Bylting í heimahjúkrun og heimaþjónustu í Reykjavík
31.12.2008 | 00:38
Þegar ég vann hjá reynslusveitarféalginu Hornafirði fyrir rúmum áratug vann ég að því að sameina á einni hendi heilsugæsluna, félagsþjónustuna, heimaþjónustuna, heimahjúkrun og þjónustu við fatlaða. Árangurinn við þá sameiningu og samþættingu fullvissaði mig um að þessir þjónustuþættir ættu að vera á einni hendi - í höndum sveitarfélaganna.
Það var alveg ljóst í þessu reynsluverkefni okkar fyrir austan að þetta var módel sem ætti að taka upp á landsvísu.
Það kom mér því á óvart þegar ég kom inn í Velferðaráð Reykjavíkur í haust sem varaformaður að þetta skref hafði ekki verið tekið í Reykjavík - einmitt þar sem mesta hagræðingin og bestu möguleikar á bættri þjónustu með slíkri samþætttingu gætuorðið.
Því fannst mér frábært þegar við í Velferðaráði fengum borgarstjóra og heilbirðisráðherra að undirrita viljayfirlýsingu um að Reykjavíkurborg tæki að sér heimahjúkrun í Reykjavík nú í haust.
Ennþá gleðilegra varð það í dag að vera viðstaddur þegar Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, undirrituðu í dag samning um að flytja rekstur Miðstöðvar heimahjúkrunar höfuðborgarsvæðisins frá ríkinu til borgarinnar.
Með þjónustusamningnum hefst tilraunaverkefni til þriggja ára sem felst í að reka heimahjúkrun og sameina hana rekstri félagslegrar heimaþjónustu í Reykjavík. Þannig verður til þjónustukerfi, sem myndar eina heild gagnvart notanda og er markmiðið að gera fleiri íbúum kleift að búa heima þrátt fyrir öldrun, fötlun, veikindi eða skerta getu til daglegra athafna. Með því að sameina og samþætta starfsemina er stefnt að því ná fram bættri nýtingu mannafla og fjármuna.
Þarna er um að ræða verkefni sem ég hef séð ganga vel í litlu sveitarfélkagið - og sé mikla möguleika á þróun þjónsutunnar í stærsta sveitarfélagi landsins.
Það er á dögum sem þessum sem maður áttar sig á því af hverju maður er að stússast í samfélagsverkefnum eins og að vera varaformaður Velferðaráðs Reykjavíkur. Það er gott að geta gert gagn!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:58 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.