Aðgerðir vegna greiðslubyrði íbúðalána

Vonandi tekur ríkisstjórnin á sig rögg og kemur fljótlega með íslensku aðgerðaráætlunina sem ríkisstjórnin lofaði okkur Framsóknarmönnum þegar ákveðið var að verja stjórnina falli.

Set fram aðgerð sem getur skipt sköpum fyrir heimilin. Hef talað fyrir þessari leið frá því í haust - meðal annars á blogginu. Setti hugmyndina í minnisblað þegar ljóst var að ný ríkisstjórn væri að komast á koppinn.

Aðgerðir vegna greiðslubyrði íbúðalána

 Há greiðslubyrði íbúðalána ógnar stöðu fjölmargra íslenskra heimila í þeirri efnahagslægð sem nú gengur yfir.  Hættan á greiðsluþroti fjölda heimila sem leiðir af sér greiðslufall vegna íbúðalánas ógnar stöðu Íbúðalánasjóðs og annarra fjármálafyrirtækja. Markmið stjórnvalda í þessari stöðu hlýtur að vera sú að tryggja heimilum bærilegri greiðslubyrði vegna íbúðalána svo heimilin komist ekki í greiðsluþrot og jafnframt að tryggja Íbúðalánasjóði og öðrum fjármálafyrirtækjum sem veitt hafa heimilunum íbúðalán öruggt greiðsluflæði til að stöðu þeirra sé ekki ógnað. Það er ljóst að framtíðarfyrirkomulag íbúðalána og húsnæðisbóta getur ekki verið verkefni minnihlutastjórnar sem starfar nánast sem starfsstjórn fram að kosningum þar sem þjóðin mun endurnýja pólitískt umboð Alþingis. Hér á eftir koma tillögur að bráðabirgðaaðgerðum sem tryggja hóflega greiðslubyrði heimilanna og tryggja öruggt fjárstreymi til fjármálafyrirtækja vegna íbúðalána á næstu mánuðum og misserum. 

Greiðslubyrði fast hlutfall af brúttó innkomu

 Greiðendum íbúðalána verði gefinn kostur á að greiða ákveðið fast hlutfall brúttó innkomu sinnar  20% sem greiðslu af íbúðalánum sínum.. Íbúðalánasjóði, ríkisbönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum sem lánað hafa íbúðalán verði gert skylt að heimila lántakendum að velja tímabundið slíkt fast greiðsluhlutfall.  Gengið verði síðar frá uppgjöri á greiðslu mismunar lægri greiðslu vegna hins fasta hlutfalls og fjárhæðar hefðbundinnar afborgunar íbúðalánsins. 

Hefðbundin vísitölutryggð lán

Mismunur á greiðslu vegna hins fasta hlutfalls og fjárhæðar hefðbundinnar afborgunar íbúðalánsins verði fryst og bætist við höfuðstól lánsins um áramót. Ákvörðun um meðferð mismunarins til lengri tíma verði tekin að 3 árum liðnum.  Möguleika á meðhöndlun hærra láns gera þá orðið lenging láns ef greiðslubyrði er og há og í einhverjum tilfellum möguleg afskrift hluta lánsins. Ákvörðun um slíkt verði í höndum nýrrar ríkisstjórnar.

Gjaldeyrislán

Haldið verði utan um greiðsluflæði vegna gjaldeyrislána í íslenskum krónum. Uppgjör á greiðslum vegna gjaldeyrisláns verði um hver áramót. Ákvörðun um  hvort miðað verði við þá gengisvísitölu sem ríkir um áramót eða að uppgjör verði gert á sérstaklega ákveðinni gengisvísitölu verðu tekin þegar þar að kemur enda er ekki um endurgreiðslu ríkisbankanna á fjármögnun gjaldeyrislánanna að ræða fyrr en síðar.  

Hefðbundin vísitölutryggð lán

Ríkisbönkum verði gert skylt að veita viðskiptavinum sínum sambærilega greiðsluerfiðleikaaðstoð og hefðbundin greiðsluerfiðleikaaðstoð Íbúðalánasjóðs.

 


mbl.is Samþykktu aðgerðaráætlunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallur Magnússon

Reyndar var ég búinn að finna 23,2% væri hæfilegt.

Hvað varðar gengistryggðu lánin - þá er ekki verið að greiða þau til baka á núverandi gengi. Tökumstöðuna um áramót,

Hallur Magnússon, 13.2.2009 kl. 22:24

2 identicon

Sigurbjörg. Samkv, Heidi Strand var það Hallur Hallsson sem skrifaði í Moggann,

Kveðja úr Garðinum. JAT

Jón Tynes (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 23:55

3 identicon

Það er ljóst að þú vilt fresta þeim ósanngjörnu álögum sem hafa lagst á fólk!  Hvaða vanda leysir það að fresta vandanum endalaust?  Verðbæturnar halda áfram að tikka og eru ekki að fara neitt! Hallur heldur þú að fólk muni sætta sig við að þurfa að taka á sig allar þessar verðbætur?  Finnst þér sanngjarnt að fólk taki á sig margar milljónir sem eru tilkomnar vegna neyðarlaga, stöðutöku og efnahagsóstjórnar?  Finnst þér réttlát að bjóða lán á 6,5% og verðtryggja þau líka?  Ertu sammála því að það þurfi að afskrifa hluta af lánum almennings?

Beta (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 00:38

4 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Ég er sammála síðasta ræðumanni, það er til lítils að fresta sérstaklega ef verðbæturnar halda áfram að tikka. Það er nauðsynlegt að bakfæra verðbætur á lán og taka verðtrygginguna úr sambandi auk þess sem vitanlega þarf að grípa til aðgerða til þess að létta á heimilum því það er nokkuð ljóst að launastig mun ekki hækka á næstunni á móts við kostnaðarhækkanir.

Guðmundur Sverrir Þór, 14.2.2009 kl. 08:17

5 Smámynd: Hallur Magnússon

Beta og Guðmundur.

Það er rétt að taka á msimuninum þegar við höfum náð að komast í gegnum þennan skafl sem við erum í núna og koma efnahagslífinu á réttan kjöl.

Það að hefja miklar niðurfærslur á sama tíma - er ekki til þess fallið að ná stöðugleika.

Þegar það er búið að ná efnahagslífinu á réttan kjöl gefst ráðrúm til að grípa til aðferðar til lengri tíma.

Ég útiloka ekki niðurfærslu hluta lána þegar þar að kemur. Önnur lausn er að breyta hluta lánanná þá í kúlulán til 25 ár. Mögulega dugir fyrir marga að lengja lánin.

Það fer allt eftir því hvernig okkur vegna að komast á lappir aftur.

Kjarni málsins er sá að það er ekki rétti tíminn að gera þær aðgerðir núna.

Hins vegar verður að tryggja að heimiln geti staðið af sér kreppuna og að afborganir íbúðalána sliki ekki heimilin. Þessi leið tryggir slíkt.

Ekki gleyma því - þótt það hljómi ótrúlega - að við gætum verið að sjá verðhjöðnun og lækkun greiðslubyrði!!!  En slík verðhjöðnun verður hins vegar aldrei eins mikil og óðaverðbólgan.

Beta og Guðmundur. Ekki gleyma því að kaupmáttur fólks hækkaði verulega umfram greiðslubyrði af vertryggðum íbúðalánum frá árunum 1995 - 2008. (Reyndar kannske tilviljun að það var í stjórnartíð Framsóknarflokksins - held reyndar ekki - það skiptir máli hver er í stjórn).

Á þeim tíma jókst verðgildi íbúða oftast langt umfram hækkun lána - þótt íbúðaverð hafi hrunið núna.

Var þá ósanngjarnt að hafa verðtryggingu sem tryggði lægri raunvexti en ella hefði orðið?

Reyndar óttast ég að með íslensku krónuna þá sé verðtrygging langtímalána eina leiðin til þess að við fáum yfir höfuð langtímalán - og það er deginum ljósara að til lengri tíma þá munu raunvextir óverðtryggðra lána í íslenskum krónum verða hærri en raunvextir verðtryggðra lána - svo fremi sem einhver er yfir höfuð reiðubúinn að lána í óverðtryggðum íslenskum krónum.

Beta 6,5% vextir á verðtryggðum lánum er allt of há vaxtaprósenta.  En það er í dag sá fórnarkostnaður sem við höfum vegna þess að við erum að rembast við að halda krónunni.

Ekki gleyma því að ef lánið væri ekki verðtryggt þá væru vextirnar í dag að líkindum 26% - 30% á íbúðaláninu óverðtryggðu.

Reyndar eru vextir lána Íbúðalánasjóðs mun lægri en 6,5%.

Vandamálið er íslenska krónan. Við þurfum að taka upp annan gjaldmiðil. Ef við tökumupp evru - þá þurfum við ekki lengur verðtryggingu.

Hallur Magnússon, 14.2.2009 kl. 09:10

6 identicon

Ég held að það sé skynsamlega fyrir hvern og einn að missa húsnæðið, fara í gjaldþrotameðferð og annað hvort byrja aftur, annað hvort með því að flytja úr landi eða hér heima.

 Það er hægt að fá húsnæði á betra verði núna en áður. Ég sé ekki betur en ráðlegging þín sé álíka gáfuleg og ráðleggingar fyrri ára úr kerfinu. Með öðrum orðum, þú ert að ráðleggja fólki að treysta ráðamönnum! Það hefur nú ekki reynst skynsamlegt.

Best væri ef lán væru færð niður með rúlla gengisvísitölu og verðlagsvísitölu afturábak og lækka vexti niður fyrir vísitölu (sem gagnast öllum sem skulda og myndi líka endurreisa viðskiptalífið hratt). Við það hrykki húsnæðismarkaður í gang, innistæður og eignir myndu halda eiga möguleika á að halda verðgildi sínu.

Þessari leið er ekkert til fyrirstöðu tæknilega.

Doddi D (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 09:47

7 identicon

Óvenjulegir tímar krefjast óvenjulegra aðgerða 

Það má hafa miklar efasemdir um að við núverandi aðstæður verndi verðtrygging eigendur sparifjár eins og til er ætlast. Að auki er ljóst að verðtryggingin á íbúðarhúsnæði sem endurspeglar mælda verðbólgu er langt frá því að vera óumdeild mæling til hækkunar áhvílandi skulda á þessum óvenjulegu tímum.

 Gengishrun

Segja má að það þjóðfélag sem við höfum séð hér á landi á síðustu árum, sé gerólíkt því sem við höfum séð eftir bankahrunið í byrjun október 2008. Gengi krónunnar hefur hrunið nú í haust, en hafði einnig lækkað verulega fyrr á árinu eftir kjarasamninga á almenna markaðnum 17. feb rúar 2008. Þannig þurfti aðeins um 93 íslenskar krónur í upphafi árs 2008 (9.janúar) til að kaupa eina Evru en ári  síðar í janúar 2009 þurfti 170 krónurnar samkvæmt gengi Seðlabankans. Þetta gerir um 84% hækkun Evru. Að sama skapi hækk aði dollarinn um tæplega 98% og gengis vísitalan um 81%. Á einum mánuði (9. des 2008 til 9 jan 2009) er hækkun á erlendri mynt 15-18%. Lækkun krónunnar hefur mikil áhrif á hækkun innflutningsverðs sem aftur veldur hækkun á mældri verðbólgu, enda vega innfluttar vörur í vísitölu- mælingunni 36,4% (í nóvember 2008). Enn eru gjaldeyrishöft og þegar þeim verður aflétt er yfirvofandi verulegt viðbótarfall krónunnar, meðal annars vegna svokallaðra jöklabréfa. Þetta mun enn auka á verðbólgu.

 Kaupmáttur fellur, atvinnuleysi eykst, húsnæðisverð lækkar og mældar skuldir hækka

Þannig hafði kaupmáttur launa lækkað á árinu, en lækkaði svo enn hraðar eftir hrunið í október og ekki sér fyrir endann á þeirri lækkun. Á sama tíma hefur atvinnuleysi aukist mjög mikið og atvinnuleysistölur hækka frá mánuði til mánaðar. Húsnæðisverð lækkar einnig að raungildi, sölutregða eða nánast sölustopp er á íbúðarhúsnæði, svo eign almennings í íbúðarhúsnæði lækkar verulega. Oft er mögulegt söluverð komið langt niður fyrir áhvílandi skuldir, sérstaklega ef um er að ræða lán í erlendri mynt. Mæld verðbólga í desember var 18,1% og ekki útlit fyrir lækkun hennar í bráð. Í þessu ástandi er erfitt að sætta sig við að verðbólguþáttur í verðtryggingunni orki tvímælis.

 Verðbólgumæling nú og verðtygging byggist á neyslumynstri áranna 2004, 2005 og 2006

Hagstofa Íslands reiknar út breytingu á verðlagi og gefur út vísitölu mánaðarlega. Það er vísitala neysluverðs sem er notuð til að mæla verðbólguna með samsvarandi áhrifum á útreikning verðtryggingar íbúðarlána. Hagstofan hefur sjálfdæmi um hvernig hún reiknar verðbólguna enda sjálfstæð stofnun. Undir það skal tekið að sjálfstæði hennar er mikilvægt því trúverðugleiki mælinganna myndi minnka verulega ef stjórnvöld færu að skipta sér af aðferðafræðinni. Annað mál er hversu rétt er að nota þessa mælingu til að endurspegla verðtrygginguna og þ.a.l. skuldastöðu heimilanna nú um stundir. Vísitala neysluverðs byggir á þriggja ára gömlum neyslugrunni að meðaltali. Hún byggist sem sagt á neyslu sem átti sér stað 2006, 2005 og 2004. Það má segja að þetta hafi verið árin þar sem hámarki neyslugleðinnar var náð. Það er ekki fyrr en í mars/apríl 2009 sem neyslu mælingin fyrir árið 2007 kemur inn í grunninn og fyrst á vormánuðum 2010 förum að fá einhver smá áhrif frá neyslunni eins og hún er núna, en það gerist þó frekar árin 2011 og 2012. Ljóst er að neyslan nú er gjörbreytt frá því sem hún var á þessum mikla neyslutíma sem vísitalan byggir á.

 Gjörbreytt neyslumynstur

Við vitum t.d. að á síðustu mánuðum var algjört hrun á innflutningi bifreiða. Í nóvember síðastliðnum seldust 5,3% af þeim fjölda bíla sem seldust í nóvember árið á undan. Þá seldust aðeins 12,3% af þeim fjölda notaðra bíla sem seldust ári fyrr. Sama má segja um heimilistæki, flatskjái og dýrari innfluttar vörur. Það er allt annað neyslumynstur og við vitum að fólk færir sig frá dýrari matvöruverslunum í þær ódýrari og innan verslana kaupir það frekar ódýrari vörur. Þannig að mælingin á verðbólguna sem veldur hækkun verðtryggingar og skulda heimilanna, byggir á neyslu sem á sér ekki stað í gerbreyttu þjóðfélagi í dag. Neysla almennings minnkar sem sést m.a. í jákvæðum vöruskiptajöfnuði síðustu mánuði en jafnframt því loka sumar búðir sem áður seldu vörur sem voru í mæling unni. Þannig verður mælingin erfiðari og vafa samari sem mælikvarði sem eykur sjálfkrafa skuldir heimila með verðtryggð lán.

 Bara í Ísrael, Brasilíu og Chile og Ísland

Þetta verðtryggingarfyrirkomulag á íbúðarhúsnæði þekkist ekki í löndum Evrópu, en hefur verið notað í Ísrael, Brasilíu og Chile. Hér á landi er stór hluti íbúðalána verðtryggð með háum vöxtum og ofan á það stundum breytilegum vöxtum líka. Það hefur verið kallað að hafa belti og axlabönd fyrir þann sem lánar og átti að vera algerlega pottþétt. Þannig hefur lánveitandi ekki þurft að hafa áhyggjur af verðbólgunni, það var bara vandamál lántakenda,þar til núna. Veru legar efasemdir eru uppi um að svona kerfi gangi til langframa, hvað þá nú, eins og þróunin er. Nú eru aftur á móti komnir tímar þar sem það er ekki endilega öruggt að lána á þennan máta. Fólk gefst upp, en á því eru mun meiri líkur en áður. Þegar skuldir í húsnæði eru orðnar meiri en mögulegt söluverð og ekki er mögulegt að selja, tekjurnar minnka eða hrynja, þá hreinlega gefast margir upp. Þá er mikið meira atriði að halda fólki, halda í vonina og gefa eftir einhvers staðar.

 Greiðslugeta, greiðsluvilji, gagnsæi

BSRB hélt nokkra opna fundi fyrir áramót, sem voru vel sóttir og má nálgast upptökur af þeim á heimasíðu BSRB. Meðal annars var haldinn fundur um verðtrygginguna og annar fundur 26. nóvember var haldinn með fulltrúum bankanna. Þar hélt Helgi Bragason lánastjóri viðskiptasviðs KB banka erindi sem hét ,,Hugsum lengra“. Hann sagði þar meðal annars.,, Í dag þjónar það ekki endilega hagsmunum skuldaeigenda best að eignast fasteignir með afsali eða á uppboði“. Því fylgi mikill kostnaður og engar tekjur. Fast eignaver hefur hrapað, enginn markaður er fyrir hendi. Hann nefndi að betra væri að horfast í augu við staðreyndirnar strax. Það væri betra en að fólk gefist upp og geri sig gjaldþrota. Við viljum halda fólki á Íslandi. Ef fólk hefur greiðslugetu og greiðsluvilja er betra að afskrifa hluta af skuldum heldur en að lánveitandinn sitji uppi með verðlitlar og illseljanlegar eigur. Þarna þyrfti aðkomu stjórnvalda um mótun gagnsærra reglna og lagasetningar.

 Lífeyrissjóðir og önnur lönd

Mikið hefur verið talað um hag lífeyrissjóðanna við þessar aðstæður. Um 50-60% af eigum þeirra er í verðtryggðum lánum og þar af um 5-15% í íbúðalánum sjóðfélaga. Skuldbindingar lífeyrissjóðanna eru hins vegar verðtryggðar greiðslur vegna örorku eða ellilífeyris. Þetta skapar vissulega vanda nú, ofaná tap sjóðanna í öðrum fjárfestingum nú nýverið. Í ljósi þess sem að ofan greinir er hins vegar ekki hægt að halda áfram eins og ekkert hafi breyst. Umdeildur útreikningur verðtryggingar og auknar líkur á greiðslufalli lána, kallar á endurskoðun. Varla geta verðtryggð lán verið eina haldreipi lífeyrissjóðanna í breyttum heimi, þar sem nánast allar aðrar fjárfestingar hafa beðið skipbrot. Almenningur stendur ekki undir því. Algeng íbúðarlán í Danmörku bera 3,5% vexti án verðtryggingar. Þar er oft líka hámark á vöxtum 5%. Það er ólíku saman að jafna. Hér þarf sátt í þjóðfélaginu og gerbreyttar áherslur. Margar útfærslur eru mögulegar, svo sem frysting vísitölunnar í eitt ár, helmingun hennar eða vísitöluþak. Markmiðið hlýtur þó að vera að komast í stöðugra umhverfi og lægri vexti, eins og er hjá nágrönnum okkar. En fyrst þarf að gírpa til aðgerða og það strax, áður en skaðinn er skeður.

 

Einar Árnason hagfræðingur BSRB

  

Þórður B. Sigurðsson (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 09:49

9 identicon

Besta leiðin út úr því ástandi sem við erum í er að afskrifa allar hækkanir lána eftir 1. jan. 2008. Þessar hækkanir, hvort sem um er að ræða gjaldeyristryggð lán eða verðbætt lán eru þýfi sem þarf að skila. Verði þetta gert losnar mikill fjöldi heimila úr fjötrum og geta byrjað að greiða af íbúðum sínum aftur og lifa eðlilegra lífi aftur í samfélagi sem það getur treyst. Fasteignamarkaðurinn losnar úr fjötrum og þar með mun atvinnulífið fá möguleika á að bjarga sér. Menn eru ekki alveg að skilja samhengið milli fasteignamarkaðar, heimilanna og atvinnulífsins. Séu fjötrar á einum þessara þátta, fjötrast hinir með. Innheita þessa fés er gjörsamlega óraunhæf. Að fela þetta með einhverjum undanbrögðu og segja að seinna eigi að skoða niðurfellinu er þvílík steypa að það tekur engu tali. Ef valdhafar geta ekki tekið á þessu máli núna munu þeir heldur ekki gera það seinna. Þetta er okkar Gordian hnútur. Sá sem tekur upp sverðið og sker einfaldlega á hann losar heimilin og atvinnulífið úr fjötrum. Hann/hún verður hetjan okkar.

Ólafur Garðarsson (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 10:22

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hallur, gott innlegg í umræðuna.  Ég vil biðja þig um að breyta einu í orðavali þínu.  Það eru ekki til nein gjaldeyrislán á íslensku neytendalánamarkaði.  Það eru til gengistryggð lán.  Þetta er ný tegund af verðtryggingu sem miðar við gengi tiltekinna gjaldmiðla.  Lántakendur fá aldrei neinn gjaldeyri í hendur.  Ég spurði einu sinni út í það, en kerfið virkar ekki þannig.  Vinsamlegast ekki nota hugtakið gjaldeyrislán, þar sem það er bæði rangt og villandi.

Marinó G. Njálsson, 14.2.2009 kl. 11:25

11 Smámynd: Kristinn Örn Jóhannesson

Hugmyndir Halls eru góðra gjalda verðar, en eru því miður engin lausn heldur enn ein frestunin.

Hef sent Halli opið bréf í dag 14.2 sem framlag í umræðuna. Bréfið er hér.

Kristinn Örn Jóhannesson, 14.2.2009 kl. 12:24

12 identicon

Kristinn og Þórður við þurfum fólk eins og ykkur.  Með fullri virðingu fyrir þér Hallur ertu því miður brenndur því marki að tala eins og fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn.  Verðhjöðnunartalið er tal þeirra sem vita að rökin eru ekki vatnsheld.  Hallur áttar þú þig á því að nú er mikið atvinnuleysi sem á eftir að aukast?  Áttar þú þig á því að fullt af fólki hefur orðið fyrir launalækkun!  Nutu allir kaupmáttarins sem þú talar um?  Hvað með fólkið sem keypti íbúðir frá 2007?  Er það búið að græða á eignarbólunni?  Eru hér ekki neyðarlög?  Flokkast það ekki undir neyðarástand? 

Þar hélt Helgi Bragason lánastjóri viðskiptasviðs KB banka erindi sem hét ,,Hugsum lengra“. Hann sagði þar meðal annars.,, Í dag þjónar það ekki endilega hagsmunum skuldaeigenda best að eignast fasteignir með afsali eða á uppboði“. Því fylgi mikill kostnaður og engar tekjur. Fast eignaver hefur hrapað, enginn markaður er fyrir hendi. Hann nefndi að betra væri að horfast í augu við staðreyndirnar strax. Það væri betra en að fólk gefist upp og geri sig gjaldþrota. Við viljum halda fólki á Íslandi. Ef fólk hefur greiðslugetu og greiðsluvilja er betra að afskrifa hluta af skuldum heldur en að lánveitandinn sitji uppi með verðlitlar og illseljanlegar eigur. Þarna þyrfti aðkomu stjórnvalda um mótun gagnsærra reglna og lagasetningar.

Já það sjá ekki allir hlutina eins!  Ég tek undir Helga Bragasyni það er betra að afskrifa hluta af skuldum hjá fólki sem hefur greiðslugetu og greiðsluvilja ennþá?

Beta (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 12:44

13 Smámynd: Hallur Magnússon

Kærar þakki fyrir þessi frábæru innlegg.

Marínó - ég átti að vita þetta með gengistryggð lán.

Takk fyrir ábendingun

Beta.

Ég átta mig á öllu þessu sem þú bendir á.

Undirstrika að ég er alls ekki að útiloka afskriftir eða niðurfærslu lána. Þvert á móti eins og ég hef bent á.

En ég tel það brýnna að grípa strax til aðgerðar sem tryggja fjölskyldunar núna. Rétti tíminn til langtímaaðgerða er þegar við höfum aðeins komið okkur upp úr núverandi aðstæðum.

Hallur Magnússon, 14.2.2009 kl. 13:14

14 identicon

Sæll Hallur,

1) Verðtryggð lán eru gengitryggð frá 33% til 40%. Þetta þýðir að um 33% til 40% af gengifalli IKR gengur beint inn í verðtryggingarleiðréttingu verðtryggðra lána ! Sá hluti gengur hins vegar aldrei til baka þótt IKR muni styrkjast !

2) Verðtryggð lán eins og þau eru praktiseruð hér á Íslandi er ekki sæmandi í lýðræðissamfélagi. Finnst þér eðlilegt að krefjast almennt 5-6% raunvaxta af íbúðarlánum. Þú færð ekki einu sinni slíka ávöxtun í nágrannarlöndunum. Ef menn vilja hafa verðtryggð lán þá má raunvaxtastigið á lánunum aldrei fara yfir 1-2% Annað er hrein rányrkja.

3) Ef menn vilja hafa verðtryggð lán þá verður að dreifa áhættunni af þeim. Það er að minnsta kosti sanngjarnt að lánveitandinn taki á sig gengisþáttinn sem hvílir að baki verðtryggða hlutanum.

4) Þegar íbúðalánasafn úr gömlu bönkunum verður selt í þá nýju með útgáfu skuldabréfs þá er alveg ljóst að það verður veittur ríkulegur afsláttur á því safni. Nýtur lánþeginn einhvers af því ? Efast um það.

Það virðist vera að stjórnvöldum sem hagsmunaraðilum sé fyrirmunað að koma með eðlilegar og sanngjarnar útfærslur á íbúðarlánum. Sé ekki að það muni breytast.

ps. Þökk sé að fólk í Simbabve þurfi ekki að taka verðtryggð lán fyrir húsnæði sínu, nægur er þó vandi þeirra fyrir.

Bjorn Kristinsson (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 13:51

15 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég vil vekja athygli á færslu á síðunni minni:  Er hægt að ógilda verðtryggða og gengistryggða lánasamninga?  Ég er hef skoðað ummæli greiningadeilda allra bankanna um tvö ár aftur í tímann og ekki einu sinni um mitt sumar 2008 komu viðvaranir um það sem í vændum var og þá var hálfur skaðinn gagnvart okkur neytendum þegar skeður.
 

Marinó G. Njálsson, 14.2.2009 kl. 18:38

16 identicon

Njáll, ég skoðaði Peningamál SÍ undanfarinna ára og hvergi í þeim er áætlun þeirra um þróun IKR í nánd við það sem staðan er í dag. Aðeins í ljósi þess er augljóst að aðilar voru ekki með púlsinn á því sem var að gerast eða ?

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 19:34

17 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Björn, það er faðir minnn sem heitir Njáll .  Ég held að það sé mjög mikilvægt að fólk taki sig saman um að safna öllum tiltækum upplýsingum um spár, aðvaranir og hvað það er nú allt sem gæti hjálpað okkur, almenningi, að styrkja hugsanlega málshöfðun til ógildingar á verð- eða gengistryggingarskilmálum lánasamninga.  Ef það tekst, þá þarf ekki að velta fyrir sér neinu öðru.  Síðan vil ég líka hvetja fólk til að skoða ávinninginn af því að skera af höfuðstólum lána, ekki bara kostnaðinn (sjá Ekki spyrja um kostnað heldur ávinning).  Ég er nefnilega sannfærður um að ávinningurinn fyrir þjóðfélagið er mun meiri en kostnaðurinn.

Marinó G. Njálsson, 14.2.2009 kl. 21:50

18 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Það þarf ekki einu sinni að spyrja um ávinninginn. Það er nóg að spyrja um fórnarkostnaðinn, þ.e. kostnaðinn við að láta allt fara á versta veg.

Guðmundur Sverrir Þór, 14.2.2009 kl. 21:55

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðmundur Sverrir, mér er svo sem sama hvaða hugtak þú notar, svo fremi sem það mæli jákvæðan ávinning fyrir þjóðfélagið.  Það væri gott að sjá ítarlegri greiningu aðila sem hafa aðgang að gögnum og auðlindum (tímar, mannskap og tækjum) á þessu.  Ég verð bara að nota ágiskanir og innsæi.

Marinó G. Njálsson, 15.2.2009 kl. 00:44

20 Smámynd: Hallur Magnússon

Björn.

Ég er þér sammála í lið 3 og 4.

Marínó.

Takk fyrir góðar og málefnalegar athugasemdir nú sem hingað til. Það er alltaf góður fengur af þeim.

Það hefur ekki hvarflað að þér að sækjast eftir 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi?

Það væri fengur af þér á þing!

Hallur Magnússon, 15.2.2009 kl. 16:30

21 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hallur, ég þakka fyrir traust þitt á mér.  Ég hef svo sem velt ýmsu fyrir mér, en held því fyrir mig.

Marinó G. Njálsson, 16.2.2009 kl. 12:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband