Sólarlagsskipun á dómara og ríkissaksóknara!
16.1.2008 | 11:57
Það á að taka upp sólarlagsskipun á dómara og ríkissaksóknara, en þessir embættismenn eru þeir einu sem enn eru æviráðnir og einungis unnt að víkja frá embætti með dómi. Þetta er fullkomlega óeðlilegt - og að líkindum síðustu leifar gamla embættismannaveldisins.
Það sjá allir að brýn nauðsyn er á að breyta núverandi fyrirkomulagi skipunar dómara. Núverandi aðferðafræði er óásættanleg fyrir alla - framkvæmdavaldið, dómsvaldið og löggjafarvaldið. Það held ég að allir geti verið sammála um.
Mín skoðun er sú að dómsmálaráðherra eigi að tilnefna kandidat í dómaraembætti, en Alþingi að staðfest valið með einföldum meirihluta þegar um héraðsdómara er að ræða. Hins vegar þurfi 2/3 hluta Alþingis til að samþykkja tilnefningu dómsmálaráðherra í hæstarétt.
Um þetta atriði eru eflaust deildar meiningar, en núverandi kerfi þarf að stokka upp.
Í þeirri uppstokkun á að taka upp sólarlagsráðningar dómara eftir sömu lögmálum og nú tíðkast meðal annarra embættismanna. Upphafleg skipan í 5 ár og unnt að framlengja í önnur 5 ár. Það sama á við um embætti ríkissaksóknara.
Vísa enn og aftur í ágæta grein Gísla Tryggvasonar sem hann ritaði þegar hann var framkvæmdastjóri BHM - Veiting starfa hjá hinu opinbera - sem fjallar um þá aðferðafræði sem skal fara eftir við veitingu starfa hjá hinu opinbera.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)