Grasrótin í Framsóknarflokknum vill aðildarviðræður að ESB!

Grasrótin í Framsóknarflokknum vill aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Þetta staðfesti annars vegar fjölmennt kjördæmisþing Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi og hins vegar Framsóknarfélag Akranes í ályktun sínum í gærkvöldi.

Framsóknarflokkurinn verður að útkljá Evrópumálin hið fyrsta. Því ber að flýta flokksþingi.

Þá er ljóst að kosningar verða í vor hvað sem Geir Haarde reynir að strögla í bráðabirgðaríkisstjórn sem hangir á bláþræði.

Ég hef hvatt til þess að Framsóknarmenn - sem eru afar öflugir um þessar mundir eins og fjölmennt kjördæmisþing sýnir - þrátt fyrir afhroð í skoðanakönnunum - flýti flokksþingi sínu.

Þar hef ég mælt með því að Guðni Ágústsson, Valgerður Sverrisdóttir, Siv Friðleifsdóttir og Magnús Stefánsson-  sem öll sátu sem ráðherrar í síðustu ríkisstjórn - taki fyrir Framsóknarflokksins hönd ábyrgð á mögulegum þætti Framsóknarflokksins í núverandi efnahagsástandi og segi af sér.

Þetta fólk hefur á undanförnum áratugum lagt gífurlega mikið á sig í vinnu fyrir íslenska þjóð og fyrir Framsóknarflokkinn. Það hefur á mörgum sviðum lyft grettistaki og átt lykilþátt í að byggja upp atvinnu og velferð íslensku þjóðarinnar. Þau eru í hópi vönduðustu og bestu stjórnmálamanna Íslands.

En á sama hátt og þau bera ábyrgð á fjölda góðra mála sem ber að þakka, þá bera þau að einhverju leyti einhverja ábyrgð á núverandi efnahagsástandi - þótt meginsökudólgurinn sé Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin sem hefur gert allt rangt í efnhags- og bankamálum síðan Samfylkingin tók sæti í ríkisstjórn. Þar hefur Framsóknarflokkurinn reyndar varað við vitleysunni.

Því ber þeim að taka ábyrgðina og hætta - því engin persóna er stærri en lýðræðislegur stjórnmálaflokkur eins og Framsóknarflokkurinn. Það er nóg af öflugu fólki til að taka upp merkið að nýju fyrir nýja Framsókn - sem byggir á góðum og göfugum hugsjónum sem unnið hefur verið eftir í rúm 90 ár. Það sýnir td. öflugur og fjölmennur fundur í kjördæmasambandi suðvesturkjördæmis í gær.

En þótt ég hvetji fjórmenningana til að standa upp og taka ábyrgð, þá ítreka ég að þjóðin og Framsóknarflokkurinn stendur í mikilli þakkarskuld við þessa öflugu Framsóknarmenn sem hafa unnið af mikilli elju og fórnað miklu fyrir íslenska þjóð.


mbl.is Vilja ESB-aðild og evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Er þetta ekki til marks um að Framsóknarflokkurinn er í raun margir flokkar? Hvað með Suðurkjördæmið? Er ekki allt annar Framsóknarflokkur þar en í þessu? Annars er ástandið sosum ekkert betra í öðrum flokkum, flestum, sýnist mér héðan að utan. Þið framsóknarmenn farið hins vegar verst með það!

Ágúst Ásgeirsson, 4.11.2008 kl. 11:03

2 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágúst.

Minni þig á að andstæðingar aðildarviðræðna við ESB í Suðurkjördæmi náðu ekki fram ályktun í þá áttina á kjördæmisþingi sínu - þrátt fyrir tilraunir. Það var einungis af tilliti við formanninn sem menn ákváðu að álykta ekki um aðildarviðræður - en formnaðurinn er einmitt í Suðurkjördæmi.

Ekki gleyma því heldur að kjördæmisþing í norðausturkjördæmi ályktaði í átt að aðildarviðræðum við ESB.  Þannig hafa tvö kjördæmisþing ályktað í þá áttina - og eitt "setið hjá". Get lofað þér því að ef tillaga þessa efnis hefði  komið upp í Reykjavík - þá hefði hún verið samþykkt.

Það er lönguljóst að andstæðingar aðildarviðræðna eru í miklum minnihluta í Framsóknarflokknum - en undirstrika - þá er ég að tala um aðildarviðræður!  Það er ekki þar með sagt að Framsóknarflokkurinn og Framsóknarmenn verði sáttur við niðurstöðuna. Það er allt annað mál!

Hallur Magnússon, 4.11.2008 kl. 11:20

3 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Þið framsóknarmenn eruð með tvær mjög frambærilegar konur, Valgerði og Siv. Ég myndi fara varlega í að fórna þeim.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 4.11.2008 kl. 11:28

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er ekki grasrótin í Framsókn, sem ber fram þessa tillögu í samræmdri herferð í kjördæmasamtökum og félögum hans, hún er ekki sjálfsprottin frá grasrótinni, heldur klókindaleg, sakleysislega útlítandi útfærsla EBé-liðsins í forystunni á þeirra eigin stefnu eins og þau sjá hentugast að bera hana fram í fyrsta áfanga. Þetta er ekki óskastefna almennra Framsóknarmanna, heldur Valgerðar, Sivjar, Halldórs Ásgr., Jóns Sig., Magnúsar Stefánssonar, Páls Magnússonar o.fl. slíkra evrókrata sem komið hafa sér fyrir í flokksherbúðunum eins og Trójuhestur og streyma út úr honum til alls vísir í hvert sinn sem atlögu skal gera – atlögu sem í raun beinist gegn bændum, sjómönnum og íslenzkri þjóð.

Jón Valur Jensson, 4.11.2008 kl. 11:34

5 Smámynd: Stefán Bogi Sveinsson

Hvern andskotann þykist þú vita um það Jóna Valur Jensson. Ég er orðinn þreyttur á að lesa þig æla út úr þér kjaftæðinu hér úti um allan vef. Þú hefur ekki minnstu hugmynd um innanflokksmál innan Framsóknarfloks og færi þér betur að þegja en að ganga um vefheima ljúgandi.

Stefán Bogi Sveinsson, 4.11.2008 kl. 12:43

6 identicon

Það má ekki fórna Valgerði og Siv, en ég vil líka fá Jón Sigurðsson inn.

Grasrót (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 12:44

7 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Jón Sigurðsson ætti fullt erindi aftur inn. Athugið að hann kom ferskur inn með mjög lýðræðisleg vinnubrögð og var mjög skamman tíma í stjórnmálum.

Framsókn þarf að gera upp fortíðina, en í því efni skiptir mestu að við viðurkennum mistök og segjum hreint út hvaða mistök við gerðum. Steingrímur Hermanns játaði mistök þegar við átti, hann var maður að meiri fyrir það. Hann þurfti ekki að fórna pólitískum ferli út af því. Ég tel ýmislegt sameiginlegt með Jóni Sig. og Steingrími í þessu, báðir þekktir að því að vera auðmjúkir og heiðarlegir. Ég held því að það væri styrkur að fá Jón inn aftur.

Einar Sigurbergur Arason, 6.11.2008 kl. 01:11

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sannleikanum er hann Stefán eflaust sárreiður, það ætti að skýra taumlausa gremju hans. En svo sannarlega er það ekki í ætt við hugsjónir Tryggva Þórhallssonar, Jónasar frá Hriflu og annarra ekta Framsóknarmanna að beygja Ísland undir stjórn Evrópubandalagsins. Samt stendur nú yfir tilrtaun til að ræna Framsóknarflokknum til þjónustu við erlend öfl og bjóða íslenzkum bændum að gerast bónbjargarmenn á Brussel-básnum. Og þetta finnst ykkur Halli alvöru-stjórnmálamarkmið og það í þessum flokki!

Jón Valur Jensson, 6.11.2008 kl. 03:39

9 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Mér finnst við framsóknarmenn vera að forgangsraða vitlaust. Við sjáum slakt fylgi, teljum að við þurfum vítamínsprautu, og vopnin eiga að vera

  1. kosningamál sem er líklegt til vinsælda (fara í EB), og þeir sem eru á móti þessu eru greinilega svikarar við flokkinn,
  2. skipta um forystu.

Kratar voru í 12 ár í stjórn með sjálfstæðismönnum '59-71. Eftir það voru þeir í jafnlangan tíma í fullkominni lægð, því kjósendur voru hættir að sjá einhverja spennandi sérstöðu við Alþýðuflokkinn. Kratarnir voru duglegir að skipta nokkrum sinnum um formenn og því um líkt á þessu tímabili. Það var bara ekki nóg.

Nú er lag að segja að við framsóknarmenn viljum standa fyrir heiðarleika og slíkum gildum sem kjósendur telja skorta í íslensk stjórnmál. Það er stærra mál. Ég er ekki að gera lítið úr EB-málinu, en það er bara eitt stykki dægurmál og það bjargar ekki Framsóknarflokknum eitt út af fyrir sig.

Ef við getum fengið kjósendur til að tengja Framsókn við siðferðilega vakningu í stjórnmálum, þá held ég að það geri þrefalt meira fyrir flokkinn en EB-málið. En við skulum líka horfast í augu við að við þurfum að framganga í slíkri vakningu til að kjósendur trúi þeirri ímynd. Við þurfum að gera upp mistök fortíðarinnar eins og Jón Sig. og félagar gerðu með Írak, og við þurfum að sveigja inn á betri stefnu.

Þetta er stóra málið.

Einar Sigurbergur Arason, 9.11.2008 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband