Spennandi endurnýjun Moggans!
2.6.2008 | 14:24
Það verður spennandi að fylgjast með endurnýjun Moggans á næstu vikum og mánuðum. Það var ljóst að Mogginn hafði verulega misst siglinguna á síðustu árum Styrmis og lífsnauðsynlegt fyrir blaðið að fá nýjan, ferskan skipsjóra á skútuna.
Eigendur Morgunblaðsins völdu rétt þegar þeir fengu Ólaf Þ. Stephensen í brúnna. Ólafur á að baki afar farsælan blaðamannaferil sem einkennst hefur af vönduðum vinnubrögðum þar sem mjög ákveðnar stjórnmálaskoðanir hans hafa ekki hafa orðið fagmennskunni ofursterkari.
Þá hefur Ólafur heldur betur sannað sig sem ritstjóri við að koma Blaðinu - nú 24 stundum - á flot þar sem það maraði í hálfu kafi og siglt því kröftugan beitivind að undanförnu! Hann hefur einnig sýnt það á undanförnum dögum að hann hefur þann kjark og myndugleik sem þarf til að taka erfiðar ákvarðanir með róttækum breytingum á ritstjórn Moggans.
En hvort þetta dugir til að koma Mogganum á góða siglingu á ný mun tíminn einn leiða í ljós - en það verður spennandi að fylgjast með þeirri siglingu!
![]() |
Ritstjóraskipti marka tímamót |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjálfstæðisflokkurinn er í raunverulegri útrýmingarhættu sem ofurflokkur í íslenskum stjórnmálum! Þetta kann að hljóma hjákátlega frá fyrrum varaborgarfulltrúar Framsóknarflokksins - en trúið mér - ég þekki einkennin! Samfylkingin er komin í stöðu til þess að taka við sem slíkur ofurflokkur!
Ósamlyndið, skortur á óskoraðri samheldinni forystu og hvert klaufamálið á fætur öðru - ekki bara í Reykjavík heldur einnig vangeta hjá formanni Sjálfstæðisflokksins sem eitt sinn var sterkur en er nú orðinn veikur - allt þetta getur stefnt í að Sjálfstæðisflokkurinn verði flokkur sem verði að rokka á bilinu 18 - 28% í framtíðinni - í stað þess að vera flokkur með á fimmta tug prósenta!
Ekki mun ég sýta þá niðurstöðu - en hætt við að einhverjir Sjálfstæðismenn verði súrir!
Í veikri stöðu Sjálfstæðisflokksins í dag eru tvær tifandi tímasprengjur sem geta gengið frá Sjálfstæðisflokknum sem ofurflokki.
Annars vegar Evrópumálin - en sú skoðanakúgun sem verið hefur í Sjálfstæðisflokknum um árabil vegna þeirra getur ekki gengið til lengdar - og hænuskref flokksforystunnar í þá átt að leyfa eðlilega umræðu um þau mál eru væntanlega ekki nóg!
Hins vegar borgarmálin þar sem áframhaldandi óstjórn, ósamlyndi, leiðtogakrísa og almennur vandræðagangur ásamt því að flokkurinn er gersamlega háður veikum samstarfsaðila sem ekki getur reitt sig á stuðning fyrrum fylgismanna sinna, gerir það að verkum að trúverðugleiki flokksins er kominn út á ytri höfn á leiðinni út í hafsauga!
Nú líta Sjálfstæðismenn vonaraugum til Hönnu Birnu sem borgarstjórefni sem mögulega gæti bjargað því sem bjargað verður í Reykjavík. Það er rétt að hún hefur staðið sig langbest í ósamstæðum borgarstjórnarflokki og er klárlega sterkt leiðtogaefni.
En vandamál flokksins felst í því að þótt hún taki við sem borgarstjóri - þá er umboð hennar afar veikt! Almennir flokksmenn kusu hana ekki til slíkra starfa! Það mun veikja hana sem borgarstjóra og leiðtoga!
Ef ég ætti að ráða Sjálfstæðismönnum heilt - þá myndi ég ráðleggja þeim að leita til grasrótarinnar í flokknum - og láta hana kjósa strax um hver eigi að leiða Sjálfstæðisflokkinn þessa mánuði sem eftir eru! Ég er þess fullviss að fólkið myndi velja Hönnu Birnu á afgerandi hátt - og tryggja henni þannig þá stöðu sem hún þarf til að bjarga leifunum af fylgi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.
![]() |
Vilja Hönnu Birnu sem borgarstjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |