Víkingsblóðið rennur hraðar á aldarafmælinu!

Víkingsblóðið rennur hraðar um æðarnar á aldarafmæli Knattspyrnufélagsins Víkings, en Víkingur á 100 ára afmæli í dag. Það flugu margar góðar minningar gegnum hugann þegar ég renndi gegnum Víkingsumfjöllun Morgunblaðsins í morgun, en þar var farið yfir helstu atriði í sögu félagsins.

Stór hluti þeirrar minningar er sífelld viðvera Ásgeirs og Láru - sem alltaf voru nærri. Sorglegt að Ásgeir fengi ekki að lifa 100 ára afmælið - en við fylgdum honum til grafar í haust.

Man ennþá stemmninguna og æsinginn í Höllinni 1975 þegar Víkingar urðu Íslandsmeistarar í handbolta í fyrsta sinn með ótrúlegum sigri á Val og hófu gullaldartímabilið í handbolta. Gleymi aldrei þegar Viggó frændi kastaðu sér í gegnum Valsvörnina - frá punktalínu - og gulltryggði forystuna og meistaratitilinn!  Það var ekki aftur snúið eftir þann dagpart á pöllunum í Höllinni!

Skömmu síðar vannst fyrsti titillinn minn í handbolta - Reykavíkurmeistarar í 4 flokki. Brosið fór hringinn þegar ég tók við titlinum sem fyrirliði - og það bros skjalfest með svarthvítri mynd í Mogganum!

Ég átti forréttinda að fagna að fá að taka þátt í gullöldinni með Bogdan þar sem ég æfði og keppti með köppum eins og snillingnum Páli Björgvinssyni, frænda mínum Viggó Sigurðssyni, Þorbergi Aðalsteinssyni, Árna Indriðasyni, Sigurði Gunnarssyni, Ólafi Jónssyni, Kristjáni Sigmundssyni, Steinari Birgissyni, Ellert Vigfússyni sem voru nokkuð eldri - og svo með köppum sem lágu nær mér í aldri - Guðmundur Þórði Guðmundssyni, Gunnari Gunnarssyni, Heimi Karlssyni, Óskari Þorsteinssyni - og mörgum fleirum.  Þetta voru frábærir tímar - en erfiðir - enda Bogdan enginn amatörþjálfari!

Einhversstaðar á ég gullpeninga fyrir Íslandsmeistaratitil og gott ef ekki líka Reykjavíkurmeistaratitil frá þessum tíma! Silfurpeninginn fyrir annað sætið í bikarkeppninni faldi ég lengi vel vegna svekkelsis yfir að hafa ekki klárað það dæmi.

Þá var ekki síður gaman í fótboltanum þar sem spilað var með algjöru Gull-Víkingsliði í yngri flokkum - liði sem síðar var grunnurinn að Íslandsmeistaratitlum Víkings í fótbolta. Undir stjórn Hafsteins Tómassonar - frábærs þjálfara - vann 3. flokkur Víkings alla leiki - nema einn - og þar af leiðir öll mót sem tekið var þátt í - bæði hér og erlendis! 

Enda ekki slor lið:

Arnór Guðjohnsen, Lárus Guðmundsson,  Heimir Karlsson, Aðalsteinn Aðalsteinsson - sem allir urðu atvinnumenn erlendis - Jóhann Þorvarðarson, Jóhannes Sævarsson, Gunnar Gunnarsson - sem valdi handboltann og var sem slíkur atvinnumaður - en hefði eflaust átt möguleika í fótboltanum líka. Ekki má gleyma Bjössa Bjartmarz - sem síðar varð algjör Víkingshetja!  Það var ekki furða að maður valdi markið - með alla þessa snillinga með sér í liðinu. Ég hélt lengi vel að ég gæti ekkert sem útispilari í fótbolta - þar sem ég var alltaf að bera mig saman við þá langbestu!!!

Þá eru góðar minningar frá þjálfun yngri flokka í handbolta - bæði stráka og stelpna! Þar liggja einhverjir Íslandsmeistara- og Reykjavíkurmeistartitlar!

Ný fylgist maður bara með guttunum sínum í 6. og 7. flokki! Eldri stelpan hætt að spila fótbolta fyrir nokkrum árum  - en hún varð þó Íslandsmeistari í 4.flokki B - fyrstu Íslandsmeistarar kvenna hjá Víking í fótbolta! Sú yngri segist bara ætla í dans - en hún er nú ekki nema 3 ára - með keppnisskap - svo ekki er öll nótt úti enn!

Já, Víkingsblóðið rennur dálítið hraðar um æðarnar í dag!

Til hamingju með 100 árin Víkingar!!!

www.vikingur.is


mbl.is Víkingur á uppleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

til hamingju víkingar

Óskar Þorkelsson, 21.4.2008 kl. 22:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband