Endurvekjum séríslensku öskupokana!
5.2.2008 | 08:38
Það er sorglegt að vita til þess að hinir séríslenski öskupokar séu nánast horfnir, en þessi aldagamli íslenski siður lifði góðu lífi allt frá kaþólsku á Íslandi fram undir lok 20. aldarinnar. Ég hvet því alla foreldra sem enn muna hve skemmtilegt það var að næla öskupoka aftan í náungan að setjast við sauma í kvöld og kynna börnunum sínum þennan gamla, skemmtilega sið.
Þótt nútímabörnin séu fórnarlömb útlenskrar grímubúningamenningar þá er ekki úr vegi að viðhalda gömlu öskupokunum - þótt ekki væri nema sem hluti grímubúninganna - til dæmis að fá börnin til að hafa öskupoka hangandi einhversstaðar á grímubúningnum.
Eins og áður segir á öskupokasiðurinn sér rætur aftur úr kaþólsku, en askan er í Biblíunni tákn hins forgengilega og óverðuga, en í kaþólskunni var askan talin búa yfir heilnæmum og hreinsandi krafti. Enda tíðkaðistað dreifa ösku yfir kirkjugesti í á öskudag, dies cinerum, í upphafi lönguföstu. Öskunni var gjarnan dreift með sérstökum vendi - sem síðar varð bolluvöndur bolludagsins þegar lúterskan hafði tekið við. Sá siður kom reyndar ekki til Íslands fyrr en á 19. öld vegna danskra og norskra áhrifa.
Upphaf öskupokanna á Íslandi má væntanlega rekja til þess að fólk hafi viljað taka með sér hina hreinsandi ösku úr kirkjunni heim í bæ - þar sem hún hlyti líka að gera sitt heilaga gagn - og blessað heimilið.
Sá siður að hengja öskupoka aftan í heimilisfólkið á öskudag er að minnsta kosti frá því á miðri 18. öld - mögulega miklu eldri.
Einhverra hluta vegna þá þróaðist öskupokasiðurinn þannig að stelpurnar hengdu öskupoka á strákana, en strákarnir hengdu poka með steinum á stelpurnar. En aðalsportið var að koma pokanum á aðra - án þess að eftir væri tekið!
Í ljósi þessarar merku sögu íslensku öskupokanna hvet ég foreldra enn og aftur að endurvekja þennan skemmtilega sið öskudagsins - þótt ekki væri nema á þann táknræna hátt að öskupokinn sé hluti öskudagsbúningsins.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 08:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)