Aðgerðir fyrir utangarðsmenn í burðarliðnum!

Það sló mig illa sem nýkjörins varaformanns Velferðarráðs að heyra viðtal á Stöð 2 við útigangsmann sem skýrði frá því að útigangsmenn neyddust til þess að sofa úti þar sem ekki væri pláss fyrir þá í gistiskýlum.  Það gengur náttúrlega ekki svo ég ákvað að ganga af krafti í málið og byrjaði á því að leita mér upplýsinga um stöðu mála.

Ég komst að því að í kjölfar erfiðrar stöðu í fyrravetur þegar ítrekað þurfti að vísa mönnum frá gistiskýli utangarðsmanna - þá var plássum þar fjölgað úr 16 - 20.

Frá því það var gert hefur einu sinni - endurtek - einu sinni þurft að vísa einum manni frá gistiskýlinu. Þannig að líkindum var maðurinn að lýsa ástandinu frá því í fyrravetur - ástandi sem ekki var bjóðandi - en hefur verið bætt úr.

Að vísa einum manni einu sinni frá er reyndar einu sinni of oft, en því þarf að kippa í liðinn fyrir veturinn.

Mér fannst því undarlegt að heyra fulltrúa Vinstri græna í Velferðarráði halda því fram að á undanförnu hefðu utangarðsmenn ítrekað þurft frá gistiskýlinu frá að hverfa. Þeim ber greinilega ekki saman starfsmönnum gistiskýlisins og fulltrúa Vinstri grænna. Hvor ætli hafi rétt fyrir sér?

Hins vegar er ljóst að það þarf að gera mun betur í málum utangarðsfólks.

Þegar nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við stjórn Reykjavíkurborgar á dögunum þá sammæltust við fulltrúar meirihlutans í Velferðarráði að leggja á haustmánuðum áherslu á málefni utangarðsfólks.

Eitt fyrsta verk mitt var að fara yfir þá heildstæðu stefnumótun í málefnum utangarðsmanna sem sett var á fót af fyrri meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Það gladdi mig að stefnumótun þessi er á lokastigi og allt útlit fyrir að góð samstaða náist innan Velferðaráðs um stefnumótunina og  aðgerðaáætlun byggða á henni, en stefnan hefur verið unnin af vinnuhóp sem hefur verið skipaður bæði pólitískum fulltrúum meirihluta og minnihluta sem og starfsfólki Velferðasviðs.

Ég verð reyndar að segja að mér fannst einnig afar sérstakt að horfa á fulltrúa Vinstri grænna í Velferðarráði þylja upp helstu atriði stefnunnar í fréttum Stöðvar 2 og láta líta út sem um sé að ræða persónulegar tillögur hans en ekki sameiginlegar niðurstöður vinnuhópsins.

Reyndar veit fulltrúinn að niðurstöður hinnar þverpólitísku vinnu verður lögð fyrir Velferðarráð í næstu viku til samþykktar og að stefnan og aðgerðaráætlunin verður kynnt í kjölfarið - enda maðurinn í starfshópnum!

En það er gott að vita til þess að fulltrúi Vinstri grænna stendur með okkur hinum í Velferðaráði að hinni heildstæðu stefnu og mun væntanlega leggja okkur lið við að koma aðgerðaráætlun í framkvæmd sem allra fyrst.

Því það eru úrbæturnar fyrir utangarðsfólkið sem skipta máli - ekki skrautfjaðrir stjórnmálamannanna!


Íbúðalánasjóður til aðstoðar viðskiptavinum bankanna?

Frysting lána Íbúðalánasjóðs hjá fólki sem lenda í fjárhagslegum erfiðleikum hefur alla tíð verið mikilvægt greiðsluerfiðleikaúrræði hjá sjóðnum. Hundruð fjölskykdna hefur náð að halda húsnæði sínu og komist gegnum greiðsuerfiðleika með þessari hjálp Íbúðalánasjóð.

Sú útvíkkun á greiðsluerfiðleikareglum Íbúðalánasjóðs að  bjóða þeim sem sitja uppi með tvær íbúðir vegna sölutregðu er rökrétt framhald hjá Íbúðalánasjóði og gott til þess að vita að það er að nýtast fjölda fólks.

Því miður eru margir sem tóku lán í bankakerfinu ekki í eins góðum málum í greiðsluerfiðleikunum. Það hafa margir haft samband við mig vegna þessa og skilja ekki af hverju bankinn kemur ekki á móts við þá í stöðu sem þessari. Skilja reyndar ekki heldur af hverju Íbúðalánasjóður - sem tekinn er af ríkinu - geti ekki veitt þeim greiðsluerfiðleikaaðstoð - með því að veita Íbúðalánasjóðslán til að greiða upp bankalánið sem innheimt er af fullri hörku. Fá síðan frystingu á Íbúðalánasjóðsláninu til þriggja ára - eins og réttur þeirra hefði verið - ef lánið hefði verið tekið hjá sjóðnum í upphafi.

Kannske ættu stjórnvöld að heimila Íbúðalánasjóði að veita almenningi lán til þess að greiða upp íbúðalán bankanna!

Allavega ættu stjórnvöld í alvöru að athuga hvort heimila eigi sjóðnum að veita slík lán til uppgreiðslu íbúðalána bankanan sem eru með 5 ára endurskoðun vaxta - því ljóst er að vextir munu hækka mjög verulega á slíkum lánum bankanna á næsta ári.

Fyrst ég er að ræða um stjórnvöld og Íbúðalánasjóð  er vert að ítreka fyrra blogg mitt:  

Rangfærslur Ingibjargar Sólrúnar um ESA og Íbúðalánasjóð!

 


mbl.is Mikill áhugi á frystingu lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband