Framtíðin er beint lýðræði innan stjórnmálaflokkanna
6.1.2009 | 15:06
Stjórnmálaflokkarnir eiga að vera eðlilegur og handhægur farvegur fyrir allan almenning til þess að taka beinan þátt í stjórnmálum þegar og ef fólk vill. Nútímafólk vill geta haft bein áhrif á ákvarðanatöku í stjórnmálum um þau atriði sem hjarta þeirra stendur næst.
Núverandi fyrirkomulag fulltrúalýðræðis, þar sem almennir flokksmenn kjósa takmarkaðan fjölda fulltrúa á flokksþing eða landsfundi og fulltrúa í ýmiskonar fulltrúaráð og flokksþing kjósa formenn, varaformenn og ritara, framkvæmdastjórnir og ýmsar nefnir, er gamaldags og úrelt.
Að sjálfsögðu eiga allir skráðir meðlimir stjórnmálaflokka að hafa rétt til setu á flokksþingum og landsfundum með fullan atkvæðisrétt.
Að sjálfsögðu eiga allir meðlimir stjórnmálaflokka að kjósa formenn, varaformenn og hinar ýmsu stjórnir stjórnmálaflokkanna.
Að sjálfsögðu eiga allir meðlimir flokkana að geta haft bein áhrif á stefnumótun stjórnmálaflokkanna hverju sinni með möguleikanum á beinni aðild og atkvæðisrétti.
Það er engin ástæða í nútíma samfélagið að flækja lýðræðið um of. Það á að vera beint.
Það er mjög einfalt að gefa öllum skráðum flokksmönnum stjórnmálaflokkanna kost á að greiða atkvæði í formannskjöri á rafrænan hátt - hvar sem þeir búa á landinu! Þeir þurfa ekki að mæta til Reykjavíkur til þess.
Á sama hátt er mjög einfalt fyrir forystu stjórnmálaflokka að leggja tillögur að stórum stefnumálum sem upp koma á milli landsfunda og flokksþinga beint fyrir alla almenna flokksmenn. Það er unnt að ganga frá atkvæðagreiðslum um slíkar tillögur í rafrænum kosningum gegnum netið.
Halló!
Við erum ekki lengur á 19. öldinni.
Við erum á þeirri 21. Við eigum að nota 21. aldar tæknina til þess að auka beint lýðræði og gefa almenningi kost á að hafa bein áhrif á stjórnmálin gegnum stjórnmálaflokkana sem eru eðlilegur farvegur og vettvangur fyrir stjórnmálaþátttöku.
Ég vona að Framsókn nýrra tíma taki skref í þessa átt!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Framsókn nýrra tíma fær góðan liðsauka frá Samfylkingu!
6.1.2009 | 08:59
"Þessi ákvörðun byggist fyrst og fremst á því að innan Framsóknarflokksins hafa skapast forsendur til endurnýjunar, uppbyggingar og endurmats. Mér þykir virðingarvert að flokkurinn ætli að fara út í slíkt endurreisnarstarf og ég hyggst taka þátt í því af heilum hug," segir Guðmundur Steingrímsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar og aðstoðarmaður Dags B. Eggertssonar, fyrrverandi borgarstjóra. Guðmundur hefur tekið þá ákvörðun að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn úr Samfylkingunni."
Þetta er alveg rétt hjá Guðmundi Steingrímssyni, en hann lét hafa framangreint eftir sér í frétt sem birtist á forsíðu Fréttablaðsins í morgun.
Það er líka alveg rétt mat hjá Guðmundi þegar hann segir:
"Ég get á engan hátt skrifað undir atburðarás síðustu mánaða sem hefur á köflum verið fáránleg og einkennst af fáti, fyrirhyggjuleysi og skorti á gagnsæi. Ég get ekki séð að þessi atburðarás rími við grundvallarhugsjónir Samfylkingarinnar, og ég veit að margir innan flokksins eru sammála mér um það," segir Guðmundur."
Ég talaði síðast í gærkvöld við öflugan Samfylkingarmann sem starfað hefur í samtökunum frá upphafi. Sá var alveg að gefast upp á Samfylkingunni, aðgerðum hennar og aðgerðarleysi.
Í fréttinni er einnig haft eftir Guðmundi Steingrímssyni:
"Guðmundur segir til mikils að vinna að endurreisa Framsókn, enda sé hann á þeirri skoðun að á Íslandi eigi að vera til frjálslyndur, framsækinn og tiltölulega öfgalaus flokkur sem horfi til félagshyggju."
Þetta er einnig dagsatt hjá Guðmundi.
Það er gott fyrir Framsókn nýrra tíma að fá Guðmund í lið með sér ásamt fjöldan allan af nýju fólki sem gengið hefur til liðs við Framsókn að undanförnu.
Framsókn nýrra tíma býður annað félagshyggjufólk sem hefur fengið nóg af Samfylkingunni og verkum hennar undanfarna mánuði velkomið í Framsókn og taka þátt í endurreisn hennar sem "...frjálslyndur, framsækinn og tiltölulega öfgalaus flokkur sem horfi til félagshyggju."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)