Friðun hjá Þorgerði Katrínu til fyrirmyndar - Breiðagerðisskóla rústað!
22.5.2008 | 12:09
Það er þarft og nauðsynlegt framtak að friða merkileg hús sem byggð hafa verið á undanförnum áratugum. Friðun menntamálaráðherra á sjö merkilegum tuttugualdar húsum er mikilvæg. Athygli vekur að yngsta húsið er einungis frá árinu 1966. Það er hin sérstæða og merkilega bygging Menntaskólans við Hamrahlíð. Það er full ástæða til að friða það hús.
Það hafa nefnilega nánast farið fram opinberar aftökur á merkilegum 20. aldar arkitektúr sem birtist í glæsilegum byggingum sem nú eru rústir einar í sjónrænum skilningi.
Þar er mér efst í huga í augnablikinu hræðileg nauðgun á Breiðagerðisskóla - sem var fallega útfærð bygging með virðulegum stíl - og sérstökum útfærslum á gluggum - sem eru á stundum listaverk út af fyrir sig.
Borgaryfirvöld voru greinilega með hausinn ofan í Tjörninni þegar farið var yfir teikningar af skelfilegri viðbyggingu sem samþykkt var á sínum tíma og var illu heilli reist! Gamla virðulega byggingin sem var á sinn hátt bæjarprýði minnir nú helst - ja, ég veit eiginlega ekki hvað - svo skelfilega ljótt er þetta!
Þá hefur einnig verið byggt við Vogaskóla þar sem svipaður arkitektúr var í gangi - þótt Vogaskólabyggingarnar hafi ekki verið eins stílhreinar og Breiðagerðisskólinn. Reyndar eru viðbyggingarnar þar stílhreinni - en borgin hefur samt mokað gersamlega yfir þennan 20. aldar arkitektúr með aulaskap.
Já, það þarf að friða meira en ónýta skúra á Laugarveginum!
Mynd gamli Breiðagerðisskólinn að framan.
Mynd gamli Breiðagerðisskólinn að framan. Vesturálma.
Mynd gamli Breiðagerðiskólinn að aftan. Takið eftir gluggunum. Það sést gegnum hátíðarsalinn og í kringlótta gluggana að austanverðu!
Tengingin við gömlu aðalbygginguna að framan.
Nýja vesturálman - sú gamla hefur verið gleypt.
Menntamálaráðherra friðar 7 hús | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:52 | Facebook
Athugasemdir
Úff, ekki hafði ég áttað mig á þessum breytingum. Eins og þetta var nú fallegur skóli!
Ragnhildur Sverrisdóttir, 22.5.2008 kl. 15:35
Þess heldur er ég ánægður með þessa friðun Þorgerðar Katrínar - ekki hvað síst MH sem var raunverulega í hættu ef tekið er mið af hryðjuverkinu við Breiðagerðisskóla!
Sjómannaskólinn var líklega ekki í sömu hættu - en frábært framtak að friða hann - sem og hin húsin.
En það fleira sem þarf að hafa í huga!
Tökum sem dæmi Bústaðaveginn - þar sem VAR heilleg götumynd af húsum - sem hélt sér nokkuð þrátt fyrir að þak sumra húsanna hafi verið lyft. Þar er búið að brjóta upp þá götumynd með hræðilegum steypukumbaldi út út einu húsinu! Þessi steypukumbaldi gerir þó ekki meira en það að illa hefur gengið að selja.
Þarna var görumynd sem ég tel að hefði átt að frið að ákveðnu marki! Halda einhverjum húsanna upprunalegum - leyfa að lyfta ris á öðrum þar sem heildarmyndin helst samt nokkuð - en banna svona æxli! Menn gleyma að hús eru menningararfleifð sem ber að varðveita að hluta amk.
Hallur Magnússon, 22.5.2008 kl. 15:54
Algjörlega sammála þér Hallur. Það ætti auðvitað að setja þá í gapastokk á Austurvelli, sem létu sér detta í hug þessar hræðilegu skemmdir á húsinu. Hvað er eiginlega að þessu fólki? Var það annars ekki R-listinn sem samþykkti þessar hörmungar.
Júlíus Valsson, 22.5.2008 kl. 16:35
Júlíus!
Jú, það var R-listinn!
Hallur Magnússon, 22.5.2008 kl. 19:17
Sem gamall íbúi þarna ekki langt frá verð ég að segja eins og er, að lítil eftirsjá er af þessu byggingarlagi. Alveg satt. E.t.v. varst þú í skóla þarna, en Vogaskólinn gamli, sem nú er MS er í svipuðum stíl. Sömuleiðis Laugarnesskóli.
Jónas Egilsson, 22.5.2008 kl. 20:41
Eftirsjá eða ekki.....byggingin lítur hroðalega út með þetta hrikalega kýli byggt utaná gömlu bygginguna. Þessar gömlu byggingar henta líklega ekki lengur nútíma viðhorfum til skólastarfs en kommon.... Þarf að eyðileggja þær fyrir það??
Björg Árnadóttir, 22.5.2008 kl. 23:27
Ég segi fyrir mitt leiti að ég er mjög sammála þér Hallur. Þessi stíll og arkitektúr er mjög sérstakur og á fyllilega rétt á sér að staðið sé vörð um svona menningararfleið og sögu.
Minn smekkur hallast til þess að segja að þetta sé fallegt, en sitt sýnist hverjum. Sem er kannski vandamálið? Kannski kemur að því einn daginn að svona framkvæmdaslys verði framkvæmt á einhverjum byggingarstíl sem að Jónasi hugnast, og þá kannski verður hann ekki eins glaðreifur á alhæfingarnar :)
Áddni, 23.5.2008 kl. 09:35
Mér finnst málið ekki snúast um fegurðarsmekk - heldur menningu!
Ég er á því að við ættum að vernda eina ljóstustu byggingi Reykjavíkur - bygginguna milli Hótel Borgar og Reykjavíkurapóteks! Algjör slys á sínum tíma - en mikilvægur hlekkur í menningarsögunni.
Og víti til varnaðar fyrir framtíðina!
.. er nokkuð búið að breyta þessari byggingu!
Hallur Magnússon, 23.5.2008 kl. 23:55
Góðir punktar Hallur. Ég hef hins vegar velt því fyrir mér af hverju engin sagði múkk þegar Ræsis-húsið var rifið. Ein góðan veðurdag var það bara horfið! Fólust engin verslunarsöguleg menningarverðmæti í því ágæta húsi?
Friðrik Jónsson (IP-tala skráð) 24.5.2008 kl. 22:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.