Guðni kominn á villigötur í Evrópumálum?

Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins er aftur kominn á villugötur í Evrópumálum ef marka má ummæli hans í annars góðri ræðu í Borgarnesi - ræðu sem markar upphaf mikilvægrar fundarherferðar formannsins í að koma rödd Framsóknarflokkins á framfæri við þjóðina.

Í ræðu sinni sagði Guðni að innganga í ESB á þessum tímapunkti og hugsanleg upptaka Evru læknaði ekki núverandi ástand.

Það er rétt að þær aðgerðir eru ekki töfralausn og læknar ekki eitt og sér núverandi ástand. En það gæti orðið hluti af sammtímalækningunni og lykilatriði í langtímalækningunni. 

Þetta er hins vegar ekki stóra málið, heldur staðhæfing Guðna  “Það ferli allt saman tekur 6-8 ár og er því engin töfralausn í núverandi stöðu.”

Sú staðhæfing er bara alls ekki rétt hjá Guðna! Það ferli getur tekið miklu skemmri tíma!

Guðni hefur ekki efni á því að drepa Evrópumálunum á dreif á þennan hátt!

Stór hluti Framsóknarmanna vill kanna hvort ásættanleg niðurstaða næst í viðræðum við Evrópusambandið. Þessi hluti Framsóknarflokksins mun ekki sætta sig við málflutning Guðna á þessum nótum.

Guðni hefði átt að leggja hlustir við rökfastar greinar forvera síns Jóns Sigurðssonar um Evrópulám sem hafa birst hafa að undanförnu áður en hann setur fram slíkar staðhæfingar.

Nema Guðni hafi mismælt sig með tímalengdina!

Það er ástæða til þess að hefja viðræður við Evrópusambandið strax svo unnt sé að taka sem fyrst afstöðu til þess hvort ásættanleg niðurstaða fæst svo þjóðin geti tekið afstöðu til þess hvort ganga eigi í Evrópusambandið eða ekki!

Það er sorglegt að Guðni skuli hafa misstigið sig svona í þessari mikilvægu ræðu, því ræðan var að öðru leiti afar góð!

Guðni hvatti til almennrar þjóðarsáttar um úrræði í efnahagsmálum. Hann sagði meðal annars:

“Það er nauðsynlegt að ríkisstjórn, aðilar atvinnulífsins, bankar og aðrir komi að samstilltum aðgerðum til að forða hinum stóra skelli sem fylgt getur aðgerðarleysisstjórnun eins og ríkisstjórnin notar.”

 Það er mikilll sannleikur í þessum orðum Guðna!


Flugvöllur á Löngusker fyrsti kostur Framsóknarmanna!

Framsóknarmenn í Reykjavík gengu til síðustu borgarstjórnarkosninga með skýra stefnu í flugvallarmálinu. Þeir vildu flytja Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýrinni út á Löngusker og nýta hið dýrmæta byggingarland Vatnsmýrinnar.

Með flugvelli á Lönguskerum fengist lausn á erfiðu viðfangsefni sem er að samhæfa kosti þess að hafa miðstöð innanlandsflug í nálægð miðbæjar Reykjavíkur og kosti þess að nýta byggingarland Vatnsmýrinnar undir byggð til að styrkja miðbæ Reykjavíkur og borgarinnar allra. Þetta viðfangsefni - að samræma þessi tvö sjónarmið - hefur verið ofarlega í hugum Framsóknarmanna allt frá árinu 1974 og má nefna aðkomu Steingríms Hermannssonar og Guðmundar G. Þórarinssonar að þessari umræðu á sínum tíma.

Lönguskerjakosturinn er enn besti kosturinn út frá sjónarmiði bæði þeirra sem vilja nýta landið í Vatnsmýrinni og þeirra sem vilja tryggja  miðstöð innanlandsflugs í Reykjavík.

En ef ómögulegt er að ná saman um flutning Reykjavíkurflugvallar út á Löngusker þá verða Framsóknarmenn að taka þátt í að finna aðra sem ásættanlegasta lausn.  Innan Framsóknarflokksins eru skipta skoðanir um hver sú lausn skuli vera.

Það hefur lengi verið ljóst að mín skoðun sé sú að ef ekki náist saman um Löngusker þá skuli flytja Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýrinni og nýta mýrina undir byggingar.

Það hefur einnig verið ljóst að skoðun Óskars Bergssonar leiðtoga Framsóknarmanna í Reykjavík er önnur. Hann vill flugvöllinn í Vatnsmýrinni ef ekki næst saman um að flytja hann út á Löngusker.

Guðni Ágústsson hefur nú ítrekað skoðun að líkindum meirihluta Framsóknarmanna að flugvöllurinn skuli vera áfram í Vatnsmýrinni.

Ég er því í minnihluta í mínum eigin flokki - og það ekki í fyrsta sinn!

Ég mun að sjálfsögðu áfram tala fyrir mínum sjónarmiðum innan Framsóknarflokksins um að rétt sé að nýta Vatnsmýrina undir byggingarland en ekki flugvöll. 

Ef Lönguskerjalausnin er ekki raunhæf pólitískt og Framsóknarflokkurinn tekur skýra afstöðu með því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni, þá mun ég berjast fyrir því að umfang vallarins á núverandi vallarstæði verði takmarkað eins og nokkur kostur. Það er unnt með því að leggja hluta Reykjavíkurflugvallar út í sjó - þótt hann verði ekki færður alfarið út í Löngusker.

PS.

Það vakti kátínu mín að lesa ummæli Dags B. Eggertssonar í Fréttablaðinu - þar sem hann gagnrýnir Sjálfstæðisflokkinn fyrir að taka tillit til afstöðu Óskars Bergssonar í flugvallarmálinu í skipulagsvinnu næstu mánaða - maðurinn sem hefur sömu skoðun og Sjálfstæðisflokkurinn í títtnefndu flugvallarmáli og vildi allt gera til þess að mynda meirihluta í Tjarnarkvartettinum með Óskari og Ólafi Friðriki fyrrum borgarstjóra - en allir vita hver afstaða hans er í flugvallarmálunum. Vatnsmýrin og ekkert nema Vatnsmýrin!

Hvað ætlaði Dagur að gera í flugvallarmálinu í nýjum meirihluta með Framsóknarmönnum? Fara bestu lausnina - færa flugvöllinn út á Löngusker?  Hvað hefði Ólafur F. sagt við því?


Bloggfærslur 26. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband