Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sérstakan ráðherra Evrópumála!

Ríkisstjórnin á að skipa sérstakan ráðherra Evrópumála án ráðuneytis til að halda úti aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það er hefð fyrir slíkum ad hoc ráðherrum á hinum Norðurlöndunum - td. í Danmörku.

Slíkt gæti orðið grunnurinn að breiðari samstöðu inn á Alþingi um aðildarviðræður - ekki hvað síst hjá þeim fjölmörgu þingmönnum Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Borgarahreyfingar sem vilja í hjarta sínu að gengið verði til aðildarviðræðna við Evrópusambandið - en treysta ekki alveg Samfylkingunni til að leiða slíkar aðildarviðræður og greiddu því atkvæði gegn tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarviðræður - í stað þess að sitja hjá eða greiða atkvæði með tillögu ríkisstjórnarinnar.

Það er til dæmis alveg ljóst að mótatkvæði Framsóknarþingmanna voru fyrst og fremst mótatkvæði vegna takmarkaðs traust á forystu Samfylkingar - en ekki gegn aðildarviðræðum við ESB - enda fyrirliggjandi skýr flokksályktun Framsóknar frá því í janúar sem kveður á um aðildarviðræður við ESB með skilyrðum sem eru komin inn í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem samþykkt hefur verið.

Það er kannske vert að minna á að sú samþykkt flokksþings var breyting frá stefnumótun þar síðasta flokksþings sem vildi fara hægar í sakirnar Það var ástæðan fyrir málamiðlunartillögu sem samþykkt var á miðstjórnarfundi fyrir rúmu ári síðan um tvöfalda atkvæðagreiðslu.

Þá mega Framsóknarmenn ekki gleyma að ástæðan fyrir því að flýta flokksþingi var sú að mikill meirihluti miðstjórnar vildi ganga beint til aðildarviðræðna - en til að það væri unnt þurfi að fá skýrt umboð frá nýju flokksþingi. Því var flokksþingi flýtt.

Á flokksþinginu var samþykkt skýr stefnubreyting sem fól í sér að ganga ætti til aðildarviðræðna við ESB með skilyrðum - og á því flokksþingi var kjörinn glæsilegur nýr formaður flokksins sem fékk það veganesti að framfylgja skýrri stefnu Framsóknarflokksins um aðildarviðræður við ESB með skilyrðum - sem reyndar ganga skemur en skilyrði í greinargerð með þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var á Alþingi um daginn.

Nýr formaður Framsóknarflokksins hefur reynt eftir megni að fylgja þeirri ályktun - en ákvað með hluta þingflokks Framsóknar að leggjast gegn þingsályktun ríkisstjórnarinnar - því hann og fleiri þingmenn treystu ekki Samfylkingunni - eðlilega - að klára verkið á sómasamlegan hátt. Hins vegar ákvað hluti þingflokks Framsóknar að halda sig alfarið við samþykkt flokksþings og samþykktu ályktun ríkisstjórnarinnar - væntanlega í þeirri von að Samfylkingin sæi sóma sinn í því að fylgja málum eftir af ábyrgð og kvika ekki frá skilyrðum í greinargerð með þingsályktunartillögunni.

Sambærilega afstöðu má sjá hjá hluta þingmanna Sjálfstæðisflokks sem ákvað samt að greiða atkvæði gegn ESB ályktuninni.

Því er ljóst að farsæl niðurstaða aðildarviðræðna við Evrópusambandið felst í því hvernig Samfylkingin heldur á málum. Þar hefur hún val. Besti kosturinn er að skipa sérstakan ráðherra Evrópumála sem stýrir aðildarviðræðum við ESB - og ekkert annað.

Besti kosturinn í þá stöðu er Framsóknarmaðurinn Jón Sigurðsson fyrrum seðlabankastjóri og ráðherra sem hefur yfirburðaþekkingu á Evrópumálum og nýtur traust þvert á flokkslínur. Um Jón ætti að myndast breið samstaða. 95% Framsóknarmanna treysta Jóni - mikill meirihluti Sjálfstæðismanna, lunginn úr Samfylkingunni - og stór hluti VG. Því allir vita að Jón setur hvorki sig eða flokkshagsmuni Framsóknarflokksins á oddinn - heldur hagsmuni íslensku þjóðarinnar.

Núverandi ríkisstjórn lagði upp með að vera norræn velferðastjórn. Nú er tækifærið til að sanna það með því að skipa sérstakan Evrópuráðherra til að leiða viðræður við ESB - í góðu og breiðu samráði við Alþingi.


mbl.is „Aðildarferlið vel á veg komið"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt skref hjá ríkisstjórninni

Það er mikilvægt skref hjá ríkisstjórninni ef hún nær samkomulagi við kröfuhafa gömlu bankanna um endurskipulagningu þeirra. 

En IceSave klúðrið vofir enn yfir ríkisstjórninni ...


mbl.is Óvissu um bankana eytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð utanríkisráðherra mikil!

Nú ríður á að Íslendingar haldi vel á spöðunum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Utanríkisráðherra verður nú að sanna að hann ráði við verkefnið. Hagur Íslands byggir á því.

Íslendingar eiga það skilið að niðurstaðan verði sú hagfelldasta sem unnt er og það verði engin vafi á slíku þegar þeir taka afstöðu til inngöngu eða inngöngu ekki.

Íslendingar eiga að fara í viðræður með eftirfarandi að leiðarljósi:

 • Skýr og einhliða úrsagnarréttur, sem er þegar viðurkenndur í aðalsáttmála ESB, verði hluti aðildarsamnings.
• Staðfest verði að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og að fiskveiðistjórnun verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur ESB um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.
• Fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt og viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar.
• Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður.
• Framleiðsla og úrvinnsla íslenskra búfjárstofna verði tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra búfjárstofna.
• Staðfest verði að vegna aðstæðna á Íslandi og fámennis þjóðarinnar hafi Íslendingar varanlegan rétt til að setja lög um forgangsrétt manna með lögheimili og fasta búsetu á Íslandi til að eiga ráðandi hlut í jarðeignum, lóðum, fasteignum og atvinnufyrirtækjum, enda styðjast slík ákvæði við núgildandi reglur á Álandseyjum, Möltu, Azoreyjum og víðar innan ESB.
• Í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.
• Tekið verði tillit til stöðu íslensks efnahagslífs við umbreytingu peninga- og gjaldeyrismála á Íslandi.
• Ákvæði verði um varðstöðu um íslenska þjóðmenningu, þjóðtungu og þjóðhætti á Íslandi. Íslenska verði viðurkennt sem eitt hinna opinberu tungumála ESB.

 


mbl.is Samþykkt að senda inn umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þolir ríkisstjórnin fellda ESB ályktun?

Þótt það sé meirihluti á Alþingi fyrir því að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið þá ríkir greinilega mikil tortryggni í garð Samfylkingarinnar hjá ýmsum þingmönnum sem eru tvístígandi í afstöðu sinni gagnvart þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar.

Þá hafa yfirlýstir Evrópusinnar utan þings lýst áhyggjum með að samninganefnd við Evrópusambandið muni ekki standa nægilega föstum fótum í samningagerðinni og koma heim með samning sem ekki er ásættanlegur fyrir íslensku þjóðina.

Slíkur samningur verði felldur og aðild að ESB úr sögunni um langa framtíð.

Það er ákveðin hætta á að slíkt geti gerst í því sérstaka ástandi sem ríkis í efnahagsmálum og stjórnmálum á Íslandi um þessar mundir.

Því er ekki endilega víst að þótt það sé meirihluti fyrir því á þingi að ganga skuli til aðildarviðræðna við Evrópusambandið - þar sem til dæmis Framsóknarflokkurinn hefur samþykkt á flokksþingi sínu að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið - að þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar verði ekki samþykkt.

Mun ríkisstjórnin þola það?

Hvert yrði áramhaldið?

Ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks?

Yrði ESB aðildarumsókn þá úr sögunni næstu árin?

Er það skynsamlegt?

... en þetta kemur í ljós núna í hádeginu.


mbl.is „Bjart yfir þessum degi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðildarviðræður að ESB stangast EKKI á við stjórnarskrá!

Sú furðulega lögskýring að samþykkt þingsályktunartillögu um aðildarviðræður að Evrópusambandinu stangist á við stjórnarskrá dúkkaði upp í þinginu í dag.

Þvílík firra.

Enda löngu búið að hrekja slíkan málflutning í umræðunni undanfarna mánuði.

Hins vegar er ljóst að Ísland getur ekki gengið í Evrópusambandið að óbreyttri stjórnarskrá.

Það er bara allt annað mál.


mbl.is Niðurstaða um ESB á hádegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn hefur samþykkt aðildarviðræður að ESB

Flokksþing Framsóknarflokksins samþykkti að Ísland gengi til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Það er kristalklárt. Flokksþingið samþykkti einnig að í þeim viðræðum myndi Ísland leggja fram ákveðin skynsamleg skilyrði.

Það er eðlilegt að þingmenn Framsóknarflokksins vilji tryggja enn betur en gert er í greinargerð með þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar að þessi skilyrði Framsóknar verði höfð að leiðarljósi í aðildarviðræðunum.

Í því felst góð breytingartillaga Vigdísar Hauksdóttur.  Að sjálfsögðu ætti Alþingi að samþykkja þá breytingartillögu til að gulltryggja eðlilegt leiðarljós í aðildarviðræðunum.

En ef breytingartillaga Vigdísar nær ekki fram að ganga - þá er fyrirliggjandi tillaga um aðildarviðræður við Evrópusambandið þannig vaxin eftir breytingar sem utanríkismálanefnd hefur gert á henni - að tillagan fellur að samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins í meginatriðum.

Kjarni ályktunar flokksþings Framsóknarflokksins er að ganga skuli til aðildarviðræðna og niðurstaða þeirra viðræðna síðan borin undir þjóðaratkvæði.  Það er hin rétta leið. Þjóðin á að taka endanlega afstöðu.

Því er eðlilegt að þingmenn Framsóknarflokksins greiði atkvæði með fyrirliggjandi tillögu ef breytingartillaga Vigdísar verður felld.

Hins vegar er það skiljanlegt að einhverjir þingmenn flokksins sitji hjá við þá atkvæðagreiðslu ef þeir telja að það vanti of mikið upp á að skilyrði Framsóknarflokksins séu tryggð í aðildarviðræðunum.

Hins vegar er það nánast að ganga gegn samþykkt flokksþins Framsóknarflokksins að greiða atkvæði gegn aðildarviðræðum að Evrópusambandinu.

En þá ber að hafa í huga að þingmenn eiga að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni.


mbl.is Atkvæði greidd um ESB-tillögur síðdegis í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland og Noregur saman inn í Evrópusambandið?

Það skyldi þó ekki fara svo að Ísland og Noregur fari saman inn í Evrópusambandið? Það yrði gott fyrir Evrópusambandið og væntanlega ágætt fyrir Ísland og Noreg líka!

Norðurlöndin yrðu sterk inna Evrópusambandins ef þau ynnu þar saman á grunni áratuga velheppnaðrar norænnar samvinnu.


mbl.is Íslensk umsókn rædd í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tryggir Árni Páll eftirgjöf lána illra staddra fjölskyldna?

Það er gott að heyra félagsmálaráðherrann boða eftirgjöf skulda illa staddra fjölskyldna. Vonandi mun ráðherrann og félagar hans í ríkisstjórninni beita sér fyrir því að bankarnir nýti þær heimildir sem fyrir eru til að koma fólki í fjárhagsvandræðum vegna efnahagshrunsins til hjálpar.

Það er reyndar athyglisvert að það er félagsmálaráðherran sem er talsmaður ríkisstjórnarinnar í þessu máli - en kemur hins vegar ekki alveg á óvart. Bankamálaráðherrann hefur ekki alltaf verið heppinn í orðavali og yfirlýsingum.

Reyndar treysti ég Árna Páli betur en mörgum öðrum í ríkisstjórninn til að fylgja þessu máli eftir. Hann getur nefnilega verið helv... fylginn sér.


mbl.is Aukið svigrúm til afskrifta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin að beygja Seðlabankann?

Er ríkisstjórnin að beygja Seðlabankann? Þolir ríkisstjórnin ekki að Seðlabankinn segi sannleikann um IceSave? Er verið að laga til álit Seðlabankans svo ríkisstjórnin svíði ekki eins undan því?

Seðlabankinn hefur reyndar aðstoðað ríkisstjórnina í málflutningi sínum með því að gera minna úr vanda heimilanna en raunin er í greinargerðum sínum - þegar ekki var tekið tillit til frystra íbúðalána.

Vonandi er ríkisstjórnin ekki að stjórna málflutningi Seðlabankans en maður spyr sig við svona uppákomu!


mbl.is Ekki formleg umsögn Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnum að áframhaldandi tilvist DeCode á Íslandi

Ég held það sé ástæða til þess að vinna að áframhaldandi tilvist DeCode og að veigamikill hluti starsemi fyrirtækisins verði hér á landi. Við megum ekki við að missa það vel menntaða fólk sem þar vinnur  - og  sem væntanlega er sæmilega launað og greiða þar af leiðandi sæmilegar fúlgur í skatt í skattpíningunni - frá okkur til útlanda.

Þótt lengi vel hafi staðið styrr um starfsemi DeCode - þá er alveg ljóst að fyrirtækið hefur náð frábærum árangri - árangri sem gæti skipt máli í endurreisn orðstís Íslands. Árangri sem byggir einmitt á rannsóknum á Íslendingum og erfðum þeirra. Árangri sem hefur verið og gæti orðið framlag okkar til framfara í heiminum.

Já, ég vil DeCode áfram á Íslandi!


mbl.is Ný uppgötvun í erfðaprófi ÍE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband