Mikilvægt skref hjá Jóhönnu í ESB málum
15.6.2009 | 08:25
Það er mikilvægt hjá Jóhönnu Sigurðardóttur að tryggja stuðning Norðurlandanna við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Það gæti flýtt aðildarviðræðum þannig að unnt verði að greiða atkvæði um aðildarsamning samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2010. Það er nefnilega brýnt að taka afstöðu af eða á um aðild Íslands að ESB.
En Jóhanna þarf að tryggja stuðning fleiri en Norðurlandanna.
Það er lykilatriði að Jóhanna tryggi víðtækan stuðning á Alþingi fyrir aðildarviðræðum. Það gerir hún ekki nema tryggt verði að allir stjórnmálaflokkar komi að aðildarviðræðum sem þar að auki þurfa að vera á faglegum nótum - ekki á forsendum útbrunninna fyrrum stjórnmálamanna.
Einfaldasta leiðin fyrir Jóhönnu er að Alþingi samþykki þingsályktunartillögu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lítt breytta.
Þá er leiðin að aðildarviðræðum greið.
Vil enn og einu sinni minna á lykilatriði sem Íslendingar verða að ná fram í aðildarviðræðum eigi þjóðin að geta samþykkt aðild að ESB. Þau atriði eiga sér öll fordæmi í aðildarsamningum annarra þjóða og skipta Íslendinga miklu máli:
- Skýr og einhliða úrsagnarréttur, sem er þegar viðurkenndur í aðalsáttmála ESB, verði hluti aðildarsamnings.
- Staðfest verði að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og að fiskveiðistjórnun verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur ESB um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.
- Fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt og viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar.
- Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður.
- Framleiðsla og úrvinnsla íslenskra búfjárstofna verði tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra búfjárstofna.
- Staðfest verði að vegna aðstæðna á Íslandi og fámennis þjóðarinnar hafi Íslendingar varanlegan rétt til að setja lög um forgangsrétt manna með lögheimili og fasta búsetu á Íslandi til að eiga ráðandi hlut í jarðeignum, lóðum, fasteignum og atvinnufyrirtækjum, enda styðjast slík ákvæði við núgildandi reglur á Álandseyjum, Möltu, Azoreyjum og víðar innan ESB.
- Í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.
- Tekið verði tillit til stöðu íslensks efnahagslífs við umbreytingu peninga- og gjaldeyrismála á Íslandi.
- Ákvæði verði um varðstöðu um íslenska þjóðmenningu, þjóðtungu og þjóðhætti á Íslandi. Íslenska verði viðurkennt sem eitt hinna opinberu tungumála ESB.
Segir Norðurlönd styðja ESB-umsókn Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:37 | Facebook
Athugasemdir
Ber að skilja þetta sem svo að aðild að ESB sé mál af þeirri stærðargráðu að umstang og kostnaður við eina þjóðaratkvæðagreiðslu sé innlegg í framvindu þess. Þ.e að það séu frambærileg rök um framvindu þess að hægt sé að splæsa hana við sveitarstjórnarkosningar?
Ólafur Eiríksson, 15.6.2009 kl. 08:35
Hvaða fordæmi eru til fyrir slíkum stöðugleikasáttmála - um hvað ertu að tala?
Ólafur Eiríksson, 15.6.2009 kl. 08:41
Nei Ólafur.
Það er hins vegar brýnt að skýr afstaða þjóðarinnar liggi fyrir sem fyrst. Tímasetningin vorið 2010 er afar æskileg.
Ekki síst vegna þess að óvissu um það hvort við verðum innan ESB eða utan verður að liggja fyrir sem allra fyrst - því það skiptir máli fyrir uppbyggingu Íslands að það sé skýrt hvort við verðum innan ESB eða utan í framtíðinni.
Við megum engan tíma missa í þeirri óvissu.
Fyrst það eru kosningar á annað borð vorið 2010 - þá er um að gera að slá tvær flugur í einu höggi.
Ef ekki hefðu verið sveitarstjórnarkosningar næsta vor - þá hefði ég lagt til að við stefnum að þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB á þeim tíma.
Hallur Magnússon, 15.6.2009 kl. 08:42
Takk fyrir svarið Hallur. Ég kem ekki alveg auga á það hvernig aðild að ESB tengist svokölluðu "endurreisnarstarfi" eða hvaða óvissu þarf að eyða þegar það liggur ljóst fyrir að við verðum að ná hér stöðugleika og efnahagslegri heilsu upp á eigin spýtur áður en t.d evra er í boði fyrir okkur gegnum aðild að myntbandalaginu.
Aðildarferlið tekur 2-3 ár og upptaka evru í kjölfarið er eitthvað sem engin leið er að segja til um hvernig gengur eða hversu langan tíma tekur. Áratugur eða meir er að mínu mati lágmark og þangað til hefur ESB engin tæki til að aðstoða okkur eins og sést glöggt á þeim hremmingum sem aðildarríki þess eru lent í.
Ólafur Eiríksson, 15.6.2009 kl. 08:48
Nú lýgur Jóhanna, enn eina ferðina. Norðurlandaþjóðirnar hafa allar sagt að þær virði ákvörðun Íslands, hvort sem sótt verður um ESB-inngöngu eða ekki.
Norðurlandaþjóðirnar styðja því fullveldi Íslands !
Loftur Altice Þorsteinsson, 15.6.2009 kl. 09:08
Já það er allt á fullu við að splundra og sundra þjóðinni vegna þessa ESB rétttrúnaðar.
Það er það sem Samfylkingunni finnst mest um vert nú á þessum víðsjárverðu tímum, annað er meira og minna látið reka á reiðanum.
Svo vil ég ítreka það hér og hef gert það áður að ef ykkur einhverntímann tekst að koma hingað með ESB samning þá kemur ekki til greina að kosningar um hann verði eitthvert hliðarmál í einhverjum sveitar- eða alþingiskosningum.
ESB málið er og verður stærsta mál í sögu þjóðarinnar og það fer þvert á flokkslínur og á því þarf að vera fullur fókús um nokkurn tíma og ekkert annað á að trufla það. Einnig eiga flokksapparötin sem minnst að geta haft áhrif á skoðanamyndun fólks í þessu máli.
Þeið sem viljið aðild viljið endilega reyna að læða þessu svona með þannig að fókusinn verði ekki alveg á málinu og þannig geriði ykkur frekar vonir um að þetta slefi í gegn.
En ég skal alveg segja ykkur að ESB aðild Íslands verður kolfelld !
Þá getur þjóðin farið að einbeita sér að því sem hér þarf að byggja upp.
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 12:43
Jæja Gunnlaugur!
Algjör þvermóðska andstæðinga ESB sem ekki treysta þjóðinni að greiða atkvæði um aðildarsamning - hefur sú þvermóðska ekkert með "að splundra þjóðinni" að gera?
Ef þú ert svona viss um að ESB aðild Íslands verði felld - af hverju ert þú og andstæðingar ESSB svona hrædd við aðildarviðræður og þjóðaratkvæðagreiðslu? Óttist þið góðan samning?
Hallur Magnússon, 15.6.2009 kl. 13:07
Sæll Hallur.
Ég treysti einmitt þjóðinni vel.
Þess vegna hefði ég viljað láta þkjóðina kjósa strax núna strax.
Um:
"Hvort leyfa eigi stjórnvöldum að sækjau um aðild landsins að ESB og í framhaldi af því hefja aðildarvirðæður við Bandalagið á grundvelli fyrirliggjandi þingályktunartillögu utanríkisráðherra Íslands"
Þetta vilja aðildarsinnar alls ekki, þeir þora ekki að hleypa þjóðinni beint og milliliðalaust að þessari ákvörðun.
Ég vantreysti Samfylkingunni og er ekki einn um það að fara í opnar samningaviðræður við ESB, þeim er svo mikið í mun að troða okkur þarna inn að þeir munu reyndar aldrei koma með neinn boðlegan samning einfaldlega vegna þess að boðlegur samningur fyrir Ísland er ekkert í boði.
En þeir munu á lymskulegan hátt reyna að troða allskonar pinklum og gulrótum á samninginn til þess að reyna að fegra hann og svo munu kolhlutdrægir fjölmiðlarnir og kolhlutdrægir Evrópusérfræðingarnir reyna að poppa þetta upp og ljúga þessu ísmeygilega inná þjóðina, sem væri svo reynt að læða með í sveitarstjórnarkosningum flokkanna.
En fyrri atkvæðagreiðslan gæti sparað okkur heilmikið vesein með því einfaldlega að hafna því að leyfa stjórnvöldum að halda í þennan ESB leiðangur.
En þetta þora stjórnvöld ekki að gera. Lýðræðisástin er líka mjög á undanhaldi hjá ESB VALDINU.
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 13:28
Þetta er mjög góð grein hjá þér Hallur og í grófum dráttum kemur þú inn á öll þau hagsmunamál sem eru mikilvægust til að tryggja hagsmuni Íslendinga í aðildarviðræðum við ESB.
Það gæti verið mikilvægt að sótt verði um ERM ll (European Exchange Rate Mechanism) samhliða hugsanlegum aðildarviðræðum því mér skilst að það geti tekið allt að sex mánuði að fullgilda samkomulagið en það langur tími í fjármálakreppu.
Eftirfarandi er mjög góð grein sem Kristján Vigfússon kennari við H.R og ráðgjafi skrifaði inn á bloggið sitt þann 24 apríl s.l. Mér finnst þessi grein mjög raunsæ og segja allt sem segja þarf til að réttlæta aðildarviðræður Íslendinga við ESB.
Tenging við evruna er lykilatriði
“Ég hef hér á síðunni reynt að fjalla um samskipti Íslands og Evrópusambandsins og þá hagsmuni sem mestu máli skipta fyrir þjóðina ef að aðildarviðræðum kemur. Þessi atriði eru samningar um tengingu við Evruna, sjávarútvegsmál og landbúnaður. Fjölmargir fræðimenn og hagfræðingar hafa gert slíkt hið sama og bent á kosti þess og galla að ganga í sambandið.
Slík vegferð er langhlaup en ekki spretthlaup enda engar hókus pókus leiðir til þegar kemur að efnahags- og fjármálstjórnun hagkerfis og heillar þjóðar. Þess er því ekki að vænta að handan hornsins sé himnaríki eða helvíti líkt og áköfustu stuðningsmenn og andstæðingar Evrópusambandsaðildar vilja margir hverjir meina.
Það er líka ljóst að áhrif inngöngu á daglegt líf almennings eru hverfandi að langflestu leiti nema því að vextir, verðlag og verðbólga snarlækka vegna aukins stöðugleika með tengingu við evruna og síðar nýjum gjaldmiðli. Þessi atriði vega væntanlega þungt í hagsmunamati almennings ef að líkum lætur.
Þegar ég segi að áhrif á daglegt líf séu hverfandi þá á ég við að rekstur og uppbygging menntakerfis, heilbrigðiskerfis, nýtingu orkunnar og sölu hennar til almennings, samgönguuppbygging, fjarskiptarekstur, fyrirkomulag og þjónusta sveitarstjórnarstigsins verður allt áfram á könnu íslendinga sjálfra. Öll nærþjónusta sem skiptir okkur öll svo miklu máli í hinu daglega lífi verður áfram á okkar forræði.
Það sem margir gera sé hins vegar vonir um að breytist við aðild er almennt fjármálalegt umhverfi heimila og fyrirtækja jafnframt sem verðlag og viðskiptakostnaður snarlækki. Nánast allt atvinnulífið og samtök launþega eru sammála um óhagkvæmni þess að reka sjálfstæða peningamálastefnu í svo litlu og fámennu hagkerfi. Ísland er samkvæmt því mjög óhagkvæmt gjaldmiðilssvæði sem á litla möguleika á að spjara sig í opnu nútíma umhverfi frjálsra fjármagnsflutninga. Sömu aðilar telja að ólíðandi sé fyrir þjóðina til lengdar að búa áfram við miklar gengissveiflur undanfarinna ára. Þessar sveiflur gera einstaklingum og fyrirtækjum erfitt fyrir í allri áætlanagerð og skipulagningu framtíðar. Þessu hefur fylgt mikil verðbólga og mjög háir vextir sem gera heimilum og fyrirtækjum óhemju erfitt fyrir.
Nýjustu upplýsingar um mun á vaxtakostnaði heimila og fyrirtækja innan eða utan ESB vegna íslandsálags eru sláandi og styðja þessa nálgun um minni viðskipta- og vaxtakostnað og aukinn stöðugleika.
Það eru þessir þættir sem flestir horfa til þegar svara þarf spurningunni um aðildarviðræður.
Það verður því ekki lögð nægilega mikil áhersla á það að ef að aðildarviðræðum kemur þá verði það lykilatriði að ná samkomulagi um tengingu íslensku krónunnar við evruna til að koma í veg fyrir frekar fall krónunnar með tilheyrandi hruni heimila og fyrirtækja. Þar skiptir skiptigengið öllu máli. Hjá finnum var tekið mið meðaltali 3 ára fyrir aðild.
Það er raunhæft að semja um það í aðildarviðræðum að Ísland komist inn í fordyri Evrunnar svokallað ERM II kerfi sem byggir m.a. á 15% sveiflujöfnun krónunnar gagnvart evru. Venjubundið er að aðildarríki komist 6 mánuðum eftir aðild inn í ERM II en gífurlega mikilvægt er að látið verði á það reyna að Ísland komist inn í ERM II fyrr og jafnvel í aðildarviðræðunum sjálfum. Þetta er raunhæft markmið vegna þess að ísland er þegar með ¾ hluta löggjafar sambandsins í gildi og er þegar hluti af innri markaðnum ólíkt öðrum ríkjum sem hafa sótt um aðild fram til þessa.”
Friðvin Guðmundsson, 15.6.2009 kl. 19:09
Ég er sammála ykkur Friðvini, Hallur. ég vil samt benda á að daglegt líf íslendinga breytist talsvert. Við höfum séð hvernig stórverslanir hafa lækkað vöruverð mikið en jafnframt minnkað vöruúrval á mörgum sviðum. Þessar vörur þurfum við að sækja til Evrópu eða Ameríku með mikilli fyrirhöfn og kostnaði. Með inngöngu í ES verður það jafn auðvelt að nálgast erlendar sérvörur eins og að panta vörur innanlands.
Þetta skiptir ekki litlu máli fyrir þjóðina.
Skúli Guðbjarnarson, 15.6.2009 kl. 20:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.