Styðjum við bak Geirs Haarde og ríkisstjórnarinnar

Styðjum við bak Geirs Haarde og ríkisstjórnarinnar í aðgerðum næstu daga og vikur. Við verðum nú að standa saman við að koma okkur út úr þeim erfiðu efnahagslegu  aðstæðum sem við erum komin í. Við verðum jafnframt að treysta því að Geir Haarde hafi lært af mistökum sínum, skipti um gír og taki af skarið sem sá trausti leiðtogi sem hann þarf að vera.

Ég hef gagnrýnt Geir Haarde forsætisráðherra harðlega að undanförnu vegna ítrekaðra mistaka sem hann og Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn og í Seðlabanka hafa gert í efnahagsmálum.

En úr því sem komið er verður Geir og ríkisstjórnin að klára nauðsynlegar efnahagsaðgerðir.  Gefum þeim andrými til þess. Hins vegar verður Geir Haarde að sýna okkur að hann er traustsins verður. Ef ekki þá verður hann að yfirgefa sviðið. 

Stjórnarandstaðan verður að leika lykilhlutverk á næstu vikum með því að styðja við ríkisstjórnina með ábyrgri, en gagnrýnni stjórnarandstöðu - og ríkisstjórnin að taka slíku aðhaldi vel - því það er nauðsynlegt að eiga í gagnrýnni umræðu um þær aðgerðir sem ríkisstjórnin kýs mun leggja til. Slík umræða - þar sem ríkisstjórnin leggur við hlustir - mun einungis auka gæði aðgerðanna.

Þá ætti Geir strax að setja á formlegt Samvinnuráð um efnahagsmál sér og ríkisstjórninni til ráðgjafar þar sem  verkalýðshreyfingin, helstu aðiljar atvinnulífs, fjármálalífs og stjórnmálalífs eiga sæti.

Annað mál er með stjórn Seðlabankans. Hún er rúin öllu trausti innanlands sem utan. Það er forgangsatriði að skipta út öllum Seðlabankastjórunum og ráða einn öflugan Seðlabankastjóra sem hefur menntun, reynslu og traust til að stjórna bankanum á þessum erfiðu tímum. Það er einnig mikilvægt að skipta jafnframt um kjörna stjórn Seðlabankans til að endurheimta trúnað bankans.


mbl.is Ný eining sér um innlenda starfsemi Landsbankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ég hef þá trú að það sé best fyrir hann að yfirgefa stól forsætisráðherra en ég gæti trúað því að það verði mikil reiði í garð hans hjá fólki sem hefur tapað miklu og það muni þvælast fyrir stjórn landsins.  Hann hefur ítrekað haldið því fram að staða banka sé mjög traust.

Það verður snúið að velja eftirmann Geirs en það gæti orðið Björn Bjarnason eða Guðlaugur Þór.

Sigurjón Þórðarson, 7.10.2008 kl. 12:09

2 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Það er augljóst að þeir tveir menn sem báru ábyrgð á stöðumatinu fyrir þjóðina brugðust gjörsamlega.   Bæði Davíð Oddsson og Geir Haarde lásu kolvitlaust í stöðuna allt þetta ár og gættu ekki hagsmuna þjóðarinnar.    Geir verður að klára þetta verk núna, en Davíð hlýtur að víkja.   Það er bara hluti af lausninni að skipa nýja stjórn og fá nýjan stjórnanda í Seðlabankann.     Traust er lykilatriði í resktri Seðlabanka og það er ekki fyrir hendi í dag.

G. Valdimar Valdemarsson, 7.10.2008 kl. 12:20

3 Smámynd: Þórbergur Torfason

Allt orkar tvímælis. Ekki mikið vit í að Geir og Davíð plægi upp sín eigin mistök.

Þórbergur Torfason, 7.10.2008 kl. 12:28

4 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Í gær varð meiriháttar panikk og hrun á öllum mörkuðum um allan heim.  93 milljarðar punda gufuðu upp á breska markaðnum! Við erum einfaldlega hluti af því ástandi.  Evrópskir bankar hafa fallið eins og flugur í gær og í dag.  Royal Bank of Scotland var að biðja um neyðarlán.  Það er banki sem hefur verið starfandi frá 16. eða 17. öld.  Þetta ástand á Íslandi er fullkomlega eðlilegt miðað við það öldurót sem er í gangi um allan heim.  Við erum lítið hagkerfi og þegar við fáum á okkur svona brotsjó þá hefur það ennþá meiri áhrif hjá okkur en öðrum.

Það getur vel verið að það hafi verið teknar rangar ákvarðanir.  Það væri hins vegar algerlega fráleitt að skipta um forsætisráðherra eða seðlabankastjóra í því ástandi sem við nú erum í.  Maður skiptir ekki um hest í miðri á.  Geir og Davíð eru báðir öflugir menn sem láta ekki aftursætisbílstjóra umræðunnar koma sér úr jafnvægi.  Þeir hafa báðir gríðarlega reynslu af efnahagsmálum, mjög mikil persónuleg sambönd víða um heim og burði til að standa í lappirnar þegar gefur á.  Þessir menn hafa reynslu í því að bera ábyrgð.  Hinir ýmsu "álitsgjafar", oft hagfræðingar, hafa kenningar og segja að eitthvað sé ómögulegt en þeir þurfa ekki að bera ábyrgð á framkvæmdinni.  Fyrir þá er þetta bara "case study".  Þeir segja bara "úps" ef það klikkar og fara að skoða næsta mál.

Nú eru þrír menn í lykilstöðum:  Geir H. Haarde forsætisráðherra (þar á undan fjármálaráðherra í hátt í áratug), Davíð Oddsson seðlabankastjóri (þar á undan forsætisráðherra í 15 ár) og Jón Sigurðsson stjórnarformaður fjármálaeftirlitsins (nýr yfirbankastjóri Íslands) (þar á undan bankastjóri norræna fjárfestingabankans, seðlabankastjóri, ráðherra o.fl.).  Þetta er öflugt teymi manna með mjög mikla reynslu og tengsl í alþjóðlegum stjórnmálum og fjármálum.  Þetta eru menn sem eru vanir að taka ákvarðanir og standa í lappirnar þegar þess þarf.  Nú hafa þeir tekið sjálfstýringuna úr sambandi og stýra okkur handvirkt í gegnum hinn alþjóðlega ólgusjó.  Það eru fáir betur til þess fallnir en þessir þrír.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 7.10.2008 kl. 12:39

5 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Og hvað svo Siggi?   Eiga þessir menn ekki að bera neina pólitíska ábyrgð á stöðunni?   Allt þetta ár hefur þeim verið bent á að þeir séu á leiðinni upp í brimgarðinn.   Greiningardeildir, matsfyrirtæki, erlendir hagfræðingar og innlendir, lærður og leikir hafa bent á að stefnan væri röng og að eitthvað þyrfti að gera.   Núna þegar það er orðið ófært upp í brú vegna veðurs verður að treysta því að þeir slumpi á rétta leið út, en síðan eiga þessir menn að taka pokann sinn og fara í langa fríið.

G. Valdimar Valdemarsson, 7.10.2008 kl. 13:17

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég er algjörlega sammála Halli.

En auðvitað lásu menn stöðuna alveg rangt og það á í raun við um ansi marga í heiminum í dag.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 7.10.2008 kl. 13:35

7 identicon

Alveg sammála þessu!

En Framsókn má bara taka sér frí frá stjórnmálum yfir höfuð held ég. Það er gífurleg hræsni í málflutningi þeirra og gagnrýni. Þeir stóðu fyrir megninu af þessi fylleríi sem við erum að súpa seiðið af og að halda annað er bara barnalegt. Þetta hrun er ekki að gerast á einum mánuði heldur á þetta sér lengri aðdraganda og ber Framsókn ekki síður ábyrgð á því!

Hlynur Gudlaugsson (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 13:52

8 Smámynd: Rauða Ljónið

Sammála Halli, þjóðin verður að standa saman sem ein maður á þessum tímum og snúa vörn í sókn.

Kv. Sigurjón Vigfússson

Rauða Ljónið, 7.10.2008 kl. 14:15

9 Smámynd: Gunnar Axel Axelsson

Sæll vinur,

Ertu ekki að gleyma einhverju í heildarmyndinni sem við höfum séð í morgun?

Íslendingar hafa tekið algjöra u-beygju í sinni utanríkispólitík og hafa nú sent biðilsnefnd til Rússlands. Og svo virðist sem yfirlýsingar um að frændþjóðir okkar hafi ekki viljað rétta okkur hjálparhönd séu úr lausu lofti gripnar. Það lítur allt út fyrir að Geir og hans menn hafi ekki haft fyrir því að óska eftir aðstoð frá öðrum en "vinum sínum" í bandaríkjunum. Já, menn eru svo ákveðnir í því að Evrópa vilji ekkert með okkur hafa að það er ekki einu sinni haft fyrir því að taka upp símann!

Hefði þá kannski verið skynsamlegast að lýsa yfir vilja til aðildarviðræðna eftir allt saman? það eitt og sér hefði líkelga verið nóg til að skapa okkur það bakland sem við þurftum á að halda síðustu daga.

Ég man samtal okkar í vor þegar við ræddum þá stöðu sem hugsanlega kæmi upp á haustdögum og ég held satt best að segja að sú staða sé því miður komin upp. Fram hjá því verður ekki horft að Seðlabankastjóri hefur tekið sér veigamikið hlutverk á vettvangi stjórnmálanna og er svo gott sem búin að reka síðasta naglann kistuna sem hann hefur verið að dunda sér við að smíða síðasta eina og hálfa árið.

Kveðja

Gunnar Axel

Gunnar Axel Axelsson, 7.10.2008 kl. 15:24

10 identicon

Sammála þér .

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 15:32

11 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það er ekkert að gera annað er reyna að styðja þá og reyna að sitja á sér að kalla eftir ábyrgð hjá þessum mönnum - Geir hefur lengst af verið fjármálaráðherra og ef einhver hefði átt að fylgjast með og vita af þessari þróun þá er það hann. En ég reyni að sitja á mér. Það er ekki rétti tíminn til að gagnrýna þá fyrir afleiki fortíðar. Það er hins vegar rétt að fylgjast vel með hvort allt stefni í einhverja afleiki

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 7.10.2008 kl. 16:52

12 Smámynd: Rannveig H

Hallur þú ert sannur Framsóknarmaður það er eitt í dag og annað á morgun. Ég vona allavega að Framsóknarmenn standi sína vakt.

Rannveig H, 7.10.2008 kl. 17:11

13 Smámynd: Hallur Magnússon

Efasemdir mínar um Geir eru á sínum stað. 

En í stöðunni í morgun var ekkert annað en að gefa manninum andrými til að koma aðgerðum byggðu á ágætu frumvarpi af stað. Staðan var og er bara þannig.  Geir verður hins vegar að sína það á næstu dögum og vikum að hann er traustsins verður. Ef ekki - þá get ég lofað ykkur að ég mun taka upp þráðinn að nýju.

Hins vegar er algerlega nauðsynlegt að skipta um settið í Seðlabankanum - rússaklúðrið í morgun undirstrikar það enn frekar.  Það er einmitt einn prófsteinninn á Geir. Ætlar hann að taka til í  Seðlabankanum eða ætlar hann að sýna aðgerðarleysi þar!

'Eg hef alla tíð áskilið mér rétt til þess að skipta um skoðun. Ég áskil mér þann rétt áfram.

Það sem ég hef sagt um aðgerðarleysi og dugleysi Geirs undanfarnar vikur og mánuði stendur.  En ég gef honum séns á að breyta um kúrs.

Hallur Magnússon, 7.10.2008 kl. 19:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband