Skattheimta á að vera græn!

Það er ánægjuleg niðurstaða að landsmenn telji að stóriðjufyrirtæki eigi að greiða fyrir losun sína á gróðurhúsalofttegundum.  Skattheimtan á að vera græn - það er þeir sem menga eða ganga á auðlyndir okkar eiga að greiða sérstaklega fyrir það.

Hið praktíska vandamál er að ef Íslendingar leggja á "grænan" skatt vegna losunar stóriðjufyrirtækjanna á meðan aðrir gera það ekki, þá gæti það orðið til þess að auka losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu!

Við drífum stóriðjuna áfram með endurnýjanlegri, umhverfisvænni orku á meðan orka víða annars staðar er drifin áfram með brennslu ólíu og kola.  Því verður að vera tryggt að gjald vegna losunar gróðurhúsalofttegunda verði grænn skattur á heimsvísu!  Þar liggur vandinn.

Skrefi í þessa átt var hins vegar stigið í Ástralíu í morgun þegar nýr forsætisráðherra undirritaði Kyoto-sáttmálann.  Við það stendur Georg Bush umhverfissóði einn eftir af leiðtogum stóru iðnveldanna!

Þá er að hefjast fundarlota á Balí - þar sem þjóðir heims freista þess að ná nýjum áföngum í baráttunni gegn ofhitnun jarðar. Við skulum vona að það takist - en því miður er ég ekki allt of bjartsýnn!

PS. Sá eftirfarandi frétt á nýjum og mjög bættum vef Viðskiptablaðsins:

Verslun með losunarheimildir skilar árangri

- Forstjóri Rio Tinto Alcan hlynntur mælanlegum aðgerðum í loftslagsmálum


mbl.is 95% telja að stóriðja eigi að greiða fyrir mengun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"...með endurnýjanlegri, umhverfisvænni orku...." segir þú. Á sama hátt og kafa verður niður í hugtökin og láta álverin borga fyrir losun sína verður að greina á milli þeirra virkjana hér á landi sem eru "endurnýjanlegar og hreinar" og hinna sem eru það ekki.

Hitaveitur með hæfilegri ásókn í jarðhitann og vatnsaflsvirkjanir á borð Sogsvirkjanirnar eru sannanlega hreinar og endurnýjanlegar og má líkja þeim við eilífðarvélar.

Kárahnjúkavirkjun er það ekki og ekki heldur nýjustu virkjanirnar á Hengils-Hellisheiðarsvæðinu. Kreista á 600 megavött út svæði sem afkastar aðeins um 300 megavöttum til langframa. Eftir ca 40 ár verður orkan búin á svæðinu og þá þurfa barnabörn okkar að útvega 600 megavött annars staðar.

Hvað segðum við um þá Ólaf Thors, Bjarna Ben, Emil Jónsson og Gylfa Þ. Gíslason ef þeir hefðu staðið fyrir svipuðu fyrir 40 árum og við stæðum nú frammi fyrir að útvega orku annars staðar frá?

Með Kárahnjúkavirkjun verður 25 km langur dalur fylltur af aurseti og þá þurfa afkomendur okkar væntanlega að útvega orku annars staðar frá.

Aðeins 12 prósent jarðvarmaorkunnar á Hellisheiði nýtist, 88 prósent fara út í loftið. Það er ekki góð nýting og útblástur brennisteinsvetnis verður margfalt meiri en allra álvera landsins til samans.

Ómar Ragnarsson, 3.12.2007 kl. 12:35

2 Smámynd: Hallur Magnússon

Athyglisvert Ómar.

Og fínn pistillinn á blogginu þínu um málið.

Kjarni málsins er það sem þú segir:  "Á sama hátt og kafa verður niður í hugtökin og láta álverin borga fyrir losun sína verður að greina á milli þeirra virkjana hér á landi sem eru "endurnýjanlegar og hreinar" og hinna sem eru það ekki."

Ég ætla ekki að taka afstöðu til réttmæti fullyrðinga þinna um virkjanirnar að svo stöddu - til þess þarf ég að kafa betur  - en vil segja að ég hef verið talsmaður "grænna" skatta í 20 ár eða svo!

Hallur Magnússon, 3.12.2007 kl. 14:22

3 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll, Hallur, hér eru smá upplýsingar úr Stern- skýrsluni varðandi áliðnað.

 Í STERN-skýrslunni um gróðurhúsaáhrifin er lögð áhersla á nauðsyn þess að "gera strax það sem hægt er að gera strax" til að vinna á móti þeim. Meðal þess sem hægt er að gera strax er að auka álvinnslu á Íslandi með virkjun vatnsorku og jarðhita í stað rafmagns úr eldsneyti. Hvert áltonn á Íslandi sparar andrúmsloftinu 12,5 tonn af CO2. Það liggur því á að virkja hér samkvæmt þeirri skýrslu.

Í Morgunblaðinu föstudaginn 23. febrúar sl. er það haft eftir fyrrverandi umhverfisráðherra að "ekkert lægi á í virkjana- og stóriðjumálum". Og núverandi umhverfisráðherra hefur látið svipuð sjónarmið í ljós. Lítum á hvort þau eigi rétt á sér.

Í blaðagrein í Morgunblaðinu blog.is 4. apríl sl. gat ég þess að losun koltvísýrings frá raforkuframleiðslu úr eldsneyti til álvinnslu nemur nú rúmlega 100 milljón tonnum af CO2 á ári og hefur aukist um 3,28 milljón tonn á ári að meðaltali 1994 til og með 2005. Árleg aukning ein saman nam þannig um 90% af allri innanlandslosun á Íslandi 2004. Hvert tonn af áli, framleitt á Íslandi með raforku úr vatnsorku eða jarðhita í stað eldsneytis, sparar andrúmsloftinu 12,5 tonn af koltvísýringi.

Ég gat þess einnig að orkulindir okkar Íslendinga réðu vel við 2,5 milljóna tonna álframleiðslu á ári eftir svo sem aldarfjórðung sem sparaði andrúmsloftinu 31 milljón tonna af CO2 á ári miðað við framleiðslu með rafmagni úr eldsneyti. 8,5-falda núverandi innanlandslosun á Íslandi og 30% af núverandi heimslosun frá raforkuvinnslu úr eldsneyti til álframleiðslu! Til þess þyrfti nálægt 40 TWh/a (terawattstundir á ári) í orkuveri, t.d. 30 úr vatnsorku og 10 úr jarðhita. Með engu öðru móti gætu Íslendingar lagt jafnmikið af mörkum til að vinna gegn gróður-húsavandanum og með því að hýsa hér á landi allan þann áliðnað sem þeir mættu. Spurningin væri um viljann til þess.

Á bls. 261 í Stern-skýrslunni segir svo: "Fyrirtæki þurfa að taka ákvarðanir til langs tíma þegar ákveða skal fjárfestingar í verksmiðjum og tækjum sem ætlað er að starfa áratugum saman. Eitt dæmi um þetta er vöxtur áliðnaðarins á Íslandi. Ísland hefur dregið til sín álframleiðendur bæði frá Evrópu og Bandaríkjunum, að hluta til vegna þess að með því að reiða sig í miklu ríkari mæli en áður á raforku úr endurnýjanlegum orkulindum draga þeir úr áhættunni af kostnaðarhækkunum vegna strangari reglna í framtíðinni um losun gróðurhúsa-lofttegunda." Við þetta mætti bæta að álfyrirtækjum er nú orðið annt um ímynd sína. Ennfremur segir svo um íslenskan áliðnað í rammagrein á sömu blaðsíðu:

"Á síðustu sex árum hefur Ísland orðið mesta framleiðsluland hrááls í heimi, reiknað á hvern íbúa. Búist er við að álframleiðsla á Íslandi vaxi í um milljón tonn á ári, en með því væri Ísland orðið mesta álframleiðsluland í Vestur-Evrópu. Ísland á aðgang að álmarkaði bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, en meginkostur landsins er aðgangur að vatni og mengunarlausum orkulindum. Losun á CO2 á mann frá raforkuvinnslu á Íslandi er hin minnsta í OECD-löndunum. 70% af frumorkunotkun landsins kemur frá haldbærum orkulindum í landinu sjálfu. Á Íslandi er líka verið að gera ráðstafanir til að draga úr losun flúorsambanda frá álvinnslu. Væntingar um ráðstafanir á heimsvísu í framtíðinni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eru nú þegar orðnar einn aðaldrifkrafturinn í að draga orkufreka starfsemi burt frá svæðum þar sem mikil slík losun fylgir orkuvinnslunni til landa með endurnýjanlegar orkulindir."

Í Stern-skýrslunni er lögð megináhersla á að það verði margfalt dýrara og erfiðara fyrir mannkynið að bíða með að gera ráðstafanir til að hemja gróðurhúsavandann en að byrja á því strax. En jafnframt að hér sé um langtímaverkefni að ræða sem taki marga áratugi. Þess er m.a. getið að "afkola" þurfi raforkuvinnsluiðnaðinn (sem að langstærstum hluta byggist nú á kolum) um 60% fyrir 2050 ef stöðva eigi koltvísýringsinnihald andrúmsloftsins við 550 milljónustu hluta (ppm). Byrjum strax á því sem við getum gert strax!

Eitt af því sem hægt er að gera strax er að hægja á, og helst stöðva, áðurnefndan árlegan vöxt á losun koltvísýrings frá raforkuvinnslu úr eldsneyti til álframleiðslu um 3,28 milljón tonn á ári. Til þess þarf að flytja hana þangað sem framleiða má raforkuna úr öðru en kolum, svo sem kjarnorku, vatnsorku, jarðhita og fylgigasi með olíuvinnslu. Tæknin til þess er þegar fyrir hendi. Meðal annars til Íslands. Við getum, ef við viljum, hýst hér áliðnað sem framleiðir árlega 2,5 milljón tonn af áli milli 2030 og 2040; löngu fyrir 2050. Það væri í samræmi við hvatningar Stern-skýrslunnar og öllu mannkyni í hag.

En þá liggur á að virkja. Og þá þurfa umhverfisráðherrar okkar að endurskoða fyrrnefnd ummæli og leggja áhersluna á það sem nú skiptir allt mannkyn langmestu í umhverfismálum: Baráttuna við gróðurhúsavána. Það er alls engin hætta á að við og gestir okkar munum ekki eiga kost á umgengni við ósnerta náttúru þótt við virkjum. Ísland er stórt og mjög strjálbýlt land.

Það hefur lítið verið minnst á Stern-skýrsluna í íslenskum blöðum síðan hún kom út. Þá birti Morgunblaðið ítarlega frásögn af henni og skrifaði leiðara um hana. Síðan hefur lítið heyrst um hana. Er hún komin upp í hillu? Sú skýrsla á ekki heima uppi í hillu en ætti að liggja opin á borðum ráðherra í öllum iðnvæddum ríkjum á hverjum morgni með miða sem á stæði "Urgent" (aðkallandi).

Ísland er í sérstöðu á heimsmælikvarða hvað orkulindir varðar. Með 100 sinnum meiri efnahagslega vatnsorku á hvern íbúa en jarðarbúar hafa að meðaltali, sem aðeins er nýtt að 29% (eftir Kárahnjúkavirkjun) og ríflegan jarðhita að auki; með eina mestu notkun á raforku á mann í landinu til almennra þarfa sem þekkist í veröldinni, og þannig staðsett, úti í reginhafi, að ekki er unnt að selja raforku þaðan til almennra nota í öðrum löndum vegna flutningskostnaðar. Breytingar á því eru ekki í sjónmáli.

Útflutningur á orkunni í formi raforkufrekra afurða eins og áls er eina færa leið okkar til að nýta okkar miklu orkulindir efnahagslega. Svo vel vill til að sú leið er jafnframt æskileg frá sjónarmiði baráttunnar við gróðurhúsavandann. Áhrif virkjana á Íslandi á náttúruna eru nákvæmlega hin sömu til hvers sem rafmagnið frá þeim er notað.

 Kv, Sigurjón

Rauða Ljónið, 3.12.2007 kl. 14:41

4 Smámynd: Hallur Magnússon

Sigurjón!

Takk fyrir þetta innlegg - það stefnir í fjörugar umræður um þetta - enn og aftur!

Hallur Magnússon, 3.12.2007 kl. 15:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband