberum vettvangi.

Vinstri grænir hafa ekki tekið á þessu alvarlega máli - og virðast ekki ætla að gera það.

En ég get fullvissað lesendur að ef um Framsóknarmann hefði verið að ræða - þá væri málið litið afar alvarlegum augum og við í borgarmálahóp Framsóknarflokksins myndum að minnsta kosti biðja fulltrúa okkar í sambærilegri stöðu að íhuga að segja af sér. Enda hefð að myndast í Framsóknarflokknum að flokksmenn taki ábyrgð á mistökum sínum.

Læt fylgja bókun meirihlutans í Velferðaráði þegar fjallað var um framngreint mál:

"Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Velferðaráði telur mikil sóknarfæri í þróun þjónustu við unglinga sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda vegna félagslegrar einangrunar.

Slíkt starf hefur meðal annars farið fram í unglingasmiðjunumTröð og Stíg með góðum árangri.

Með stofnun sérfræðiteymis verður byggt á starfi unglingasmiðjanna en lögð áhersla á að tengja betur starf félagsmiðstöðva ÍTR og einstaklingsbundins stuðningsúrræði við sértækt starf, fleiri unglingum til hagsbóta.

Með vinnu teymisins verður einnig hægt að styrkja starf félagsmiðstöðvamiðstöðva ÍTR og einstaklingsbundin stuðningsúrræði, eins og persónulega ráðgjafa og liðveislu á sviði Velferðasviðs.

Meirihluti Velferðaráðs leggur áherslu á að innihald þjónustunnar er það sem fyrst og fremst skiptir máli en ekki það húsnæði sem starfsemin er rekin í.

Meirihluti Velferðaráðs telur að það fjármagn sem til verkefnisins er ætlað og önnur stuðningsúrræði Velferðaráðs og borgarinnart tryggi að þjónusta skerðist ekki.

Við útfærslu á starfi teymisins verður meðal annars nýtt ráðgjöf og stuðningur frá ADHD samtökunum, en ljóst er að hluti af þeim sem nýtt hafa þjónustu unglingasmiðjanna eru börn sem greinst hafa með ADHD."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallur Magnússon

Varaformaður - en hef í veikindaforföllum formanns stjórnað síðustu fundum ráðsins.

Hallur Magnússon, 22.12.2008 kl. 23:07

2 Smámynd: Hallur Magnússon

Takk fyrir þetta!

Nei, ég get ekki hugsað mér að gerast formaður Framsóknarflokksins - með 4 börn - og 3 þeirra 10 ára og yngri!  Þykir allt of ænt um börnin mín til þess :)

Reyni frekar að gera gagn sem fótgönguliði!

Hallur Magnússon, 22.12.2008 kl. 23:21

3 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Nú er lag - að fá starfsmenn Stígs og Traðar, unglinga og foreldra með í að plana nýja starfsemi.

En eitt get ég sagt þér; þessir krakkar sem hafa notið þjónustu Stígs og Traðar eru krakkar sem eru svo félagslega einangraðir og mörg hver svo illa farin eftir einelti að þau geta ekki notað sér frístundheimili ÍTR. Það er nauðsynlegt fyrir þau að komast út úr hverifnu, hitta aðra krakka sem eins ástatt er fyrir á hlutlausum stað.´

Það var ekki nokkur möguleiki fyrir mína dóttur að fara í félagsmiðstöð. Hún hefði aldrei farið. Er núna búin að vera á Stíg síðan haustið 2007 og hvílík breyting. Núna fer hún glöð og kát í félagsmiðstöðina - svona þegar hún nennir!

Dvölin á Stíg er það besta sem komið hefur fyrir barnið - hvorki meira né minna!

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 23.12.2008 kl. 07:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband