Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Samsvarandi öllum útlánum Íbúðalánasjóðs

Stærstu eigendur Kaupþings létu bankann lána sjálfum sér 500 milljarða. Þegar fjárhæðirnar eru orðnar þetta háar þá missum við oft tilfinninguna fyrir þeim. En til þess að setja þessi ofurlán í samhengi þá er þessi fjárhæð svipuð og öll útlán Íbúðalánasjóðs til íbúðarhúsnæðis.

Þetta er náttúrlega ekki í lagi.

Stenst þetta lög og reglur?

Talandi umlög og reglur - þá er það óþolandi að síðasta ríkisstjórn hafi ekki sett strax sérstakan saksóknara í bankahrunsmálið. Þá hefði verið unnt að frysta eignir auðmanna sem hefðu legið undir grun um að hafa brotið lög strax í nóvember - desember.

Nú eru líkur á að fennt sé í slóðina - en við vonum að hinn yfirvegaði saksóknari sem loks var settur til að skoða bankahrunið og möguleg lögbrot því tengdu - nái að rekja þessa slóð og afla gagan til að sækja þá sem brotið hafa lög til saka.

Undirstrika að með þessu er ég ekki að segja að þeir sem fjallað er um í þessari frétt Moggans hafi brotið lög - ég veit bara ekkert um það - það er saksóknarans að finna út úr því.

En að lána sjálfum sér 500 milljarða  ... það er dálítið bratt!

 


mbl.is 500 milljarðar til eigenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðsla stjórnmálamanna við stjórnlagaþing aumkunarverð

Hræðsla ýmissa stjórnmálamanna við stjórnlagaþing þjóðarinnar er aumkunarverð. Þessir stjórnmálamenn leita allra leiða til að koma í veg fyrir að það verði þjóðin sem kjósi stjórnlagaþing beint og að það verði þjóðin sem samþykki nýja stjórnarskrá.

Þeir hafa reynt að fá stjórnlagaþinginu breytt í ráðgefandi þing svo þeir geti snyrt til tillögur að nýrri stjórnarskrá í takt við eigin vilja og hagsmuni.

Þeir hafa reynt að tefja málið og sagt að það sé ekki tímabært.

Þeir reyna nú að slá stjórnlagaþing þjóðarinnar af með því að hræða kjósendur með því að reikna kostnað við stjórnlagaþingið upp í rjáfur.

En frumvarp og tillaga Framsóknarflokksins um stjórnlagaþing þjóðarinnar án aðkomu alþingismanna og ráðherra stendur.

Það er rétta leiðin.


mbl.is Telur stjórnlagaþing kosta meira en milljarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt húsnæðisbótakerfi frá grunni!

Bull og vitleysa er það nú að fara að tjasla upp á vaxtabótakerfið og húsaleigubótakerfið.

Í stöðunni eins og hún er nú á að sjálfsögðu að stokka núverandi húnsæðisbótakerfi upp og skapa nýtt, markvissara og betra húsnæðisbótakerfi sem byggir á jafnræði milli búsetuforma og taki mið af heildarstöðu fólks ekki skuldum og vaxtabyrði eingöngu.

Ég hef margoft bent á endurskipuleggja þurfi húsnæðisbótakerfið þannig að um verði að ræða eitt húsnæðisbótakerfi sem gerir ekki greinarmun á búsetuformum, það er húsnæðisbæturnar séu þær sömu hvort sem um er að ræða fjölskyldur sem búa í eigin húsnæði, í leiguhúsnæði eða búseturéttarhúsnæði.

Reyndar tekur flokksþing Framsóknarflokksins undir með mér eins og sjá má í ályktun flokksþings um húsnæðismál sem hljóðar svo: 

Markmið

Allir landsmenn skulu búa við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við hóflegar þarfir hvers og eins og hafa raunverulegt val um búsetuform.

Leiðir

• Íbúðalánasjóður gegni áfram hlutverki sínu sem kjölfestan í íbúðalánakerfi landsmanna.

• Íbúðalánasjóði verði heimilt að stofna dótturfélög til að ná markmiðum sínum og koma til móts við alþjóðlegar skuldbindingar.

• Íbúðalánasjóði verði gefið svigrúm til samvinnu við aðrar fjármálastofnanir um þróun íbúðalánamarkaðarins.

• Komið verði á fót nýju húsnæðisbótakerfi í stað núverandi kerfis vaxtabóta og húsaleigubóta.

• Sett verði á fót ný fjármögnunarleið fyrir ungt fólk sem byggi á frjálsum sparnaði og opinberu framlagi sem geti jafnt nýst til innborgunar við kaup á íbúð eða til kaupa á búseturétti.

• Staða samvinnufélaga á sviði húsnæðismála verði styrkt.

• Áhersla verði lögð á fjölgun lífshlaupsíbúða þar sem hönnun tekur mið af mismunandi þörfum fólks á mismunandi aldurstigi og meðal annars tryggt að unnt sé að athafna sig í hjólastól. Markmiðinu verði náð með efnahagslegum hvata.

Fyrstu skref

Gerðar verði breytingar á reglugerð um greiðsluerfiðleikaúrræði Íbúðalánasjóðs þar sem heimilað verði að ákveðið fast hlutfall heildartekna fjölskyldna og einstaklinga sem eru í greiðsluerfiðleikum renni til greiðslu íbúðalána, þó þannig að jafnræðis sé gætt. Þetta úrræði nái jafnframt til annarra lánastofnana.

Undirbúið verði frumvarp um breytingar á lögum um húsnæðismál sem tryggi stöðu Íbúðalánasjóðs til frambúðar og heimild verði veitt til stofnunar dótturfélaga sjóðsins í hlutafélagaformi og samstarfs við aðrar fjármálastofnanir.

Lagt verði fram frumvarp til laga um frjálsan sparnað ungs fólks og mótframlags ríkisins vegna kaupa á húsnæði, búseturétti eða framlags í byggingarsamvinnufélag.

Settur verði á fót hópur sem fer yfir gildandi lög um húsnæðissamvinnufélög og gildandi lög um byggingarsamvinnufélög og vinni frumvarp að breytingum á núverandi lögum ef ástæða er talin til.

 

 
mbl.is Hækki skatta og tvöfaldi vaxtabætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvætt skref Íslandsbanka gott fyrir heimilin - en bankinn hagnast!

Íslandsbanki hefur tekið afar jákvætt skref sem er gott fyrir heimilin í landinu með því gefa kost á að afborganir af myntlánum miðist við gengisvísitölu í upphafi árs 2008 og mismunurinn leggist aftan við lánið sem lengist því um einhvern tíma.

Þannig lækkar greiðslubyrði heimilanna á meðan þau berjast í gegnum þá efnahagslægð sem nú ríkir.

Á móti má segja að afborganir af myntlánum ríkisbankanna séu allt of háar þar sem afborganir undanfarinna mánaða hafa miðað við óeðlilega lágt gengi íslenski krónunnar á sama tíma og ekki er verið að greiða lánadrottnum bankanna lánin til baka þar sem gömlu bankarnir eru í greiðslustöðvun og fjármögnunarlánin - skuldir bankanna vegna íbúðalánanna - ennþá hjá þeim.

Ríkisbankarnir eru því að líkindum að hagnast verulega á afborgunum af myntlánum undanfarinna mánaða því litlar sem engar líkur eru á að ríkisbankarnir endurgreiði þeim sem fjármögnuðu myntlánin á sama lága gengi íslensku krónunnar og viðskiptavinir hafa verið að greiða.

Þannig mætti færa rök fyrir því að ríkisbankarnir ættu að skila heimilunum til baka mismuninum á þeim háu afborgunum sem þau hafa greitt þar sem krónan er skráð lág og gengisvítitalan er há - og þeim afborgunum sem bankarnir munu væntanlega greiða lánadrottnum sínum á sterkara gengi krónunnar og lægri gengisvísitölu.

Að óbreyttu munu bankarnir því hagnast verulega á lágu gengi krónunnar undanfarið - og Íslandsbanki tryggir sér klárlega hagnað á því að lengja í lánunum í stað þess að ganga að fjölskyldunum af fullri hörku.

Úrræði Íslandsbanka er reyndar ekki alveg óþekkt á Íslandi hvað gjaldeyrislán varðar. Ég veit ekki betur en SPRON hafi fært hluta afborgana af gjaldeyrislánum einstaklinga aftur fyrir lánstímann til að halda eðlilegri greiðslubyrði þegar krónan féll illilega árið 2001.

Þá hefur frysting og lenging lána lengi tíðkast hjá Íbúðalánasjóði.


mbl.is Ný lausn erlendra lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Ólafur Friðrik Magnússon borgarfulltrúi tregur?

Er borgarfulltrúinn Ólafur Friðrik Magnússon tregur? Á borgarstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag fór forseti borgarstjórnar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson í smáatriðum yfir undirbúning byggingar á Höfðatorgsreit og aðdraganda og forsendur leigusamnings Reykjavíkurborgar við Eykt í kjölfar fyrirspurnar Ólafs F.

Þar kom skýrt fram að Óskar Bergsson kom hvergi nærri, en hins vegar kom einnig fram að núverandi leigusamningur var gerður og samþykktur meðal annars af F-lista Ólafs F.

Þar kom einnig skýrt fram að Óskar Bergsson - sem er húsasmiður og rekstrarfræðingur - vakti strax athygli á því að hann hefði verið byggingarstjóri hjá Eykt árin 1989-1993 og væri því vanhæfur að fjalla um erindi frá því byggingarfyrirtæki.

Það kom reyndar einnig fram á borgarstjórnarfundinum að Ólafur F. hafði ekki vakið athygli á tengslum sínum við unglingasmiðjur í Reyjavíkurborg þegar hann fór mikinn í umræðum um fjárframlög til þeirra í borgarráði - en sonur Ólafs var starfsmaður í unglingasmiðju á þeim tíma - þrátt fyrir að Ólafi væri bent á að það gæti orkað tvímælis að láta ekki vita af slíkum tengslum. 

Ólafur er nú að bera upp sömu fyrirspurnina og hann gerði á síðasta borgarstjórnarfundi og fékk ítarleg svör við.

Til upprifjunar þá er ástæða til að benda á að þessi yfirferð Vilhjálms var gerð á sama borgarstjórnarfundi og Ólafur Friðrik réðist ítrekað að starfsfólki Ráðhússins með dylgjum úr ræðustól borgarstjórnar.

Fyrir áhugasama um starfsferil Óskars Bergssonar, þá hefur ferilskrá hans verið á vef Reykjavíkurborgar frá því hann tók við sem borgarfulltrúi fyrir tveimur árum. Á það hefur Ólafi Friðriki ítrekað verið bent á þegar hann hefur spurst fyrir um starfsferil Óskars.


mbl.is Krefur Óskar um svör varðandi Höfðatorg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný ríkisstjórn fari í aðildarviðræður við Evrópusambandið

Ný ríkisstjórn á að sjálfsögðu að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Það er fullkomlega rétt hjá forseta ASÍ.  Það er ábyrgðarleysi að fara ekki í slíkar viðræður.

Þar með er ekki sagt að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið.

Sú ákvörðun á að vera þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar niðurstöður aðildarviðræðna liggja fyrir.

Þess vegna

verða stjórnmálafokkarnir að setja fram skýr samningsmarkmið fyrir komandi kosningar svo kjósendur geti tekið tillit til þeirra þegar gengið er til kosninga.

Framsóknarflokkurinn hefur þegar gengið frá sínum skilyrðum. Þau samningsmarkmið eru skýr og góð fyrir þjóðina. Það er enda lykilatriði að Framsóknarflokkurinn komi að viðræðum við Evrópusambandið því engum er betur treystandi til að tryggja hagsmuni þjóðarinnar.

Samningsmarkmið sem Framsóknarflokkurinn vill hafa að leiðarljósi er að finna hér í ályktun flokksþings.


mbl.is ASÍ: Ný ríkisstjórn fái umboð til ESB viðræðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opnum Alþingi almenningi

Alþingi á að vera opið almenningi. Það er reyndar til fyrirmyndar að almenningur geti tekið sér stöðu á þingpöllum og fylgst með umræðu á þingfundum og það er til fyrirmyndar að þingfundum sé sjónvarpað.

En það á að ganga lengra. Meginreglan á að vera sú að fundir í nefndum Alþingis séu opnir. Sérstaklega þurfi að ákveða að nefndarfundir séu lokaðir og þá verði slíkt gert með rökstuðningi.

Þá á að sjálfsögðu að sjónvarpa af nefndarfundum Alþingis á sama hátt og sýnt er frá þingfundum. Þannig fær almenningur betri innsýn í raunveruleg störf Alþingis auk þess sem slík opnun er mikilvægt aðhald á þingmenn. Slíkt myndi að líkindum styrkja þingið gagnvart ráðherraræðinu.

Þá er það náttúrlega skandall að störf rannsóknarnefndar Alþingis sé ekki opnari en raun ber vitni. Þjóðin á rétt á því að fylgjast með þessari rannsókn sem beinist að efnahagshruninu sem gengur svo nærri okkur öllum.

 

 


mbl.is Slepptu tækifæri til að opna nefndarfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spilling í Afríku?

Ætli það sé tilviljun að í nýjasta rafræna fréttabréfi Stefáns Jóns Hafstein "Afríka!" sé grein sem nefnist "Spilling í Afríku"? 

Veit ekki - en hitt veit ég að það er mikill fengur í þessu fréttabréfi Stefáns Jóns sem ég fæ sent reglulega, en Stefán Jón hefur undanfarin misseri verið í leyfi frá borgarstjórn Reykjavíkur og unnið að verkefnum í Afríku á vegum Þróunarsamvinnustofnunar.

Í nýjasta tölublaðinu sem datt inn í pósthólfið hjá mér áðan lýsir Stefán Jón efni fréttabréfsins svo:

Í þessu tölublaði //Afríku!" sendi ég ykkur nýja stuttmynd með sveitarstemmingu í Malaví þegar uppskerutími fer í hönd. Dagbækurnar greina frá ástandi í Malaví þegar nær dregur kosningum, en skemmtiefnið og þroskasagan er frá tveimur
íslenskum hjúkkum sem gerðust æskulýðsleiðtogar í Malaví. Við vorum stolt Íslendingarnir þegar opnunarhátíð ,,Kraftaverkanna" stóð sem hæst, en þær Gugga og Ditta stofnuðu íþróttafélag með öllu sem þarf í litlu sveitaþorpi. Grein mánaðarins er svo hugleiðing sem heitir Spilling í Afríku? Og svo er margt fleira á vefnum, kær kveðja,

Stefán Jón.

Vona að Stefáni Jóni sé sama um að ég auglýsi skemmtilegt og fræðandi fréttabréf hans svona!

Hlekkur á greinina Spilling í Afríku?

Hlekkur á "Sveitarstemming í Malaví.

Hlekkur á gjaldfrjálsa áskrift á vefritið Afríka!


mbl.is Ísland líkist fyrrum Afríkunýlendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hnýtið saman Samfylkingu og Vinstri græna

Endilega hnýtið saman Samfylkingu og Vistri græna. Það yrði spennandi kostur ef Vinstri grænir og Samfylking gengju bundin til kosninga. Slíkt hefur ekki tíðkast í langan tíma. 

Væntanlega yrði gengið frá því fyrirfram hver yrði forsætisráðherraefni slíkrar stjórnar.

Hvort ætti það að vera Steingrímur J. eða Jóhanna?

Ég er hins vegar ekki viss um að slík stjórn yrði farsæl ef Framsókn yrði ekki með - framganga minnihlutastjórnarinnar undanfarið lofar ekki allt of góðu - það vantar dálítið jarðtenginguna.

 


mbl.is Samfylkingin gangi bundin til kosninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur F. Magnússon ræðst á starfsfólk Ráðhússins!

Það var sorglegt að horfa á Ólaf Friðrik Magnússon borgarfulltrúa ráðast á afar ósmekklegan hátt á starfsfólk Ráðhúss Reykjavíkur með dylgjum og óhróðri úr ræðustól borgarstjórnar. Ólafur F. sakaði starfsfólk í ráðhúsinu um óheiðarleika.

Borgarstjóri kom starfsfólkinu til varnar og bað Ólaf F. að ráðast ekki að starfsfólki úr ræðustól borgarstjórnar þar sem starfsfólk gæti ekki varið heiður sinn. Við það færðist Ólafur F. í aukanna og bætti í árásirnar á starfsfólkið.

Ég hef aldrei áður séð ósmekklegri aðför að starfsfólki Reykjavíkurborgar úr ræðustól borgarstjórnar, en ég fylgdist með nánast öllum borgarstjórnarfundum tímabilið 1986-1991 þegar ég var varaborgarfulltrúi. Þá hef ég fylgst með útvarpssendingum af borgarstjórn af og til undanfarin misseri - en brá mér á pallana í dag - þar sem ég trúði ekki mínum eigin eyrum og augum þegar Ólafur F. hóf nánast að svívirða starfsfólk Ráðhússins.  Hef þó heyrt ýmislegt vafasamt frá manninum.

Ekki veit ég hvað manninum stóð til - en má vera að Ólafur F. hafi átt dálítið erfitt eftir að fyrri dylgjur hans og ásakanir í garð borgarfulltrúa Framsóknarflokksins voru hraktar hver á fætur annarri - og flett ofan ásökunum Ólafs F. svo ekki stóð steinn yfir steini.

Á fundinum var meðal annars farið yfir nokkrar móttökur sem Samfylking, VG og Sjálfstæðisflokkur hafa haldið sambærilegar þeim sem Óskar Bergsson borgarfulltrúi Framsóknarflokksins hélt á haustmánuðum - og sýna svart á hvítu að Óskar fór eftir reglum og hefðum í borgarstjórn með móttöku sinni.

Reyndar hjólaði Ólafur F. einnig í fyrrum samstarfskonu sína - Margréti Sverrisdóttir - og vildi reka hana út úr borgarstjórnarsalnum - og í borgarstjórann Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þar sem hann setti fram órökstuddar dylgjur.

Hvet fólk til að fylgjast með ræðum Ólafs Friðriks í borgarstjórn. Þær eru oft á tíðum afar athyglisverðar svo ekki sé meira sagt.


mbl.is 4100 fá sumarstarf hjá borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband