Bankahrunsmenn efnahagsráðgjafar ríkisstjórnarflokkana!

Ég er hugsi yfir því að helstu efnahagsráðgjafar Samfylkingar og VG á undanförnum dögum eru menn sem voru mjög háttsettir innan gömlu bankanna.

Fyrir Samfylkingu Yngvi Örn Kristinsson sem var framkvæmdastjóri verðbréfasviðs Landsbankans og gekk næstur Sigurjóni Þ Árnasyni bankastjóra Landsbankans.

Fyrir VG Ásgeir Jónsson forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings.

Ekki ætla ég að draga hæfni þessara ágætu manna í efa. Veit að þeir eru mjög hæfir.

En mér finnst það skjóta skökku við að flokkarnir sem gagnrýnt hafa stjórnendur bankanna sem bera ábyrgð á bankahruninu - reyndar með síðustu ríkisstjórn - skuli vera í farabroddi sem ráðgjafar ríkisstjórnarflokkanna í bankamálum og efnahagsmálum!

Það var kannske ekki að undra að Framsóknarmenn vildu fá utanaðkomandi sérfræðinga í efnahagsmálum til að lesa yfir aðgerðaráætlun ríkisstjórnarflokkanna áður en Framsókn ákvæði að verja nýja ríkisstjórn falli.

Enda fór lítið fyrir útfærslum og leiðum hvað varðar efnahagsmálin í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar.

En ég óska ríkisstjórninni allra heilla í erfiðu verkefni. Það besta við ríkisstjórnina er þó að hún mun ekki verða langlíf!


mbl.is Slá skjaldborg um heimilin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur Davíð og Framsókn hafa breytt íslenskum stjórnmálum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nýr formaður Framsóknarflokksins hefur á örfáum dögum breytt íslenskum stjórnmálum til hins betra. Sigmundur Davíð hefur sýnt að þar er á ferðinni stjórnmálamaður sem mun gegna lykilhlutverki í að byggja upp annars konar stjórnmál á Íslandi en hingað til hafa tíðkast. 

Fyrir örfáum vikum datt engum í hug að við sundurlyndri og handónýtri ríkisstjórn myndi taka minnihlutastjórn VG og Samfylkingar sem Framsóknarflokkurinn verði falli. Ríkisstjórn sem þjóðinni er nauðsynleg til að halda um stjórnartaumana fram að kosningum þar sem nýtt Alþingi verður kjörið til að endurreisa Ísland, nýtt Ísland.

Sigmundur Davíð og Framsóknarflokkurinn breytti pólitísku landslagi á einu vetfangi þegar hann bauðst til að verja slíka ríkisstjórn strax í kjölfar þess að Framsóknarmenn gerðu upp við fortíðina og lögðu drög að framtíðinni með glæsilegu flokksþingi þar sem mikil og merkileg stefnumótun flokksins fór fram.

Eitt þeirra atriða sem mun breyta pólitísku landslagi til framtíðar litið verður stjórnlagaþing sem Framsóknarflokkurinn setti sem skilyrði fyrir því að verja minnihlutastjórn VG og Samfylkingar falli. Þar mun verða leitað beint til þjóðarinnar um að kjósa sé stjórnlagaþing sem vinni nýja stjórnarskrá fyrir Ísland framtíðarinnar.

Með þessu baráttumáli hefur Framsóknarflokkurinn haft forgöngu um að auka beint lýðræði þjóðarinnar og bjarga stjórnarskránni úr klóm stjórnmálamannanna sem haldið halda henni í gíslingu eiginhagsmuna um áratuga skeið.

Ég hef barist fyrir slíku stjórnlagaþingi með nokkrum félögum mínum í Framsóknarflokknum. Ég er stoltur af því. Við erum að upplifa nýtt upphaf - nýja framsókn.

Ný minnihlutastjórn VG og Samfylkingar mun taka við í dag. Hennar bíður mikilvægt en erfitt verkefni. ég óska ríkisstjórninni allra heilla - og er reiðubúin að leggja henni lið í öllum góðum málum.  Það eigum við öll að gera.

Að lokum vil ég minna á að ég sækist eftir sæti á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík, sjá nánar hér:

Sækist eftir sæti á Alþingi fyrir Framsókn í Reykjavík


mbl.is Framsókn ver nýja stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband