Jón Hnefill Aðalsteinsson áttræður!
29.3.2007 | 12:44
Jón Hnefill Aðalsteinsson lærifaðir minn í þjóðfræðináminu er 80 ára í dag, 27. mars. Í tilefni þess verður haldið áttræðisþing til heiðurs Jóni Hnefli undir yfirskriftinni Þjóðfræði og þakkarskuld!
Áttræðisþingið verður haldið í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands á morgun, 28. mars og stendur frá kl. 13:00 til 18:00.
Jón Hnefill er afar merkilegur maður að mínu viti og vann frábært frumkvöðlastarf við uppbyggingu þjóðfræðikennslu við Háskóla Íslands, en það nám hefur verið íslenskri menningu mikilvægt, enda stendur það í miklum blóma um þessar mundir. Ég var svo lánsamur að stunda þjóðfræðinám samhliða sagnfræðináminu einmitt á þeim tíma sem Jón Hnefill var að hefja uppbyggingastarfið við félagssvísindadeildina.
Þá er Jón Hnefill merkur vísindamaður á sviði þjóðfræðinnar. Hann vakti fyrst athygli á því sviði fyrir frábæra bók að mínu mati - "Under the Cloak" - þar sem fjallað er um kristnitökuna út frá öðru sjónarhorni en almennt hefur verið gert á Íslandi. Því miður finnst mér því sjónarhorni hafa verið gefinn allt of lítll gaumur í umfjöllun um þennan einn merkasta viðburð Íslandssögunnar.
Ég tek undir lokaorðin í umfjöllun um áttræðisþingið og Jón Hnefil á vef félagsvísindadeildar:
"Lengi mætti áfram að telja afrek afmælisbarnsins á fjölbreyttri starfsævi. Umfram allt er Jón Hnefill Aðalssteinsson þó góður maður."
Jón Hnefill - kærar þakkir fyrir samfylgdina og leiðsögnina! Til hamingju með afmælið!
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:26 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.