Sannleikurinn um keypta skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ!
30.6.2008 | 15:46
Sumarið 2003 átti ég fund með þáverandi forstöðumanni Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Erindið var að fá hagfræðistofnun til þess að leggja faglegt hagfræðilegt mat á fyrirliggjandi hugmyndir um innleiðingu 90% lána Íbúðalánasjóðs.
Forstöðumaðurinn varð því miður að segja sig frá verkefninu þar sem "Samtök banka og fjármálafyrirtækja er búin að kaupa okkur til að vinna greinargerð um málið" eins og það var orðað.
Forstöðumaðurinn sagðist þó geta sagt að þessar hugmyndir væru jákvæðar, ef tímasetningin væri önnur og að þær tækju aðeins lengri tíma.
Forstöðumaðurinn vann síðan greinagerð þá sem Samtök atvinnulífsins er að vitna til. Forstöðumaðurinn leitaði ekki eftir neinum upplýsingum um fyrirliggjandi forsendur 90% lánanna, heldur gaf sér forsendur sem fram höfðu komið í kosningabaráttunni.
Þótt ljóst var að forsendur fyrir greinargerð forstöðumanns Hagfræðistofnunar HÍ væru rangar - og þar af leiðir niðurstöðurnar - þá var tekið mark á þeim aðvörunarorðum sem fram komu - enda sömu aðvörunarorð komin frá Seðlabanka Íslands.
Vegna þessa var ákveðið að hægja á innleiðingu 90% lánanna og fresta þeim fram á vorið 2007 - þegar áhrif framkvæmda vegna stóriðju hætti að gæta.
Ástæðan var einföld. Stjórnvöld voru ekki reiðubúin að hætta jafnvægi í efnahagsmálum vegna þessa - enda var alltaf sá fyrirvari að innleiðingin tæki mið af efnahagsástandi - þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi reyndar ekki viljað hætta við þensluhvetjandi skattalækkanir sínar.
En staðan breyttist í ágúst 2004 - þegar bankarnir komu af miklum krafti inn á íbúðalánamarkaðinn með því að veita ótakmörkuð lán - allt að 100% - og á vöxtum sem voru helmingi lægri en þeir höfðu fram að því boðið. Hundruð milljarða króna streymdu frá bönkunum inn á íbúðalánamarkaðinn - þannig að það hafði ekkert upp á sig að fresta innleiðingu 90% lánanna til ársins 2007. Bankarnir voru hvort eð er búnir að rústa jafnvæginu í efnahagsmálunum.
Það er því aumkunarvert þegar Samtök atvinnulífsins - sem væntanlega leggja fram þessa greinargerð í stað samráðsvettvangs bankanna sem er smá beyglaður þessa daganna þar sem samráð þeirra hefur verið dregið fram í dagsljósið - skuli vísa í þessa greinargerð - og enn einu sinni halda fram að atburðarrásin hafi verið öðruvísi en hún raunverulega var.
Ég bjóst við stórmannalegri framkomu af Þór Sigfússyni! Það hefur hingað til ekki verið hans stíll að leggja blessun sína yfir ófagmannleg vinnubrögð - hvað þá rangfærslur sem oft er búið að hrekja.
En svo bregðast krosstré sem önnur!
Lesendum til upplýsingar læt ég fylgja hlekk inn á blogg þar sem hin raunverulega atburðarrás er rakin.
Enn bullar prófessor Þórólfur - gegn betri vitund!
Það hefur enginn treyst sér til að rengja þá atburðarrás - ekki einungis forsvarsmenn samráðsvettvangs bankanna - Samtök fjármálafyrirtækja - sem áður bar nafnið Samtök banka og fjármálafyrirtækja. Enda voða erfitt að rengja raunveruleikann!
![]() |
Stjórnvöld breyti aðkomu sinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Stefnir í neyðarástand á sjúkrahúsunum!
30.6.2008 | 11:35
Það stefnir í neyðarástand á sjúkrahúsunum. Ljósmæður og hjúkrunarfræðingar munu ekki sætta sig við smánartilboð samninganefndar ríkisins. Yfirvinnubann hjúkrunarfræðinga í burðarliðnum. Ljósmæður búnar að fá nóg og munu væntanlega hætta að starfa sem slíkar verði kjör þeirra ekki leiðrétt.
Hvernig ætli gangi í viðræðum LSH við skurðhjúkrunarfræðinga?
Guðlaugur Þór og Árni á Kirkjuhvoli verða að setjast niður strax og finna ásættanlegar leiðir til að koma til móts við þessar lífsnauðsynlegu kvennastéttir. Þeir geta umbunað þeim sérstaklega á grunni yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að leiðrétta skuli kjör kvennastétta. Þessar stéttir eru nú þegar búnar að taka á sig kjaraskerðingar miðað við aðrar stéttir með sömu háskólamenntun. Laun þeirra hafa verið óeðlilega lág undanfarin misseri - á sama tíma og launaskrið hefur bætta kjörin hjá flestum öðrum.
Ljósmæður og hjúkrunarfræðingar munu því ekki sætta sig við kjaraskerðingasamninga eins og BHM. Þetta er nefnilega ekki einungis barátta um laun - heldur sjálfsvirðingu.
Sjá einnig eldri pistil minn Gefandi ljósmóðurstarf þýðir ekki að gefa skuli vinnu sína!
PS:
BHM styður ljósmæður, sbr. eftirfarandi frétt af mbl.is
"Bandalag háskólamanna lýsir yfir stuðningi við kröfur Ljósmæðrafélags Íslands í kjaradeilu þeirra við samninganefnd ríkisins. Ljósmæður, sem eiga að baki 6 ára háskólanám, standa höllum fæti gagnvart öðrum ríkisstarfsmönnum með sambærilega menntun og gera kröfu um leiðréttingu á því.
Í tilkynningu frá BHM kemur fram að eitt meginmarkmiða BHM er að menntun sé metin að verðleikum til launa. Kröfur ljósmæðra snúast um sanngjarna launaröðun miðað við menntun. "
![]() |
Mikil vonbrigði meðal ljósmæðra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)