Íbúðalánasjóður lækkar vexti hóflega!

Íbúðalánasjóður lækkar vexti íbúðalána með ákvæðum um uppgreiðslugjald hóflega og kemur þannig til móts við Seðlabanka og stjórnvöld sem óttast hafa mikla lækkun vaxta á lánum sjóðsins þar sem ávöxtunarkrafa íbúðabréfa í tveimur lengstu flokkunum hefur lækkað verulega á árinu.

Reyndar notar sjóðurinn tækifærið og hækkar áhættuálag vegna uppgreiðsluáhættu um 0.25% þannig að vextir lána án sérstaks uppgreiðslugjalds eru áfram háir! Það er reyndar eðlilegt frá áhættusjónarmiði þegar vaxtastig er hátt.

Sú ákvörðun stjórnar Íbúðalánasjóðs að fara ekki í útboð fyrr á árinu þrátt fyrir áætlanir um annað hafa orðið til að styðja við hávaxtastefnu Seðlabanka og stjórnvalda, en væntanlega hefur sú ákvörðun byggst á minni útlánum og betri lausafjárstöðu en gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum Íbúðalánasjóðs.

Íbúðalánasjóður ákvað að taka verulega fjárhæð í HFF 24 sem er með miklu hærri ávöxtunarkröfu en lengri flokkarnir. Vægi þessa flokks í heildarávöxtunarkröfunni er 48,75% sem verður til þess að heildarávöxtunarkrafa tekinna tilboða er 4,75% sem þýðir að útlánavextir íbúðalána Íbúðalánasjóðs lækka einungis í 5,2%.

Ástæða þess að Íbúðalánasjóður hefur nú svigrúm til þess að taka tilboðum í þennan stutta lánaflokk er sú að sjóðurinn hefur staðið sig afar vel í áhættustýringu sinni þannig að fullkomið jafnvægi hefur verið á inn og útstreymi fjármagns. Því hefur sjóðurinn borð fyrir báru til að slaka örlítið á þessu jafnvægi til að leggja efnahagsstjórninni lið. 

Íbúðalánasjóði hefði verið í lófa lagt að taka einungis tilboðum í lengri  flokkunum - enda útlán hans fyrst og fremst til langs tíma. Allar forsendur hefðu því verið til þess að lækka vexti jafnvel niður í 5,00% - 5,05% miðað við fyrirliggjandi forsendur.

Íbúðalánasjóði bárust tilboð í íbúðabréf að nafnvirði 24,1 milljarður króna. Ákveðið var að taka
tilboðum í íbúðabréf:

•  HFF150224 að nafnvirði 3,9 milljarðar króna, vegin áv.krafa án þóknunar er
   4,92%

•  HFF150434 að nafnvirði 2,5 milljarðar króna, vegin áv.krafa án þóknunar er
   4,66%

•  HFF150644 að nafnvirði 1,6 milljarðar króna, vegin áv.krafa án þóknunar er
   4,40%

Vegin heildarávöxtunarkrafa tekinna tilboða án þóknunar er 4,73% og 4,75%, með
þóknun. 

Að viðbættu 0,45% vaxtaálagi á lán sem bera uppgreiðslugjald ef vextir lána Íbúðalánasjóðs verða lægri á uppgreiðslutímanum þýðir þessi niðurstaða 5,2% útlánavextir, en 5,7% á lánum sem ekki þarf að greiða uppgreiðslugjald við uppgreiðslu vegna hækkunar á innbyggðu uppgreiðsluálagi.


mbl.is Íbúðalánasjóður lækkar vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: molta

Rosalega eruð þið "ábyrgir" að taka mest lán hjá sjóðum sem hafa hæstu ávöxtunarkröfu, þó þið gætuð alveg tekið lengri lán með lægri vöxtum sem passa betur við viðskiptavini ykkar.  Þið meira að segja bjóðið upp á tvöföldun á uppgreiðsluákvæðinu, sem er einhver svínslegasta uppfynding fjármálamarkaðarins til síðustu ára.

molta, 21.4.2008 kl. 12:24

2 Smámynd: Hallur Magnússon

Molta.

1. Það þýðir lítið að ávarpa mig sem "þið" í þessu samhengi. Ég kem hvergi nærri þessu útboði - hvað þá vaxtaákvörðun og hækkun vaxtaálags.

2. Þetta er útboð en ekki lántaka hjá sjóðum.

3. Íbúðalánasjóður er ekki að tvöfalda "uppgreiðsluákvæði".  Um er að ræða hækkun á vaxtaálagi sem alla tíð hefur verið á lánum Íbúðalánasjóðs sem unnt er að greiða upp hvenær sem er án sérstakrar uppgreiðsluþóknunar.

4. Sammála greiningu þinni á uppgreiðsluákvæðum sem bankarnir innleiddu. Mín skoðun var að um ólögmætt gjald væri að ræða. Viðskiptaráðherra hefur boðað breytingar á lögum sem einmitt tekur á þessari "svínslegu" uppfinningu fjármálamarkaðarins.

5. Verð að benda þér á að þrátt fyrir þetta eru vextir íbúðalán Íbúðalánasjóðs nú líklega 1,1% lægra en lægstu mögulegu íbúðalánavextir í bankakerfinu - ef þú færð þá slík lán yfir höfuð! 

Hallur Magnússon, 21.4.2008 kl. 12:46

3 Smámynd: Landfari

Hvernig geturðu sagt að ekki sé um að ræða tvöföldun uppgreiðsluákvæðisins þega það hækkar úr 0,25% í 0,5%?

Hvað gerir þetta gjald ósanngajrnara hjá bönkunum en íbúðalánsjóði?

Hvað þýða þessi nr. HFF150224 etc?

Hafa þessi númer með lanstímanna ða gera?

Landfari, 21.4.2008 kl. 16:02

4 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæti Landfari.

Uppgreiðsluákvæði á við þau lán sem þú þarft að greiða sérstaka uppgreiðsluþóknun við uppgreiðslu ef þú greiðir lánið upp - en þó einungis ef vexti Íbúðalánasjóðs á þeim tíma sem þú greiðir lánið upp eru lægri en þeir vextir sem lánið ber.  Á móti eru vextir þessarar tegundar láns lægri á lánstímanum en vextir hefðbundinna lána Íbúðalánasjóðs.

Hefðbundin lán Íbúðalánasjóðs eru þess eðlis að þú getur ALLTAF greitt þau upp án sérstakrar þóknunar. Á móti er hins vegar ákveðið vaxtaálag á þessum lánaflokki sem vegur upp uppgreiðsluáhætti Íbúðalánasjóðs.

Það má líkja þessu við kaskótryggingu á bíl.

Í fyrra tilfellinu þá tekur þú ekki kaskótryggingu - og berð því kostnaðinn sjálfur ef þú lendir í tjóni og ert ekki í rétti. Tryggingariðgjöldin þín eru lægri - en tjónið hærra ef það verður á annað borð! Í tilfelli íbúðalánsins þá greiðir þú lægri vexti á lánstímanum - en getur lent í að greiða töluverða fjárhæð í uppgreiðsluþóknun - ef þú ákveður eða neyðist til að greiða lánið upp. Sú fjárhæð getur orðið miklu mun hærri en sú fjárhæð sem þú greiðir í hærra vaxtastigi á láni sem þú getur alltaf greitt upp án sérstaks kostnaðar.

Í síðari tilfellinu ertu þú að greiða ákveðið "tryggingariðgjald" með hóflegu vaxtaálagi út lifitíma lánsins - alveg eins og þú greiðir kaskótryggingu til að þurfa ekki að greiða sjálfur altjón á bílnum ef hann eyðileggst og þú ert í órétti.

Þannig leggja allir smáfjárhæð saman í púkkið í formi vaxtaálags/kaskótryggingu - og lágmarka þannig áhættu sína.

Í tilfelli Íbúðalánasjóðs - þá er ljóst að þegar vextir eru mjög háir eins og undanfarna mánuði - þá eru meiri líkur á að fólg greiði upp lánin þegar vaxtastig lækkar - og menn endurfjármagna. Þess vegna er ástæða til að hækka þetta vaxtaálag - á sama tíma og ástæða er að hækka iðgjöld kaskótrygginga þegar tjón aukast.  Þrátt fyrir það eru kaskótryggðir í betri málum - ef kemur til altjóns - en þeir sem ekki taka sllíka tryggingu.

Vona að þetta skýri málið!

Hvað varðar merkingarnar HFF150224 - þá þýðir það að um er að ræða Íbúðabréf (Housing Financing Fund Bonds) með lokagjalddaga 15. febrúar 2024.

Hvað varðar merkingarnar HFF150644 - þá þýðir það að um er að ræða Íbúðabréf (Housing Financing Fund Bonds) með lokagjalddaga 15. júní 2044.

Lokagjalddagarnir gefa einnig til kynna hvenær misserislegar afborganir af lánunum eru.

Hallur Magnússon, 21.4.2008 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband