Alvarleg viðvörun til Framsóknarflokksins!
8.8.2008 | 15:46
Það að Framsóknarflokkurinn í Reykjavík skuli einungis fá 2,1% fylgi í skoðanakönnun um fylgi flokkanna í borgstjórn Reykjavíkur er alvarleg viðvörun til Framsóknarflokksins á landsvísu!
Óskar Bergsson borgarfulltrúi hefur staðið sig með óvenjulegri prýði í öldugangi borgarmálanna undanfarnar vikur og mánuði.
Ég hef fundið mjög víða - og það ekki síður hjá stuðningsmönnum annarra flokka - mikinn stuðning við málflutning Óskars. Flestir sem ég tala við telja að hann hafi staðið sig afar vel - þótt þeir séu ekki endilega sammála honum um öll mál. Reyndar hefur mjög margt fólk í öðrum flokkum - og óflokksbundið fólk - einmitt verið sammála málflutningi Óskars!
Óskar virðist ekki vera að njóta þessa í skoðanakönnuninni.
Málefnaleg staða flokksins í Reykjavíkurborg er sterk. Borgarfulltrúi flokksins í Reykjavík er sterkur. Það dugir ekki til fylgis.
Skýringuna hlýtur að vera að leita annars staðar og þá í landsmálunum.
Staðreyndin er sú að þrátt fyrir það að Framsóknarmenn hafi í gegnum tíðina leikið lykilhlutverk í að halda uppi atvinnustigi og velferð á Íslandi og að flokkurinn hafi réttilega gagnrýnt efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar, þá hefur flokkurinn ekki náð að koma fram af þeim styrk og þeirri festu sem nauðsynleg er til að kjósendur hafi traust á flokknum til að leiða enn einu sinni uppbyggingu atvinnulífs og velferðar.
Núverandi flokksforysta Framsóknarflokksins hefur haustið til að snúa þessari þróun við. Ef flokksforystunni tekst það - þá er flokkurinn kominn á beinu brautina íslensku þjóðinn til heilla.
Ef flokksforystunni tekst það ekki þá þarf að skipta henni út á næsta flokksþingi og fela ungu kynslóðinni í flokknum að taka við. Framtíðin á nefnilega að vera hennar!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Höldum gömlu hreppamörkunum!
8.8.2008 | 11:22
Við eigum að halda gömlu hreppamörkunum þótt lítil sveitarfélög hafi sem betur fer runnið saman og ættu reyndar að verða enn stærri! Mér sárnaði að Vegagerðin skyldi taka niður skilti sem upplýsti um hreppamörk hins forna Kolbeinsstaðahrepps - hrepps föðurfjölskyldu minnar.
Það sama á við hreppamörk um allt landið!
Við megum ekki gleyma því að hreppurinn var samfélagsleg eining sem að líkindum var komin á fyrir kristnitöku og hefur lifað sem stjórnsýslueining fram á þennan dag. Hreppurinn er því mikilvægur menningarlegur þáttur í sögu Íslendinga.
Þess vegna eigum við ekki að láta gömlu hreppana og hreppsnöfnin falla í gleymskunar dá. Við eigum að merkja hreppamörk með heitum gömlu hreppanna - þótt flestir hreppir séu ekki lengur stjórnsýslueiningar - heldur hluti stærra sveitarfélags!
Ég skora á samgönguráðherra - sem nú er einnig ráðherra sveitarstjórnarmála - að fela Vegagerðinni að setja upp skilti við gömlu hreppamörkin - þar sem fram koma heiti gömlu hreppanna. Þar sem sveitir voru í daglegu tali kallaðar eitthvað annað - eins og til dæmis í Austur-Skaftafellssýslu - Öræfi, Suðursveit, Mýrar, Nes og Lón - þá komi þau heiti jafnframt fram.
Undirstrika að ég er ekki að tala um að skipta stóru sveitarfélögunum upp á ný! Þau þurfa að vera enn stærri - og reyndar eiga skattar að renna beint til sveitarfélaganna - en ekki ríkisins - eins og fram kemur í pistli mínum Skattar renni til sveitarfélaganna ekki ríkisins!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)