Vilhjálmur smáfjárfestir og vortúlípanarnir!
11.3.2008 | 21:23
Það er eins klárt og túlípanarnir spretta upp úr blómabeðunum á vorin að Vilhjálmur smáfjárfestir sprettur upp á aðalfundum stóru fyrirtækjanna með gagnrýnar spurningar og athugasemdir.
Það er jafn gott fyrir smærri fjárfesta að hafa svo einbeittan talsmann og Vilhjálm smáfjárfesta og það er gott fyrir sálartetur blómaunnenda að sjá túlípanana teygja sig á móti vorsólinni.
Á aðalfundi FL Group í dag stóð Vilhjálmur upp að venju og baunaði löngum spurningalista á stjórnendur fyrirtækisins. Ekki veit ég hvernig forsvarsmennirnir náðu að snúa sig út úr spurningaflóði Vilhjálms. En þeir höfðu þó haft vit á því að leggja fram tillögu um að lækka stjórnarlaun sín í fyrirtækinu um helming svo Vilhjálmur þurfti ekki að ómaka sig í að leggja fram slíka tillögur.
Vilhjálmur smáfjárfestir neyddi nefnilega stjórn SPRON um daginn að lækka nefndarlaun sín um helming í kjölfar umræðu um ofurlaun stjórnarmanna í öðrum banka Kaupþingi þar sem nefndarlaunin voru margfalt hærri en lækkuðu ekki.
Það er óeðlilegt að laun fyrir nefndarsetur í fjármálafyrirtækjum séu út úr korti, en ég er ekki viss um að til lengri tíma sé það skynsamlegt að stjórnarmenn fjármálafyrirtækja séu á smánarlaunum miðað við þá lagalega ábyrgð sem þeir nú bera.
Mín persónulega skoðun er sú að ekki hafi verið ástæða til að lækka laun stjórnarmanna í SPRON. Þau voru hófleg fyrir lækkun miklu lægri en þóknun annarra fjármálafyrirtækja. Þar var Vilhjálmur smáfjárfestir að hengja bakara fyrir smið.
En svona er lífið! Það er ekki alltaf dans á rósum frekar en það er ekki alltaf ylur í túlípanabeðinu!
Tap vegna AMR, Commerzbank og Finnair nam 38 milljörðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Einmitt Hallur minn þú talar bara um lagalega ábyrgð, tel nú að MIKIÐ vanti uppá hina SIÐferðilegu og þá sem miklu meira mætti vera af þá samfélagslegu.
Eiríkur Harðarson, 12.3.2008 kl. 01:40
Eiríkur.
Ég er þér sammála.
Hallur Magnússon, 12.3.2008 kl. 07:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.