Tökum áfram á móti flóttamönnum þótt harðni á dalnum
13.2.2009 | 08:58
Þótt það harðni á dalnum hjá okkur Íslendingum þá eigum við að halda áfram að leggja okkar af mörkum við móttöku flóttamanna. Íslendingar hafa um nokkurt skeið tekið reglulega á móti hópum flóttamanna, nú síðast einstæðum palestínskum mæðrum sem fengju skjól á Akranesi.
Ég hef verið sérstakur áhugamaður um móttöku flóttamanna um langt árabil. Ég fylgdist vel með því þegar Páll á Höllustöðum setti af stað metnaðarfullt móttökuverkefni flóttamanna þegar hann var félagsmálaráðherra og ég átti því láni að fagna að taka þátt í tveimur slíkum móttökum.
Verkefnið fólst í fyrstu að taka á móti flóttamönnum frá stríðshrjáðum svæðum fyrrum Júgóslavíu. Ég var framkvæmdastjóri fræðslu- og fjölskylduskrifstofu Suðausturlands á Höfn þegar Hornafjarðarbær, Félagsmálaráðuneytið og Rauðikrossinn unnu saman að móttöku 17 flóttamanna frá Krajina héraði árið 1997.
Það var afar ánægjulegt verkefni sem og undirbúningur móttöku næsta hóps á eftir en ég tók þátt í þeim undirbúningi til að miðla reynslu okkar á Hornafirði.
Talið er að um 20 miljón manns séu á flótta í heiminum. Einungis hluti þeirra fær stöðu flóttamanns. Mjög lítill hluti þeirra sem fá stöðu flóttamanns hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðannna (UNHCR). Mjög lítill hluti þeirra sem fá stöðu flóttamanna eru metnir í það mikilli hættu að þeim sé ekki vært nema í þriðja landi.
Íslendingar hafa tekið á móti flóttamönnum úr þessum hópi. Við höfum tekið á móti fjölskyldum af blönduðum hjónaböndum Serba og Króata sem á sínum tíma var hvorki vært í Serbíu né Króatíu. Við höfum tekið á móti fólki sem hefur sætt ofsóknum í Kosovo. Tekið á móti einstæðum mæðrum og börnum þeirra frá Kólumbíu, sem sætt hafa ofsóknum, líflátshótunum og jafnvel mannsali. Móttaka flóttafólks til Íslands er mannúðarstarf og við getum verið stolt af hverju einasta mannslifi sem hefur verið bjargað.
Við getum líka verið stolt af því hvernig tekist hefur að aðlaga flóttamennina að íslensku samfélagi og gera þeim kleift að standa á eigin fótum. Ekki einn einasti flóttamaður sem ég veit að komið hefur til Íslands til að segja sig þar til sveitar. Þvert á móti. Fólkið vill hefja nýtt líf, vinna fyrir sér og sínum og taka virkan þátt í íslensku samfélagi.Við aðlögun flóttamannanna hefur verið fylgt þeirri ágætu meginreglu að Róm ertu Rómverji og á Íslandi ertu Íslendingur. Ætlir þú að taka virkan þátt í samfélaginu þarftu að spila eftir leikreglum þess og læra tungumál, siði og venjur. Á sama hátt hefur verið lagt að flóttamönnum á Íslandi að halda í sína menningu og kenna börnum sínum sitt upprunalega tungumál. Það er mjög mikilvæg fyrir hugtakaskilning og málþroska að þeir sem eru að læra nýtt tungumál leggi jafnframt rækt við sitt eigið.
Einnig má minna á að við erum stolt af því hvernig íslenskir innflytjendur í Kanada viðhéldu sínu móðurmáli og héldu siðum upprunalandsins Íslands.
Allir sem til þekkja eru sammála um að framkvæmd flóttamannaverkefna á Íslandi hafi tekist vel. Þau kosta vissulega peninga og þrátt fyrir að þeir fjármuni skili sér fljótt til baka þegar fólkið fer að vinna og skapa verðmæti eigum við að líta á þá fjármuni sem framlag ábyrgrar þjóðar til mannúðarmála.
Fólk og stjórnmálaflokkar geta haft sínar skoðanir á alþjóðavæðingu, frjálsri för launafólks milli landa og þeirri staðreynd að á Íslandi búa um 19 þúsund manns af erlendum uppruna. En látum það vera að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Móttaka flóttamanna og aðstoð við þá erlendis snýst um björgun mannslífa og gera fórnarlömbum stríðsátaka og ofbeldis kleift að hefja nýtt líf. Þess vegna á ekki að draga málefni flóttamanna inní rökræður þeirra sem hafa mismunandi skoðanir á Íslendingum af erlendum uppruna.
Ég vona að við Íslendingar höldum áfram að taka á móti flóttamönnum á þann hátt sem við höfum gert fram að þessu, þrátt fyrir efnahagslægðina sem hrjáir okkur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:20 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er virkilega gaman að lesa og ég er algjörlega sammála þér varðandi málefni flóttafólks, við eigum að hjálpa eins og við getum og eigum ekki að láta kreppuna stoppa okkur í þeim málum. Þegar flóttafólkið kom upp á Skaga tókum ég og konan mín þá ákvörðun að gerast stuðningsfulltrúar einnar fjölskyldunnar og við höfum sko ekki séð eftir því. Það er gott að vita til þess að tilvonandi þingmaður ber þessi mál fyrir brjósti, bara verst ef Framsókn fer með Sjálfstæðisflokknum sem er nú ekkert voðalega áhugasamur um að hjálpa þeim sem minna mega sín, vill helst hjálpa þeim sem eiga skít nóga peninga.
Valsól (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 11:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.