Verðbólgan er 33,1% í kjölfar ofsaþenslufjárlaga ríkisstjórnarinnar!

Ofsaþenslufjárlög ríkisstjórnarinnar og vanmáttur Seðlabankans hafa undanfarna þrjá mánuði kallað yfir okkur 33,1% verðbólgu! Samkvæmt upplýsingum hagstofunnar hefur hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6,4% undanfarna þrjá mánuði sem jafngildir 28% verðbólgu á ári, en 33,1% fyrir vísitöluna án húsnæðis!

Reyndar ber að halda til haga að fleiri þættir en ofsaþenslufjárlög ríkisstjórnarinna - þar sem útgjöld voru hækkuð um 20% á þeim tíma sem draga hefði átt úr útgjöldum - valda þessari ofsaverðbólgu. En ofsaþenslufjárlögin var sá neisti sem kveikti þetta verðbólgubál fyrir alvöru.

Athygli vekur að verðbólgan er "einungis" 28% ef húsnæðisliðurinn er tekinn með í verðbólgumælinguna, en undanfarin ár hefur húsnæðisliðurinn verið ráðandi þáttur í verðbólgunni - algerlega að óþörfu - því mæling húsnæðisliðarins á Íslandi allt önnur en almennt gerist.

Mig grunar reyndar að ríkisstjórnin hyggist þvinga fram verðhrun á fasteignamaði - einmitt til þess að húsnæðisliður vísitöluna lækki á þennan hátt raunverulegar verðbólgutölur - því það er deginum ljósara að ríkisstjórn og Seðbanki eru ráðþrota fyrir vandanum - sem að miklu leiti er heimatilbúinn - bæði hjá ríkisstjórn þenslufjárlaga og Seðlabanka vanmáttar.

Meira um það síðar!


mbl.is Mesta verðbólga í tæp 18 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

Ég er nú ekki sammála því að "þenslufjárlögum" sé um að kenna, heldur frekar almennu bruðli um efni fram undanfarin misseri og því að aðgerðir Seðlabankans hafa verið byggðar á röngum forsendum, samanber þessa grein.

Púkinn, 28.4.2008 kl. 14:45

2 identicon

Þetta er mikil einföldun á hagfræðilegum staðreyndum og reyndur maður eins og þú Hallur veist eða ættir að vita betur. Þetta er því miður engin skammtímavandi þetta er afleiðing margra ára uppsafnaðs vanda til nokkra ára.  Það hefur í áraraðir verið varað við þessu að þessu líkt gæti gerst og ætti engum að koma á óvart. 

Einkavæðing bankanna og tryggingafélaganna var stórefldasta rán Íslandssögunarþar sem eigum ríkisins var skipt milli fólks og fylkinga með græn og blá flokkskírteini.  Þessu má líkja við einkavæðingu Rússlands á 9 áratug þessarar aldar.  Ég gæti týnt ótal dæmi þar sem illa var að málum staðið og fólk sat báðum megin við borðið og hafði fleirri hatta á höfði.  Í stað þess að fá inn erlenda stórbanka með nægt fjármagn var þessum stofnunum úthlutað innlendum aðilum með sterk pólítisk ítök.  Þetta gekk framanaf vel.  Lágir vextir á alþjóðafjármálamörkuðum og ofurhátt gengi krónunnar gerði þessa banka að að peningavélum fyrir eigendur sína. Þeir tóku lán í erlendri mynt á erlendum lánum og endurlánuðu þetta mörlandanum fyrir bílum, flatskjáum og öðru drasli og græddu vel.  Í stað þess að leggja hömlur á þetta var af einhverjum óskýrðum ástæðum einhliða afnumin bindiskylda Seðlabankans sem er til að minnka lánsfé í umferð.  Þá ráðstöfun skilja fæstir enda fyrir henni lágu engin hagfræðileg rök.  Í stað þess að auka álögur, tolla og stemma stigu við innflutningi var ausið olíu á eldinn með að auka enn á framboð á lánsfjármagni.   Sem við var að búast steig fasteignamarkaður ótrúlega úr öllum fasa við aukningu á rauntekjum fólks og undir þessu kynntu opinberar lánastofnanir eins og Íbúðarlánasjóður.  Við erum núna með stórlega ofmetinn fasteignamarkað sem liggur eins og tikkandi sprengja í farangri okkar.  Lánin eru vísitölutryggð og sumir hafa að hluta eða öllu leiti erlend lán.  Við erum með okkar óleystu "subprime krísu" sem ég held að sé hlutfallslega mikið stærri en þessi í USA. Stór er ábyrgð Íbúðarlánasjóðs og bankanna í henni.  Bankarnir "okkar" eru að sigla í gegnum þessa erlendu krísu þar sem þeir eru búnir að þenjast um of og of hratt á erlendu lánsfé og núna bíður þeirra þessi íslenska "subprime krísa".  Það er offramboð á íbúðum sem á kannski eftir að aukast ef fólk flyst af landi burtu.  Hvað þurfa margar fjölskyldur að fara á hausinn og ráða ekki við lán til að hrinda af stað skriðunni?  Hér er metið að það sé um 18 mánaða "birgðir"/ "bið eftir sölu" af húsum á sölu miðað við að í USA á hátindi "subprime" "krísunnar" voru 10 mánaða "birgðir".

Íslenska krónan er minnsti fljótandi gjaldmiðill í heimi.  Íslendingar græddu stórlega á krónunni um tíma og væntanlega munu þessi 3 helstu góðærisárin vera sá mesti gósentími Íslandssögunar. Það voru engin hagfræðilegar ástæður fyrir því að hún héldist svona há.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mat raungengi íslensku krónunnar á vísitölunni 150-190 á haustmánuðum 2007, en þá var gengi hennar á 115 og er núna í kringum 150. 

Þessi verðbólga er afurð gengisfalls krónunnar.  Þetta er ekki góðærisverðbólga þetta er gamla kreppuverðbólgan sem er kominn og til að sigrast á henni þarf að styrkja krónuna og snúa við viðskiptahallanum. Sársaukafullar aðgerðir sem verða mun sársaukafyllri vegna lélegrar hagstjórnar síðustu ára.  Það þarf að minnka lánsfé í umferð en ekki dæla inn lánsfé til að halda loftinu í uppblásnum fasteignamarkaði.  Ef sú leið verður farin þá rýrum við krónuna trausti og hún fellur enn í gengi og við fáum óðaverðbólgu.  Lánin sem annað hvort eru bundin við erlendan gjaldmiðil eða vísitölutryggð við krónu stórhækka þá og fólk ræður ekki við afborganirnar.  Við getum ekki lengur tekið þá stefnu að fórna sparifjáreigendum eins og var gert forðum.  Þessi lán eru tekin erlendis og þarf að borga.  Nú þarf að fórna skuldurunum og láta loftið fara úr fasteignamarkaðnum en hindra fjöldagjaldþrot sem gæti komið ef verðbólgan æðir upp og það gerir hún ef við sökkvum krónunni.  Ríkissjóður kemur frá góðærinu, skuldlaus en eignalaus og án gjaldeyrisvarasjóðs sem gæti hafa bjargað okkur núna.  Evran er ekki nein lausn fyrir okkur í þessari stöðu. Kanski seinna þegar fyrir því eru hagfræðilegar staðreyndir.  Það er örugglega skynsamlegt að hyggja að því. Það kemur enginn og borgar barreikninginn okkar.  Við erum núna milli fleiri elda og komumst ekki óbrennd frá þessu. 

Gunn (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 17:10

3 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæti/ágæta? Gunn!

Takk fyrir góð komment og vel rökstuddar athugasemdir - bæði hér og áður.

Auðvitað var það dálítil galgopaskapur að kenna núverandi ríkisstjórn um þetta allt saman - enda - eins og þú bendir á - eldsmaturinn byggst uppi í nokkurn tíma.

Hins vegar var ég og er alveg bit á ríkisstjórninni að skvetta olíu á glæurnar með þenslufjárlögunum - og gera síðan ekki neitt í kjölfarið!   Ég hafði mikla trú á þessari ríkisstjórn - líka í efnahagsmálunum - en sú trú er fokin út í veður og vind - þótt ýmislegt gott sé að gerast inn á milli

Aðeins kommentið um Evruna. Það að taka upp evru er engin patentlausn á núverandi vanda - en það að taka stefnuna á hana gæti þó haft jákvæð áhrif í núverandi ástandi. En evran er hins vegar lausn til lengri framtíðar - og við eigum að taka stefnuna þangað - því eins og þú í raun lýsir - þá er íslenska krónan búin að vera. Því miður,

Hallur Magnússon, 28.4.2008 kl. 20:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband