Afstaða Spánverja til aðildarviðræðna mikilvæg fyrir Íslendinga
17.9.2009 | 22:36
Það eru gleðifréttir að Miguel Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar skuli leggja áherslu á að aðildarviðræðum Íslendinga við Evrópusambandið ljúki strax á næsta ári. Spánverjar taka við formennsku í Evrópusambandinu af Svíum um áramót. Það er því mikilvægt að Spánverjar styðji aðild Íslands að Evrópusambandinu og þeir leggja áherslu á að hraða viðræðum eins og kostur er.
Það skiptir nefnilega miklu máli að Íslendingar geti sem allra fyrst tekið endanlega afstöðu til aðildar þannig það sé ljóst sem allra fyrst hvort framíðaruppbygging Íslands verði innan eða utan Evrópusambandsins.
Afstaða Íslendinga mun ekki verða ljós fyrr en aðildarsamningur liggur fyrir og ljóst er hver staða Íslands innan Evrópusambandsins yrði og hvort mikilvægum hagsmunum Íslendinga verði fórnað ef gengið er í sambandið.
Um þessar mundir er nokkur meirihluti landsmanna sem er mótfallinn inngöngu í Evrópusambandið - en fyrir skömmu var því öfugt farið.
Það var því rétt að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið og fá á hreint hvað aðild þýðir fyrir Íslendinga í aðildarsamningi. Á grundvelli aðildarsamnings á þjóðin að taka endanlega afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er best fyrir alla að það verði gert fyrr en síðar.
Fundir Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar með Moratinos eru mikilvægt skref í umsóknarferlinu. Stjórnvöld þurfa á næstu vikum og mánuðum að vinna mikilvæga vinnu við undirbúning aðildarviðræðnanna svo unnt verð að ná fram eins hagstæðum samningi og unnt er þannig að þjóðin sé þess fullviss að hún sé að greiða atkvæði um besta mögulegu stöðu Íslands innan Evrópusambandsins þegar þar að kemur.
Það er mikilvægt fyrir framhaldið að þjóðin sé þess fullviss að ekki hafi verið slakað á í aðildarviðræðunum og að niðurstaðan sé sú besta mögulega.
Hvort sá samningur er nægilega góður svo meirihluti þjóðarinnar samþykki hann mun framtíðin leiða í ljós. En niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar ákvarðar framtíðastefnu Íslands og þjóðin á að standa saman um áframhaldið hver sem niðurstaðan verður. En sú framtíðarstefna þarf að liggja fyrir eins fljótt og auðið er.
Aðildarferli ljúki á næsta ári | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:38 | Facebook
Athugasemdir
Það helsta, er ég hef áhyggjur af, er að vegna niðurskurðar í ríkissrekstri, sem mun hefjast af krafti á næsta fjárlaga-ári, verði eitthvað að láta undan.
En, embættismanna kerfi okkar er lítið, og erfitt getur verið fyrir það, að sinna mörgum stórum verkefnum í einu, af sömu kostgæfni.
Annað hvort, muni baráttan gegn kreppunni líða fyrir - eða, að samningaferlið muni líða fyrir. Þ.e., annaðhvort málið, fái ekki þann kraft sem þarf, til að skila hámarksárangri.
Auðvelt að átta sig á, hvaða áhrif það hefði, ef ríkisstjórnin skilaði af sér í annað sinn, hörmulegum samningi um mjög mikilvægt framtíðarmál.
En, ekki eins augljóst, hvaða áhrif lélegt efnahagsástand, muni hafa.
---------------------
Annars er ég ekki mjög stressaður yfir málinu, tel möguleika Íslands, ekki slæma - punktur. Það á við, hvort sem við erum, þannig séð, inni eða úti.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 17.9.2009 kl. 22:57
Það eru engar "gleðifréttir" að þvingaður ofurflýtir (m.a. án þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknina) og flumbrugangur Össurar í þessu máli eigi sér hliðstæðu í flýti EB-manna, sem kemur reyndar til af öðru: óskinni að innbyrða Ísland sem fyrst. Ísland er dýrmætt, strategískt og efnahagslega, eins og þeir hafa sjálfir sagt, pg það eru einfaldir menn sem sjá ekki í gegnum fagurgala þessa spænska ráðherra. Hann þarf þó ekki að vera að ljúga, þegar hann segir stjórn sína ekki finna "fyrir þrýstingi frá spænskum útgerðum um að beita sér í fiskveiðimálinu þegar forsætistíðin rennur upp" (þ.e. forsætistíð Spánverja í ráðherraráðinu, fyrri hluta ársins 2010), því að formlega leyfist ekki að beita forsætinu í þágu neinnar einnar þjóðar. Blaðamaðurinn kunni bara ekki að spyrja skýrar. En vitaskuld munu útgerðir Spánar, Portúgals, Belgíu, Frakklands, Hollands, Bretlands og Þýzkalands beita sér fyrir því, bæði á "umsóknarferlis-tímanum" og eftir hugsanlega innlimun lands okkar, að þær komist hér yfir sem mest fiskveiðiréttindi, enda er verkefnaleysi þeirra á heimamiðum sláandi.
Hugsaðu, Hallur, hugsaðu!
Jón Valur Jensson, 17.9.2009 kl. 23:06
Heill og sæll Jón Valur!
Já, ég hugsa bara töluvert!
Ef það verður niðurstaðan í aðildarsamningi - þá verður hann væntanlega felldur - og málið dautt - ekki satt?
Hallur Magnússon, 18.9.2009 kl. 00:29
Hvorir heldurðu að hafi yfirburði fjármagns og áróðursvalds, VIÐ ÞJÓÐHOLLUSTUMENN 310.000 manna þjóðar EÐA sameinað afl 27 ríkja og bandalags þeirra, sem nær til 490 milljóna manna, auk fylgismanna þeirra (og að sumu leyti 5. herdeildar) hér á landi? Ertu í alvöru svona óhræddur, eða ertu bara æstur að komast þarna inn, þrátt fyrir allt sem þá yrði fórnað af sjálfstæðis-sigurvinningum þjóðarinnar allt frá 19. öld?
Já, haltu áfram að hugsa!
Jón Valur Jensson, 18.9.2009 kl. 01:51
Spánverjar hafa mikið að verja hér og í að sækja - þetta er náttúrulega allt saman "busines" fyrir þeim er ekki viss um að við séum að skilja þetta alveg rétt þegar við "höldum" að við fáum að vera undanskildir hefðbundnu samstarfi sem innganga er skilyrt fyrir.
en sjáum til í rólegheitunum Hallur
Jón Snæbjörnsson, 18.9.2009 kl. 08:36
Nákvæmlega Jón!
Þetta er lykilatriði og við eigum að sjá til hver niðurstaða aðildarviðræðna verður áður en við ákveðum að innganga gangi ekki vegna sjávarútvegsins.
Hallur Magnússon, 18.9.2009 kl. 09:50
Jón Valur.
Mér hefur nú sýnst fjáraustur kvótakónganna í samtök andstæðinga ESB vera meira áberandi en Evrópusinna.
En já, Jón Valur.
Ég er óhræddur. Ég treysti því að íslenska þjóðin hafi skynsemi til þess að meta aðildarsamninginn sjálf þegar það að kemur og taka út frá honum afstöðu.
Ég veit ekki hvernig sá aðildarsamningur mun líta út og áskil mér allan rétt til að greiða atkvæði á móti aðild ef mér líkar ekki samningurinn.
En ég er hins vegar afar hugsi yfir því hvað andstæðingar ESB eru hræddir við þjóð sína - meira segja í þau skipti sem skoðanakannanir sýna að meirihlutinn telur sig ekki munu vilja ganga í ESB.
Eins og staðan er núna tel ég meiri líkur en minni að samningur verði felldur - nema að td. ströng markmið Framsóknarmanna náist fullkomlega. Ekki einu sinni viss um að það dugi til.
En þannig á þetta að vera. Ríkisstjórninni ber að reyna að ná besta mögulega samningi við ESB - og leggja þann samning í dóm þjóðarinnar. Ef þjóðin er andvíg inngöngu ESB eftir að samningur liggur fyrir - þá fellur hún samninginn og málið úr sögunni. En þjóðin er meðmælt inngöngu á grundvelli samningsins - þá samþykkir þjóðin samninginn og Íslend gegnur ú Evrópusambandið.
Flóknara er það nú ekki.
Hallur Magnússon, 18.9.2009 kl. 12:50
Ég er ekki hræddur við þjóð mína, Hallur, en tel, að hún hafi fulla ástæðu til að hræðast ásælni Evrópubandalagsins. Nú sérðu t.d., að utanríkisráðherra Spánar vill, að "aðildarferli [= innlimun] ljúki á næsta ári," taki ekki nema eitt ár fyrir Ísland eitt af öllum löndum! Þú sérð, að þrátt fyrir kreppu hér eru þessir menn (hvað þá Frakkar, Bretar og Þjóðverjar) æstir að fá Ísland inn í bandalagið og það af mörgum ástæðum. Þetta á einnig við um "leiðandi fjármálaráðherra innan Evrópubandalagsins, Juncker, sem einnig er forsætisráðherra Lúxemborgar: einnig hann við flýtimeðferð Íslands! Margt annað er til marks um, að þeir ásælast Ísland.
Orðin timeo Danaos, et dona ferentes (ég óttast Danáa, einnig þegar þeir koma færandi hendi með gjafir sínar, setning úr grískri sögu, raunar í latínumynd) var endurtekiná Alþingi í sjálfstæðisbaráttu okkar, um eða fyrir 1900 og þótti vel við eigandi í eyrum þeirra klassískt menntuðu þingmanna, sem þá þar sátu margir hverjir, enda minna "Danáar" óneitanlega á Dani, og vegna einhverrar sýndar-góðmennsku Dana, sem þá var verið að flagga, var þetta sagt á þinginu. Nú er látið í það skína (Fréttabl., forsíðufrétt i gær), að Evrópubandalagið veiti Íslendingum s.k. MFA-lán (sem yrði þó aldrei meira en 18 milljarðar kr., kannski ekki helmingurinn af því); ennfremur er vitað, að bandalagið eys miklu meiri peningastyrkjum í lönd sem eru í "umsóknarferlinu" heldur en hin, sem eru komin inn, – svo miklu meiri, að ýmsir hópar í síðanefndu löndunum eru afbrýðisamir vegna þess. Tilgangurinn er augljós: Það á að reyna að kaupa menn til fylgis.
Þegar svo þar ofan á bætist fjáraustur bandalagsins í áróður fyrir "aðild" (innlimun), eins og hann sýndi sig t.d. í Tékklandi, Svíþjóð, Noregi o.fl. ríkjum, þá sjá allir sæmilega skyggnir menn, að hér er margt að varast.
Já, Hallur, ég óttast peningavaldið. Það sama hljóta fylgismenn nýrra hreyfinga, sem bjóða fram til þings, að gera, þegar þeir horfa upp á fjárhagslega yfirburði flokka sem bæði fá á 4. hundrað milljón króna úr ríkissjóði til síns flokks- og áróðursstarfs árlega og einnig tugi milljóna eða meira frá fyrirtækjum.
Ég veit um yfirburði Evrópubandalagsins í peningalegri auðlegð (enda um 1580 sinnum fólksfleira en við), sem og um vanhöld á að láta endurskoða reikninga þess, sem og að mikið fé hefur verið notað til óútskýrðra hluta, enda er mjög líklegt fyrir fram, að bandalag, sem hefur útþenslu – ekki sízt á norðurslóðir (sbr. tenglana hér ofar) – á sinni verkefnaskrá, útþenslu sem það getur framkvæmt án beitingar vopnavalds, en naumast án peningavalds, velji einmitt þá leið að reyna að kaupa sig inn á þjóðir.
Það gerir þetta enn líklegra, að leiðtogi Verkamannaflokksins norska var að lýsa því yfir, að innganga í Evrópubandalagið sé ekki á dagskrá hjá nýjum þingmeirihluta, nema Ísland gangi í bandalagið! Þá liggur beint við, að bandalagið leggi allt kapp á að ná Íslandi inn, því að sannarlega vill það ná hinum ríka Noregi inn – og þar með hafa tvö mestu fiskveiðilönd álfunnar fyrir utan Rússland innan sinna vébanda, auk ómældra olíauðlinda.
Þú ert harla skilningslaus, ef þú sérð þetta ekki.
Nú átt þú að taka afstöðu með landi þínu og sjálfstæði þess, ekki gegn því. Við eigum við ofurefli að etja og þurfum á þínum liðsstyrk að halda!
Taktu líka mið af því, að samþykkt 33-menninganna á tillögunni um umsókn um inngöngu í Esb fól í sér margföld brot á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.
PS. Einnig minni ég á grein mína Er EB með her manns á launum á Íslandi?
Jón Valur Jensson, 18.9.2009 kl. 14:52
Gleymdi þessu, Hallur: "Mér hefur nú sýnst fjáraustur kvótakónganna í samtök andstæðinga ESB vera meira áberandi en Evrópusinna," segir þú, en Heimssýn hefur ekki öflugan fjárhag, svo mikið er víst. Ef þú telur þig vita eitthvað um styrki frá LÍÚ eða útgerðum til málstaðar "samtaka andstæðinga ESB," þá ættirðu að upplýsa um það hér, sem og um það, hvort þeir styrkir ná 30 eða 50% af fjáraustri Samtaka iðnaðarins í áróður fyrir innlimun í þetta Evrópubandalag – eða kannski bara 5–10%!
Ég er hér með stóran bækling (48 bls. í A4-stærð), skreyttan fjölda litmynda og taflna, á fínum pappír, frá Samtökum iðnaðarins og nefnist Ísland og Evrópa. Mótum eigin framtíð, og aldrei hef ég séð nein gögn frá Heimssýn, sem komast í hálfkvisti við þetta í stærð og flottheitum. Þessum bæklingi var dreift ókeypis til hinna fjölmörgu landsfundarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og annarra gesta þar nú undir vorið – og sennilega á flokksþingum annarra pólitískra flokka líka. ÞAR (og í mörgu öðru frá SI, í fjölmiðlum endalaust) getur þú séð áróður, meiri en alla pappíra samanlagða frá andstæðum samtökum.
Nú verður þú að reyna að standa fyrir máli þínu, Hallur Magnússon, í þessu máli, úr því að þú fórst að ásaka þannig útgerðarmenn.
Jón Valur Jensson, 18.9.2009 kl. 15:19
Hallur minn, þú raular fyrir munni þér "Evró-Ísland hvenær kemur þú".
Spánverjar fagna fullsnemma innlimunar Íslands því þeir hafa einsett sér að klófesta veiðiheimildirnar hér við land "þeir fái sinn réttláta skerf" eins og sjávarútvegsráðherra þeirra orðaði það. Aldrei heyrðist múkk í Samfylkingunni og fylgitunglum hennar í öðrum flokkum til að andæva þessu.
Samningurinn verður felldur, við skulum snú okkur að öðru þarfara.
Sigurður Þórðarson, 19.9.2009 kl. 17:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.