Skagamenn staðráðnir í að taka vel á móti flóttamönnum!

Það var ánægjulegt að hafa framsögu um góða reynslu Hornfirðinga af móttöku flóttamanna á fjölmennum upplýsingafundi á Akranesi í dag, en ég átti því láni að fagna að taka þátt í móttöku 17 flóttamanna frá Krajina héraði árið 2007 þegar ég var framkvæmdastjóri fræðslu- og fjölskylduskrifstofu Suðausturlands á Höfn þeim tíma. 

Það var mikill kraftur og jákvæðni í Skagamönnum sem greinilega ætla að leggja allt í að móttaka hóps palestínskra, einstæðra mæðra gangi vel og verði Akurnesingum til sóma. 

Málið er nefnilega að Akranes er afar ákjósanlegur staður til slíkrar móttöku með öflugt skólakerfi, allt frá leikskólum upp í framhaldsskóla, öflugt heilbrigðiskerfi bæði heilsugæslu og sjúkrahús, faglega félagsþjónustu með vel menntuðu starfsfólki, öflugri Rauðakrossdeild og öflugt gestrisið samfélag sem oftast hefur staðið afar vel saman þegar á hefur þurft að halda.

Talið er að um 20 miljón manns séu á flótta í heiminum. Einungis hluti þeirra fær stöðu flóttamanns. Mjög lítill hluti þeirra sem fá stöðu flóttamanns hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðannna (UNHCR). Mjög lítill hluti þeirra sem fá stöðu flóttamanna eru metnir í það mikilli hættu að þeim sé ekki vært nema í þriðja landi.

Íslendingar hafa tekið á móti flóttamönnum úr þessum hópi.   Við höfum tekið á móti fjölskyldum af blönduðum hjónaböndum Serba og Króata sem á sínum tíma var hvorki vært í Serbíu né Króatíu. Við höfum tekið á móti fólki sem hefur sætt ofsóknum í Kosovo. Tekið á móti einstæðum mæðrum og börnum þeirra frá Kólumbíu, sem sætt hafa ofsóknum, líflátshótunum og jafnvel mannsali. Móttaka flóttafólks til Íslands er mannúðarstarf og við getum verið stolt af hverju einasta mannslifi sem hefur verið bjargað. 

Við getum líka verið stolt af því hvernig tekist hefur að aðlaga flóttamennina að íslensku samfélagi og gera þeim kleift að standa á eigin fótum. Ekki einn einasti flóttamaður sem ég veit að komið hefur til Íslands til að segja sig þar til sveitar. Þvert á móti. Fólkið vill hefja nýtt líf, vinna fyrir sér og sínum og taka virkan þátt í íslensku samfélagi.  

Við aðlögun flóttamannanna hefur verið fylgt þeirri ágætu meginreglu að  Róm ertu Rómverji og á  Íslandi ertu Íslendingur. Ætlir þú að taka virkan þátt í samfélaginu þarftu að spila eftir leikreglum þess og læra tungumál, siði og venjur. Á sama hátt hefur verið lagt að flóttamönnum á Íslandi að halda í sína menningu og kenna börnum sínum sitt upprunalega tungumál. Það er mjög mikilvæg fyrir hugtakaskilning og málþroska að þeir sem eru að læra nýtt tungumál leggi jafnframt rækt við sitt eigið.

Einnig má minna á að við erum stolt af því hvernig íslenskir innflytjendur í Kanada viðhéldu sínu móðurmáli og héldu siðum upprunalandsins og aðrir landnemar í Vesturheimi. 

Allir sem til þekkja eru sammála um að framkvæmd flóttamannaverkefna á Íslandi hafi tekist vel. Þau kosta vissulega peninga og þrátt fyrir að þeir fjármuni skili sér fljótt til baka þegar fólkið fer að vinna og skapa verðmæti eigum við að líta á þá fjármuni sem framlag ríkar þjóðar til mannúðarmála.  

Fólk og stjórnmálaflokkar geta haft sínar skoðanir á alþjóðavæðingu, frjálsri för launafólks milli landa og þeirri staðreynd að á Íslandi búa um 19 þúsund manns af erlendum uppruna. En látum það vera að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur.   Móttaka flóttamanna og aðstoð við þá erlendis snýst um björgun mannslífa og gera fórnarlömbum stríðsátaka og ofbeldis kleift að hefja nýtt líf. Þess vegna á ekki að draga málefni flóttamanna inní rökræður þeirra sem hafa mismunandi skoðanir á Íslendingum af erlendum uppruna. 

Eins og á að vera í lýðræðislegu samfélagi þá er rétt að spyrja gagnrýnna spurninga og leita svara. Það hefur verið gert. Vonandi hefur þeim spurningum verið svarað meðal annars á fundinum í dag. 

Ég veit að Skagamenn munu allir sem einn standa saman að því að taka vel á móti flóttamönnunum þegar þar að kemur.  Hinn fjölmenni fundur í dag styrkir mig enn frekar í þeirri trú.


mbl.is Góður andi á upplýsingafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

góð grein Hallur, ég bíð þetta flóttafólk velkomið til íslands.

Óskar Þorkelsson, 26.5.2008 kl. 20:14

2 Smámynd: Paul Nikolov

Þú stóðst þig frábærlega, Hallur. Þakka þer fyrir.

Paul Nikolov, 26.5.2008 kl. 20:36

3 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæti Halldór.

Værir þú til í að kynna þér aðstæður þessara kvenna og barna sem lifir í tjöldum í eyðimörkinn við landamæri Jórdaníu og Sýrlands umkringt óvinveittum vopnuðum flokkum - með takmarkaðan aðgang að vatni - í 50 gráðu hita! Fólk er að deyja þarna!!!

Hvernig ætlar þú að aðstoða það "mannúðlega" með peningasendingum?

Hallur Magnússon, 26.5.2008 kl. 20:48

4 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Sammál þér Hallur sem oftast áður. Sem Skagamanni hefur mér þótt margir fara offari í gagnrýni að undanförnu. Ég vil heldur ekki fordæma Magnús Þór. Hann hefur fært rök fyrir sinni skoðun. Ég vona svo sannarlega að þessu fólki farnist vel á Akranesi.

Haraldur Bjarnason, 26.5.2008 kl. 21:09

5 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæti Halldór.

Ég hef enga skoðun á því hvort þú sért rasisti eða ekki. Það er aukatriði.  Aðalatriðið er að umræðan byggi á staðreyndum!

Ég hef grun um að þú hafir flett upp á rangri staðsetningu þegar þú varst að leita að hitastigi.  Við erum ekki að tala um túristastað í Ísrael - eða Gazasvæðið - þar sem hafgjólan heldur hitastiginu bærilegu - heldur stað í miðri eyðimörkinni á mótum Sýrlands, Jórdaníu og Íraks. Þar getur kuldinn orðið fyrir neðan frostmark köldustu nætur - og hitinn allt að 50 gráður á heitasta tíma sumarsins.

Fólkið er ekki statt í Palestínu!!!  Þá væri það ekki með stöðu flóttafólks!!!

Það er innlyksa í tjaldbúðum í miðri eyðimörk í Írak! Það kemst hvergi og það er í lífshættu!  Þess vegna er það í þeim afar takmarkaða hóp flóttamanna sem talið er að þurfi að flytja til öruggs lands. Íslands!

Fólkið sem lenti í hörmungunum í Burma er innan eigin landamæra og því ekki skilgreindir með flóttamannastöðu hjá Flóttamannahjálp SÞ. Það er sjálfsgt að hjálpa því - meðal annars með peningum og neðarsendingum.

Já, afhverju ekki að horfa til Afríku?  Við erum að styðja við fólk þar með peningasendingum - þótt við gætum gert meira.  Á það að stöðva okkur í því að taka á móti flóttamönnum sem falla undir skilgreiningu Flóttamannastofnunar um að þurfa að fara til þriðja ríkis svo unnt sé að bjarga því frá yfirvofandi lífshættu - hvar sem það annars býr í veröldinni?

Hallur Magnússon, 26.5.2008 kl. 22:03

6 Smámynd: AK-72

Það er endalaust hægt að eyða tíma í að rífast um hvers vegna við björguðum ekki þessum þarna eða gerðum ekki hitt, en fyrir það fyrsta að þó við getum ekki bjargað öllum þá erum við að reyna með móttöku flóttamanna að búa öðrum betra líf, konum og börnum sem búa í helvíti. Halldóri Benediktssyni til glöggvunar þá má benda á að fólk í þessum búðum er flokkað af Flóttamannahjálp SÞ sem fólk sem þarf á NÝJUM stað til að búa á, út af hörmulegum aðstæðum, erfiðum flutningum að búðunum, ofstjórn sheiksins á svæðinu sem vill fá skerf af hjálpargögnum og margt fleira sem gerir aðstæður þannig að ekki er hægt að ætlast til að verið sé að setja pening í að halda fólkinu þar, það væri hreinlega bara klár mannvonska

Einnig er þetta hluti af verkefni sem hófst 2004 um aðstoð og breytingar á umhverfi sérstaklega fyrir einstæðar mæður með börn sín sem búa við ömurlegar aðstæður í samfélagi þar sem litið er niður á slíkar konur og voru þær sem komu frá Kólumbíu þær fyrstu sem komu í tengslum við það verkefni, í samfélag þar sem ekki er litið niður á einstæðar mæður og þær álitnar jafningjar annars fólks.

Svo má við því bæta, að það sem er mest tuðað út af með peningana, hvers vegna ekki sé hægt að nýta það bara úti og bjarga fleirum, þá gæti peningurinn ekki endilega verið að nýtast á þann hátt sem skyldi. Kostnaður vegna erfiðra aðstæðna, mútufél o.fl. óvænt í stríðshrjáðum löndum gerir það að verkum að ekki spilast eins vel úr þessum peningum og skyldi og eins ég lít á þetta, þá náum við allavega hér á landi að hafa stjórn á peningunum og getum búið að aðstæðum eins og við viljum bjóða þessu fólki upp á. Hvert mannslíf sem við björgum er ómetanlegt og ef menn vilja bjarga fleirum, þá eiga þeir ekki að eyða orku í að röfla um það heldur gera eitthvað í málunum. Ert þú tilbúinn í þann slag, Halldór? 

AK-72, 26.5.2008 kl. 23:06

7 Smámynd: Sigurður Hrellir

Sæll Hallur minn og takk fyrir síðast,

Ég er afar glaður að sjá þig sem málsvara þessara flóttamanna sem Magnús Þór og LUF telja okkur ekki fært að skjóta skjólshúsi yfir. 

Verra þykir mér að sjá hvað þú virðist hafa mikið álit á Óskari Bergssyni. Sem betur fer er fátt sem bendir til að hann nái kosningu á ný 2010.

Bestu kveðjur,

Sigurður Hrellir, 27.5.2008 kl. 00:27

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Hve margir sem hér hafa skrifað styðja hjálparstarf á reglulegum grunni?

Núna eru um 1.740 flóttamenn í Al Waleed búðunum. Þetta eru palestínuarabar sem hafa flúið óöldina í Írak.

Eftir að hafa lesið upplýsingar um búðirnar, m.a. af heimasíðu Flóttamannahjálpar SÞ, tel ég að við eigum að gera það sem við getum fyrir þessa flóttamenn.

Það er kosningalykt af þessu vali (vegna (Ó)öryggisráðsins hennar Sollu) en því verður ekki neitað að neyð þeirra er mikil.

En þetta mál er sterk skilaboð til alþjóðasamfélagsins að setja Ísrael í algert viðskiptabann, jafnvel stjórnmálalega einangrun líka. Hreinlega svelta þá til hlýðni.

Eiga leppar þeirra í Bandaríkjunum endalaust að komast upp með að verja þá, þrátt fyrir ítrekuð mannréttindabrot og hunsun á samþykktum SÞ? 

Theódór Norðkvist, 27.5.2008 kl. 00:50

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Takk fyrir það, Halldór, það var ánægjulegt að heyra. Ég geri það líka og ætti að fá geislabaug.

Samkvæmt þessari óvísindalegu könnun þá eru hinir meintu rasistar sem sagt þeir einu sem styðja hjálparstarf.

Hinir (aðrir en síðuhöfundur), sem hafa lýst yfir meðaumkun með flóttamönnunum og útmálað andmælendur sína sem rasista virðast ekki styðja neitt hjálparstarf.

Theódór Norðkvist, 27.5.2008 kl. 09:59

10 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Hér á eftir er niðurlag pistils sem Jón Magnússon alþingismaður Frjálslynda flokksins (og barnfæddur Skagamaður) flutti á Útvarpi Sögu í hádeginu í gær 26. maí:

-----------------------------

Flóttafólk og stefna Frjálslynda flokksins.

Frjálslyndi flokkurinn markaði sér þá stefnu á flokksþingi sínu fyrir nokkrum árum í málefnum flóttafólks að "Ísland ætti ekki að skorast undan ábyrgð á málefnum flóttafólks. Einnig beri Íslendingum að taka þátt í mannúðar- og hjálparstarfi á erlendum vettvangi". Stefna flokksins mætti vera ítarlegri en væntanlega verður við því brugðist á næsta flokksþingi flokksins í janúar næstkomandi.

Ég tel nauðsynlegt að Ísland reki myndarlegt hjálparstarf og hvað flóttamenn varðar þá ber að leggja áherslu á að mesta og besta hjálpin sem hægt er að veita flóttamönnum er að hjálpin eigi sér stað á þeim menningarsvæðum sem eru næst viðkomandi flóttamönnum hverju sinni. Jafnframt skiptir máli að flóttamenn fái aðstoð og móttöku sem næst þeim landssvæðum sem þeir koma frá svo fremi að þau svæði séu örugg og svipuð að menningu. Spurning er alltaf með hvaða hætti getum við hjálpað sem flestum. Hvernig nýtum við peningana sem við veitum til hjálparstarfs sem best. Ég tel að við eigum að einbeita okkur að því að hjálpa flóttafólki á þeim svæðum sem það býr eða getur dvalist við öryggi. Það er gríðarleg neyð í Suður Afríku, Súdan, Sómalíu, Írak, Jórdaníu, og áfram og áfram gæti ég talið. Það kostar meira að taka flóttafólk inn í landið og með því að nota peningana okkar með þeim hætti þá hjálpum við mun færri en við gætum gert ella með þeim fjármunum sem við verjum til hjálparstarfs. Ég tel afar mikilvægt að við miðum við að hjálpa jafnan sem flestum og peningarnir nýtist sem best og leggjum áherslu á það sem skiptir máli en stöndum ekki í sýndaraðgerðum sem litlu máli skipta.

Af þessum ástæðum mun ég leggja til og vænti þess að þingflokkur Frjálslynda flokksins standi að tillögugerð með mér um að stórauka framlag þjóðarinnar til aðstoðar við flóttafólk og til mannúðarstarfs.

Á undanförnum vikum hefur verið deilt um móttöku flóttamanna frá Írak til Akraness. Talað er um að 30 manna hópur flóttafólks úr Al-Waleed flóttamannabúðunum í Írak komi til landsins og fái vist á Akranesi. Þá er einnig talað um að 30 til viðbótar komi síðar þannig að alls komi um 60 manns. Talað hefur verið um að þarna sé um að ræða einstæðar mæður og börn þeirra en í raun liggur ekki alveg ljóst fyrir hvernig hópurinn verði samsettur.

Magnús Þór Hafsteinsson varaformaður Frjálslynda flokksins gerði athugsemdir sem formaður Félagsmálaráðs Akraness við það hvernig staðið væri að málinu af hálfu ríkisstjórnarinnar og vísaði til þess í vandaðri greinargerð sem hann gekk frá af gefnu þessu tilefni. Strax og greinargerð Magnúsar Þórs kom fram mátti hann þola að á honum dyndu vammir og skammir. Hann var sakaður um rasisma. Hann var sa
kaður um að vilja ekki bregðst við og hjálpa fólki í neyð. Þá var hann sakaður um að vera á móti Palestínumönnum auk margs annars. Allar þessar ásakanir eru rangar. Magnús Þór Hafsteinsson hefur ítrekað tjáð sig um málefni Palestínumanna og lagði málstað þeirra lið með virkum hætti meðan hann átti sæti á Alþingi. Það er því rangt og rógburður að saka hann um rasisma eða að vera á móti Palestínumön
num eða hagsmunum þeirra. Orð hans og gerðir vitna um annað.

En taka verður undir þær efasemdir sem koma fram hjá Magnúsi um að rétt sé að málum staðið og við séum að nýta fjármunina sem best með því að taka við 30 flóttamönnum frá Al-Waleed búðunum.

Þeir sem eru í Al-Waleed búðunum eru í sárri neyð. Fólkið þarf á virkri aðstoð að halda. Þessar flóttamannabúðir eru á einskismannslandi í eyðimörkinni í Írak. Alls munu búa rúmlega 2000 manns í þessum flóttamannabúðum. Ekki hefur verið ákveðið hverjir úr þessum 2000 manna hópi verði valdir til að fá að koma hingað til landins. En svo tölfræðin sé notuð þá er verið að tala um 1.5% þeirra sem eru í búðunum. Hjálpin sem veitt er með þessu er því vægast sagt afar takmörkuð og nánast eingöngu táknræn. Fjármunirnir sem fara til að velja fólki sem á að koma og til móttöku og aðlögunar í íslensku samfélagi eru hins vegar miklir og þá fjárm uni hefði mátt nota til að koma öllum í Al-Waleed flóttamannabúðunum til virkrar hjálpar. Fólkið í þessum búðum er misjafnlega statt. Þeir sem valdir verða til að koma hingað til lands eru þeir sem best eru settir í flóttamannabúðunum. Þeir sem velja hverjir koma gera það á grundvelli mats á því hversu líklegir þeir eru til að geta spjarað sig í íslensku samfélagi.

Örkumla fólk og geðfatlaðir kemur ekki til greina við það val miðað við hvaða venjur hafa skapast í þessu efni. Þeir fulltrúar sem koma í búðirnar og velja flóttafólkið, velur það ekki út frá þeim sjónarmiðum hverjir séu í brýnustu þörfinni. Nei, valið fer fram á öðrum grundvelli.

Þegar þetta er haft í huga þá finnst mér vandlæting þeirra sem hafa talað niður til Magnúsar Þórs og gagnrýnt hann fyrir að vilja að fram fari ítarleg umræða og undirbúningur í málinu vera hræsni. Þá er það óréttlætanlegt yfirvarp að við séum að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir fólkið í Al-Waleed flóttamannabúðunum með því að taka rúmt eitt prósent sem þar eru þá sem best eru settir til að flytja í gjörólíkt og framandi umhverfi. Með betra skipulagi hefði mátt gera miklur betur og nýta penigana þannig að þeir kæmu fólkinu í þessum flóttamanabúðum öll
um til góða.

Af hverju tökum við ekki frekar skynsamlega ákvörðun sem felur í sér raunverulega mannúðarstarfsemi og tökum að okkur flóttamannabúðirnar í Al-Waleed og sendum hjálparstarfsmenn, lyf og búnað til að veita öllum í þeim búðum virka hjálp? Það er mannúðarstarf sem nýtist þeim sem verst eru settir og skiptir máli í mannúðarstarfi og mun meiru en verið er að gera nú með því að taka þá sem best eru settir í búðunum rúmt eitt prósent íbúana og flytja þá í framandi land í ólíkan menningarheim.

Eigum við ekki að taka þessa umræðu öfgalaust og með hagsmuni þeirra sem við getum hjálpaðp í huga í stað þess að vera í sýndaraðgerðum eins og utanríkisráðuneytið stendur fyrir í málefnum flóttamannanna í Al-Waleed búðunum? Satt best að segja varð ég undrandi þegar ég kynnti mér málið af hverju utanríkisráðuneytið telur það virkustu hjálpina við fólkið að hjálpa rúmu einu prósenti íbúana en gera ekkert fyrir rúm 98% íbúana sem þó eru verr settir en þeir sem valdir verða.

Af hverju ræðum við það ekki í alvöru hvernig við eigum að reka alvöru mannúðarstarfsemi?

Magnús Þór Hafsteinsson, 27.5.2008 kl. 10:26

11 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ætli íslensk stjórnvöld að taka á móti flóttamönnunum ber þeim skylda til að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael.

Ísland hefur þá lýst því yfir að þeir telji að palestínskir flóttamenn eigi rétt á heimalandi. Ísraelsmenn hafna þeim rétti þeirra (þeir stálu landi flóttafólksins og neita þeim um réttinn að snúa aftur.)

Theódór Norðkvist, 27.5.2008 kl. 11:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband