Talsmaður neytenda á villigötum!

Talsmaður neytenda er á villigötum í umræðunni um íslensku verðtrygginguna.  Það kemur ekki á óvart þar sem neikvæðir fordómar hans gagnvart vertryggingu hafa lengi legið fyrir. Þetta er synd því að í flestum öðrum málum hefur afstaða hans og vinnubrögð verið til mikillar fyrirmyndar.

Ef við viljum halda íslensku krónunni - þá er verðtryggingin nauðsynleg - og neytendavæn.

Talsmaður neytenda misskilur greinilega skýrslu Richards Porters hagfræðings og annarra höfunda skýrslu sem unnin var fyrir Bresk-íslenska verslunarráðið, ef marka má ummæli talsmannsins í Morgunblaðinu í dag.

Talsmaðurinn segir: "Það er ánægjulegt að aðrir skuli sjá verðtrygginguna sömu augum og ég en ég hef verið að skoða hana gagnrýnisaugum út frá hagsmunum neytenda."

Hérna gætir misskilnings sjá talsmanninum. Porter sér ekki verðtrygginguna sömu augum Verðtryggingin felur nefnilega í sér vernd fyrir neytandann í langtímafjárfestingum.  Sannleikurinn er nefnilega sá að raunvextir langtímalána í verðtryggðum krónum munu ætíð vera lægri en raunvextir óverðtryggðra langtímalána í íslenskum krónum.  Óvertryggð lán til langs tíma yrðu aldrei á föstum vöxtum - heldur fljótandi - sem taka mið af vaxtastig á markaði hverju sinni.

Eðli algengustu íbúðalána Íslendinga - verðtryggð annuitetslán á föstum vöxtum til langs tíma í íslenskum krónum -  er sveiflujöfnun.  Þannig jafnast áhrif mikilla sveiflna í vöxtum og verðbólgu út  og koma ekki af fullum krafti fram í stóraukinni greiðslubyrði.  Heimilin fara því ekki á hausinn vegna snögglega stóraukinnar greiðslubyrði vegna tímabundinnar hækkunar vaxta - líkt og gerst hefur í húsnæðislánakreppunni í Bandaríkjunum Þar sem heimilin hafa ekki bolmagn til að takast á við hækkun fljótandi vaxta á lánum sínum.

Þetta er kjarni einmitt kjarninn í gagnrýni skýrslunnar.  Neytendavænt eðli vertryggðra langtímalána í íslenskum krónum með föstum vöxtum gerir það að verkum að hækkun óvertryggðra skammtímavaxta hefur ekki snögg og hastarleg áhrif á verðtryggð langtímalán sem þegar hafa verið tekin, auk þess sem áhrif slíkra vaxtahækkanna eru lengi að koma fram í ávöxtunarkröfu nýrra langtímalána.

Í skýrslu Porters er bent á að Seðlabankinn hafi átt í erfiðleikum með að ná tökum á verðbólgunni og nefna þeir sem einn orsakavald verðtryggingu, sem sé notuð með mun víðtækari hætti hér á landi en annars staðar. Í skýrslunni leggja þeir til að Seðlabankinn endurskoði aðferðafræði sína, en ákvarðanir hans hafi á stundum ráðist af gengi krónunnar og að bankinn hafi haft tilhneigingu til að nota gengi krónunnar til að reyna að ná verðbólgumarkmiðum sínum.

Ástæðan er ofangreind. Sveiflujöfnunin verður til þess að heimilin lenda ekki á kaldan klaka nánast á einni nóttu vegna gróflegarar hækkunar skammtímavaxta. Vegna verðtryggðra annuitetslána hafa heimilin svigrúm til að hafa í sig og á í við slíkar aðstæður.

Hér hafa skýrsluhöfundar rétt fyrir sér. Núverandi aðferðafræði Seðlabankans dugir ekki ein og sér - enda þarf að nota aðrar aðferðir við stjórn efnahagsmála þar sem stærsti hluti lána heimilanna eru verðtryggð. Seðlabankinn gerði afdrifarík mistök á sínum tíma þegar hann lækkaði bindiskyldu bankanna á versta tíma sem varð til þess að bankarnir gátu dælt nýjum hundruðum milljarðar króna inn í efnahagslífið - og sprengt það í loft upp. Við þann vanda glímir Seðlabankinni í dag - og hefur - líklega vegna þess að hann vill ekki viðurkenna mistök sín - hafnað því að auka bindiskylduna að nýju sem er hin rétta aðferð í baráttuna við verðbólgu í verðtryggðu hagkerfi.

Að lokum - þótt ég snupri Talsmann neytenda vegna rótgróinna neikvæða fordóma á garð verðtryggingar - þá vil ég benda á góða vefsíðu hans og undirstrika að hann hefur unnið ótrúlega gott starf - þótt honum sé búinn afar þröngur stakkur - meðal annars vegna skorts á mannafla.

Sjá einnig eldri pistil minn: Flottur Talsmaður neytenda

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sammála

Sigurður Þórðarson, 23.11.2007 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband