Guðni er glæsilegur formaður Framsóknarflokksins!
30.4.2008 | 12:32
Guðni Ágústsson er glæsilegur formaður Framsóknarflokksins og ég styð hann sem slíkan! Ástæða þess að ég undirstrika þetta er að sá misskilningur komst á kreik vegna skrifa minna um Jón Sigurðsson forvera Guðna í embætti formanns Framsóknarflokksins, að ég styddi ekki Guðna sem formann Framsóknarflokksins. Því fer fjarri!
Mér þótti hins vegar nauðsynlegt í þeirri umræðu sem fram fór í fjölmiðlum um grein Jóns þar sem hann færir fram sterk rök fyrir því að nú sé tími til kominn að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið, að minna á að Jón er ekki einhver Jón úti í bæ, heldur Jón Sigursson sem var réttkjörinn formaður Framsóknarflokksins á síðasta flokksþingi, en flokksþing er æðsta stofnun Framsóknarflokksins.
Mér þótti tilhneyging hjá sumum Framsóknarmönnum að gera lítið úr traustri röksemdarfærslu Jóns og að lítið væri gert úr þeirri staðreynd að Jón var nýlega kjörinn formaður Framsóknarflokksins með meirihluta atkvæða flokksþingsfulltrúa og meirihluta flokksmanna að baki sér!
Jón ákvað að segja af sér þegar hann komst ekki á þing og við tók Guðni Ágústsson varaformaður. Ég studdi Guðna í að taka við formennskunni og ég styð Guðna ennþá sem formann. Ég geri ráð fyrir að fá tækifæri til að kjósa Guðna sem formann á flokksþingi í vor - ef ég verð valinn fulltrúi til flokksþings - sem er ekki sjálfgefið þótt ég sé ennþá skráður í Framsóknarflokkinn.
Ég treysti Guðna líka til að taka af skarið, ná skynsamlegustu lendingu fyrir Framsóknarflokkinn sem unnt er í Evrópumálunum og hvetja til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort ganga skuli til aðildarviðræðna við ESB eða ekki. Mismunandi afstaða Framsóknarmanna til mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu þarf ekki að kljúfa flokkinn. Þjóðin á að ákveða aðildarviðræður eða aðildarviðræður ekki. Ekki Framsóknarflokkurinn.
Bloggið sem olli þessum misskilningi er hér: Jón Sigurðsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins á síðasta flokksþingi!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.