Engin eftirspurn eftir íslenskum stjórnmálamönnum erlendis!
15.6.2009 | 13:04
Það er engin eftirspurn eftir íslenskum stjórnmálamönnum erlendis. Hins vegar er mikil eftirspurn eftir íslenskum læknum erlendis - en læknar eru stór hópur þeirra sem er með heildarlaun yfir 1 milljón.
Við sjáum að það fæst gamall stjórnmálamaður til að taka að sér forsætisráðherraembættið fyrir laun sem er innan við 1 milljón. Sem reyndar eru of lág laun fyrir það djobb - og það sama má segja um þingmannsstarfið!
Ástæða of lágra launa íslenskra stjórnmálamanna er kanske sú staðreynd að það er ekki mikil eftirspurn eftir þeim erlendis.
Við þurfum því ekki að hafa áhyggjur af skorti á stjórnmálamönnum - þótt við þurfum að hafa áhyggjur af skorti á getu og hæfileikum þessara stjórnmálamanna - meðal annars vegna þess að öflugasta fólkið hefur verið annars staðar í vinnu á betri launum. Til dæmis hjá ríkinu.
Við þurfum hins vega að hafa áhyggjur af mögulegum skorti á læknum og öðrum sérfræðingum sem við þurfum á að halda ef það á að setja þá á laun mishæfra stjórnmálamanna. Það er nefnilega mikil eftirspurn eftir þeim erlendis!
... og ekki setjum við fyrrverandi flugfreyju í læknastarfið - ekki einu sinni jarðfræðing - þótt hann hafi uppeldis- og kennslufræðina til viðbótar!
![]() |
Ekki einfalt að lækka laun ríkisstarfsmanna" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mikilvægt skref hjá Jóhönnu í ESB málum
15.6.2009 | 08:25
Það er mikilvægt hjá Jóhönnu Sigurðardóttur að tryggja stuðning Norðurlandanna við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Það gæti flýtt aðildarviðræðum þannig að unnt verði að greiða atkvæði um aðildarsamning samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2010. Það er nefnilega brýnt að taka afstöðu af eða á um aðild Íslands að ESB.
En Jóhanna þarf að tryggja stuðning fleiri en Norðurlandanna.
Það er lykilatriði að Jóhanna tryggi víðtækan stuðning á Alþingi fyrir aðildarviðræðum. Það gerir hún ekki nema tryggt verði að allir stjórnmálaflokkar komi að aðildarviðræðum sem þar að auki þurfa að vera á faglegum nótum - ekki á forsendum útbrunninna fyrrum stjórnmálamanna.
Einfaldasta leiðin fyrir Jóhönnu er að Alþingi samþykki þingsályktunartillögu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lítt breytta.
Þá er leiðin að aðildarviðræðum greið.
Vil enn og einu sinni minna á lykilatriði sem Íslendingar verða að ná fram í aðildarviðræðum eigi þjóðin að geta samþykkt aðild að ESB. Þau atriði eiga sér öll fordæmi í aðildarsamningum annarra þjóða og skipta Íslendinga miklu máli:
- Skýr og einhliða úrsagnarréttur, sem er þegar viðurkenndur í aðalsáttmála ESB, verði hluti aðildarsamnings.
- Staðfest verði að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og að fiskveiðistjórnun verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur ESB um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.
- Fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt og viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar.
- Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður.
- Framleiðsla og úrvinnsla íslenskra búfjárstofna verði tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra búfjárstofna.
- Staðfest verði að vegna aðstæðna á Íslandi og fámennis þjóðarinnar hafi Íslendingar varanlegan rétt til að setja lög um forgangsrétt manna með lögheimili og fasta búsetu á Íslandi til að eiga ráðandi hlut í jarðeignum, lóðum, fasteignum og atvinnufyrirtækjum, enda styðjast slík ákvæði við núgildandi reglur á Álandseyjum, Möltu, Azoreyjum og víðar innan ESB.
- Í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.
- Tekið verði tillit til stöðu íslensks efnahagslífs við umbreytingu peninga- og gjaldeyrismála á Íslandi.
- Ákvæði verði um varðstöðu um íslenska þjóðmenningu, þjóðtungu og þjóðhætti á Íslandi. Íslenska verði viðurkennt sem eitt hinna opinberu tungumála ESB.
![]() |
Segir Norðurlönd styðja ESB-umsókn Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)