Kynferðisofbeldi gagnvart drengjum vanmetið?
9.8.2008 | 12:26
Er kynferðisofbeldi gagnvart drengjum vanmetið á Íslandi?
"Til okkar kom sextán ára strákur sem hafði búið í sex mánuði hjá karli hér í borg. Karlinn dældi í hann peningum, áfengi og dópi og notaði hann kynferðislega. Þessi strákur er ekki samkynhneygður... Strákum er líka nauðgað. Þeir eru misnotaðir, rétt eins og stelpur. Ég þekki fleiri stráka sem hafa selt sig en stelpur"
Þetta er brot úr viðtali við Mumma í Götusmiðjunni í 24 stundum, en væntanlega hefur enginn betri yfirsýn yfir ástandið hjá unglingum á götunni í bullandi neyslu. Sá hópur er í mikilli hættu gagnvart kynferðisofbeldi - kynlíf gegn greiðslu í dópi eða peningum fyrir dópi.
Væntanlega eru sumir þessara krakka í harðri neyslu einmitt vegna þess að þau hafa lent í kynferðislegu ofbeldi. Strákar jafnt sem stelpur.
Stígamót eru samtök sem hafa unnið frábært starf á undanförnum árum - aðstoðað fjölda kvenna sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Einnig karlmönnum - þótt hlutfall þeirra sem leita til Stígamóta sé lágt.
Þótt hlutfallið sé lágt - er þá víst að það gefi rétta mynd af kynferðislegu ofbeldi gagnvart drengjum? Er ekki líklegt að karlmenn leiti miklu síður til Stígamóta og þeirra ágæti kvenna sem vinna fórnfúst starf með fórnarlömbum kynferðisofbeldis en konur?
Það kæmi mér ekki á óvart!
Er kannske kominn tími til þess að karlmenn sem lent hafa í kynferðislegu ofbeldi - og unnið sig út úr því eins og unnt er - eins og margar þeirra kvenna sem vinna með Stígamótum hafa gert - að þeir karlmenn stofni sambærileg samtök til hjálpar karlkyns fórnarlömbum kynferðisofbeldis?
Það kæmi mér ekki á óvart!
Hér gæti verið verkefni fyrir Önnu Kristinsdóttur nýráðinn mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar!
Því að sjálfsögðu á Reykjavíkurborg að styðja við bak samtaka eins og Stígamót - og mögulegra nýrra "bræðrasamtaka" Stígamóta.
Fyrsta skrefið gæti verið að fá Mumma í Götusmiðjunni til ráðgjafar. Hann þekkir ákveðinn hóp karlkyns fórnarlömb kynferðisofbeldis - og gæti verið tengiliður í að koma þeim saman í sjálfshjálpar samtök svipuðum Stígamótum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)