Hætta fjölmiðlar að hossa Ingibjörgu og Geir í kjölfar fýlukasta þeirra?
16.6.2008 | 12:08
Það hefur fáum stjórnmálamönnum verið hossað meira í fjölmiðlum gegnum tíðina en Geir Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Reyndar hefur Morgunblaðið ekki farið neinum silkihönskum um Ingibjörgu Sólrúnu. Það hefur ekki komið að sök því allir aðrir fjölmiðlar hafa klappað henni á bakið og gert henni hærra undir höfði en öðrum.
Geir Haarde hefur hins vegar alla tíð verið tekinn silkihönskum af fjölmiðlamönnum.
Því kemur það á óvart hvernig þessi skötuhjú bregðast einstaklega ófaglega við eðlilegum spurningum fréttamanna. Ingibjörg Sólrún nánast hreytti í samflokksmann sinn á fréttastofu Stöðvar 2 og Geir Haarde var með hallærislega og hrokafulla stæla við samflokksmann sinn sem sér um viðskiptafréttir Stöðvar 2.
Ætli þau Ingibjörg og Geir séu að fara af taugum?
Það sjá allir að þau ráða ekki við verkefnið sitt. En að láta það bitna á fréttamönnum sem spyrja eðlilegra spurninga - það getur aldrei orðið skynsamlegt!
Það gæti jafnvel orðið til þess að fjölmiðlar fari að taka á þeim Geir og Ingibjörgu af fullkominni festu. Það yrðu viðbrigði fyrir þau!