Ísland eitt kjördæmi eykur jafnrétti kynjanna!
21.1.2008 | 08:51
Ísland á að vera eitt kjördæmi. Það eykur ekki einungis jafnræði kjósenda - það eykur jafnrétti kynjanna! Það er sá lærdómur sem við getum dregið af niðurstöðu nýliðinna kosninga í Færeyjum þar sem konum - sem fram að þessu hafa átt verulega erfitt uppdráttar í færeyskum stjórnmálum - fjölgaði verulega.
Ástæðan fyrir því að þetta eykur jafnrétti kynjanna er sú að þrátt fyrir að sterkar konur hafi náð að komast í fremstu röð og leitt lista í einstökum kjördæmum - konur eins og Valgerður Sverrisdóttir, Ingibjörg Sólrún, Þorgerður Katrín, Siv Friðleifsdóttir og Kolbrún Harðardóttir - þá er staðan yfirleitt sú að karlmenn leiða listana.
Lítum á síðustu kosningar. Þar bar Framsóknarflokkurinn reyndar af - þar sem konur skipuðu efsta sætið í helmingi kjördæmanna. "Kvenfrelsisflokkurinn" Vinstri grænir komu í humátt á eftir með tveir konur sem leiddu lista á móti fjórum körlum. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking úti á þekju - aðeins ein kona leiddi lista hvors flokks!
En vegna jafnréttissjónarmiða koma konur oft í sætunum á eftir körlunum. Það gerir það að verkum að hlutfall karla verður alltaf hærra en kvenna við núverandir kjördæmaskipan - því yfirleitt er það tryggt að karlarnir í fyrst sæti komast inn - jafnvel er karl í öðru sæti - en konurnar sitja eftir sem varaþingmenn.
Með því að gera Ísland að einu kjördæmi - þá eru allar líkur á því að listarnir verði betur blandaðir - kynjahlutföll í efstu sætum jöfn - þótt karlar leiði þá lista. Það mun væntanlega skila sér í því að fleiri konur ná kjöri.
Já, það er jafnréttismál að gera Ísland að einu kjördæmi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.