Athyglisverð umræða um húsnæðislið vísitölunnar
12.3.2007 | 22:03
Það var ekki meiningin að fyrsta blogfærslan mín snerist um húsnæðismál, en ég rakst á athyglisverða blogfærslu frá fyrrum skólabróður mínum úr MH, Eyþóri Arnalds, "Á húsnæði heima í neysluvísitölunni".
Umræðan um það hvort sú aðferð sem notuð er á Íslandi við að reikna húsnæðisliðinn inn í vísitöluna á fullkomlega rétt á sér. Sú aðferð sem beitt hefur verið varð til þess að verðbólga á Íslandi hefur að sumra mati mælst langt umfram það sem hún hefði raunverulega átt að mælast að þeirra mati. Afleiðingar þess hafa verið okkur Íslendingum erfiðar.
Fram hafa komið athyglisverðar hugmyndir um að þróun húsnæðisverðs verði tekin úr verðbólgumælingunni, en þess í stað verði miðað við þróun byggingakostnaðar og húsaleigu. Það er ekki svo galin nálgun, sérstaklega í ljósi þess að stórhækkun húsnæðisverðs á afmörkuðum "lúxussvæðum" eins og við heitar götur í 101 Reykjavík endurspeglar ekki húsnæðiskostnað miðlungs Íslendings. Hækkunin sú hefur hins vegar haft mikil áhrif á hækkun neysluvísitölunnar.
Þegar skipulagsbreytingar voru gerðar á húsnæðislánakerfinu árið 2004 var fyrirsjáanlegt að einhverjar breytingar yrðu á verðstrúktúr íbúða, þótt engum hafi dottið í hug að nýir 200 - 300 milljarðar dældust inn á lánamarkaðinn frá bankakerfinu á örfáum mánuðum og að hækkanir á húsnæðisverði yrðu svo miklar sem raun bar vitni.
Þrátt fyrir að sú innspýting fjármagns væri ekki fyrirsjáanleg - þá voru á lofti raddir um að rétt væri að taka húsnæðisliðinn út úr mælingu neysluvísitölunnar á meðan möguleg áhrif skipulagsbreytinganna gengju yfir - enda ekki raunveruleg hækkun á neysluverði almennings að ræða þótt íbúðaverð hækkaði - þar sem greiðslubyrði af hærri lánum sem nýtt voru til að fjármagna kaup á dýrari íbúðum en áður, hækkaði ekki endilega þar sem vextir og þar af leiðir vaxtabyrði lækkaði á móti. Þá hækkaði greiðslubyrði þeirra sem ekki voru að kaupa húsnæði ekki vegna hækkunar húsnæðisverð - fyrr en það hafði áhrif á vísitöluna!
Kannske höfðu þessar raddir rétt fyrir sér! Allavega á umræða um húsnæðisliðinn í neysluvísitölunni fullkomlega rétt á sér.
Svo er nú það!
Athugasemdir
Velkominn í bloggheima. Vonandi færðu einhverja útrás hér, þannig að fjölskyldan fái frið fyrir blótinu.
Birgir Guðjónsson, 12.3.2007 kl. 22:46
Takk fyrir þetta Birgir. Ég reyni reyndar að hafa íslenskuna ekki of kjarnyrta yfir sjónvarpinu - svona vegna barnanna
Hallur Magnússon, 12.3.2007 kl. 22:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.