Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010
Ég legg hugsjónir mínar í dóm þjóðarinnar
26.11.2010 | 22:51
Ég er stoltur af því að vera einn hinna rúmlega 500 Íslendinga sem voru reiðubúnir að leggja sig, stefnumál sín og framtíðarsýn í dóm þjóðarinnar með því að bjóða sig fram til stjórnlagaþings.
Ég er ánægður yfir því hve fjölbreyttur hópurinn er og sérstaklega hve stór hluti frambjóðendanna eru venjulegt fólk víðs vegar úr samfélaginu og af öllum stéttum.
Það er nefnilega meira en að segja það að leggja sig, hugðarefni sín og vonir í dóm þjóðarinnar. Því það að vilja taka þátt í sköpun nýrrar stjórnarskrár er að leggja vonir sínar um framtíð Íslands og Íslendinga sem þjóðar í dóm þjóðarinnar.
Ég gleðst yfir því hve kosningabaráttan hefur verið hófsöm, jákvæð og uppbyggjandi. Þvert á kosningahefð þjóðarinnar þar sem átök, neikvæðni og niðurrif hefur verið fyrirferðarmeiri en jákvæðni og uppbyggjandi umræða.
Mér líður vel í því frelsi sem felst í því að bjóða mig fram alfarið á mínum eigin forsendum, með mínar skoðanir og stefnumál ómenguð. Sú upplifun treystir enn þá trú mína að viðhafa skuli persónukjör í kosningum á Íslandi.
Þótt ég berjist af alefli fyrir mínum hugsjónum og vil veg þeirra sem mestan þá finnst mér mikilvægt að á stjórnlagaþing verði kjörnir fulltrúar mismunandi sjónarmiða og mismunandi hugsjóna. Því stjórnlagaþing á að vera stjórnlagaþing þjóðarinnar en ekki stjórnlagaþing einstakra hugmynda og hópa.
Stjórnlagaþing þjóðarinnar verður stjórnlagaþing þjóðarinnar með því að fulltrúar með mismundandi bakgrunn og mismunandi hugmyndir takist á í uppbyggilegum umræðum og komi sér saman um meginreglur stjórnskipunar Íslands í tillögu til nýrrar, sterkrar stjórnarskrár. Traustri stjórnarskrá sem þjóðin geti í þjóðaratkvæðagreiðslu sammælst um að geti orðið leiðarljós þjóðarinnar á 21. öldinni.
Ég legg mínar hugsjónir, mínar áherslur og mína krafta í dóm þjóðarinnar undir auðkenninu #9541 í kosningum til stjórnlagaþings þjóðarinnar.
Stjórnarskrá Íslands byggi á frjálslyndi og umburðarlyndi
24.11.2010 | 23:46
Í stjórnarskrá vil ég helst tryggja:
- Persónukjör og rétt til þjóðaratkvæðagreiðslna.
- Raunverulegan aðskilnað löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds.
- Að dregið verði úr miðstýringu ríkisstjórnarvaldsins.
- Nýjar grunnstjórnsýslueiningar í formi öflugra, sjálfstæðra og lýðræðislegra héraðsstjórna sem taki yfir sem stærstan hluta fjárveitingarvalds, framkvæmdavalds og samfélagslegra verkefni ríkis og sveitarfélaga.
Þessi baráttumál mín eru ekki ný af nálinni eins og sjá má á pistlum mínum "Stjórnlagaþing, persónukjör og auðlindirnar í þjóðareigu " og "Sterk og miklu stærri sveitarfélög eru framtíðin".
Að sjálfsögðu eru stefnumál mín fleiri og fjölbreyttari. Til að kynna þau hef ég ákveðið að rjúfa árslanga bloggþögn mína og er nú farinn að blogga á Eyjunni
Á þessari bloggsíðu minni á Moggablogginu hef ég sett upp tengla sem vísa á gagnlegar upplýsingar sem varða stjórnlagaþing og kosningar til þess, tengla sem vísa á stjórnarskrár ýmissa landa og tengla sem tengjast síðum áhugaverðra frambjóðenda til stjórnlagaþings. Sá listi mun lengjast þegar ég hef kynnt mér stefnumál meðframbjóðenda minna.
Ég bloggaði nær daglega og stundum oft á dag á þessari bloggsíðu um landsins gagn og nauðsynjar frá því í marsmánuði 2007 fram í septembermánuð 2009. Því hafa þeir sem vilja kynna sér stefnumál mín og skoðanir úr drjúgum potti að veiða. Til að auðvelda aðgang að fyrri pistlum mínum hef ég komið fyrir leitarvél hér til hægri.
Starfsferil minn, nám og þátttaka í félagsstörfum er einnig að finna á vefsíðunni hér til hægri og einnig unnt að skoða hann með því að smella á hér.
Ábendingum og athugasemdum er unnt að koma til mín á netfangið hallur@spesia.is auk þess sem athugasemdakerfið á blogginu er að sjálfsögðu öllum opið.
Ég hlakka til að taka þátt í þeirri umræðu og þeirri kosningabaráttu sem framundan er og óska eftir stuðningi í kosningunum til stjórnlagaþings 27. nóvember.
Auðkennisnúmer mitt á stjórnlagaþing er 9541