Hengið arkitektinn!
5.7.2008 | 14:11
"Hengið arkitektinn!" eða "mimar as!". Þessi setning Ottómansoldánsins Kanuni Sultan Suleyman varð til þess að nafn lítils en hernaðarlega mikilvægs fiskibæjar á vesturströnd Tyrklands - gegnt Roðey eða Rhodos - var breytt úr "Physkos" yfir í "Mimaras" sem síðar þróaðist yfir í Marmaris.
Ástæða þess að Kanuni Sultan Suleyman vildi hengja arkitektinn var sú að honum líkaði ekki nýji kastalinn í "Phsykos". Svo segir þjóðsagan allavega!
Bærinn hafði reyndar borið nafnið "Phsykos" allt frá því á 6. öld fyrir krist. Þá eru heimildir fyrir því að í bænum hafi verið kastali frá því 3000 fyrir krist - ef marka má hinn geðþekka og skemmtilega sagnfræðing Heródótus - sem var uppi 484 til 425 fyrir krist og stundum hefur verið kallaður faðir vestrænnar sagnfræði!
Bærinn varð hluti af rómverska heimsveldinu 138 fyrir krist og stjórnuðu rómverskir hershöfðingjar bænum frá höfuðstöðvum sínum á Rhodos. Bærinn lenti eðlilega í austrómverska ríkinu á sínum tíma - en var innlimaður í ottómanska veldið 1425.
Kastalinn - sem varð til þess að nafninu var breytt í kjölfar óánægju soldánsins með arkitektinn - var byggður 1521 - sem liður í undirbúningi soldánsins fyrir fyrirhugaða innrás á Roðey þar sem Jóhannesarriddararnir höfðu ráðið ríkjum frá árinu 1309. Innrás 100.000 Tyrkja var gerð 1522 og endaði með uppgjöf þeirra 650 Jóhannesarriddara sem vörðust ofureflinu þó vasklega. Roðey varð síðan undir stjórn Tyrkja í 390 ár eða þar til Ítalir hertóku eyna 1912. Grikkir tóku síðan við yfirráðum Róðeyjar árið 1948.
Ástæða þess að ég er að birta þessa sögu um nafngift Marmaris - sem mér finnst dálítið skemmtileg - er sú að fjölskyldan er á leið í langþráð frí til "Pshykos", "Mimaras" eða "Marmaris"!
Vonandi verður ekki allt of heitt. Reyndar sé ég að hitinn er 40 gráður í dag! Kannske maður taki með sér Egils kristal!
... en mér er ekki til setunnar boðið - flugið bíður!
Ferðalög | Breytt 7.7.2008 kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)