Skagamenn staðráðnir í að taka vel á móti flóttamönnum!
26.5.2008 | 20:04
Það var ánægjulegt að hafa framsögu um góða reynslu Hornfirðinga af móttöku flóttamanna á fjölmennum upplýsingafundi á Akranesi í dag, en ég átti því láni að fagna að taka þátt í móttöku 17 flóttamanna frá Krajina héraði árið 2007 þegar ég var framkvæmdastjóri fræðslu- og fjölskylduskrifstofu Suðausturlands á Höfn þeim tíma.
Það var mikill kraftur og jákvæðni í Skagamönnum sem greinilega ætla að leggja allt í að móttaka hóps palestínskra, einstæðra mæðra gangi vel og verði Akurnesingum til sóma.
Málið er nefnilega að Akranes er afar ákjósanlegur staður til slíkrar móttöku með öflugt skólakerfi, allt frá leikskólum upp í framhaldsskóla, öflugt heilbrigðiskerfi bæði heilsugæslu og sjúkrahús, faglega félagsþjónustu með vel menntuðu starfsfólki, öflugri Rauðakrossdeild og öflugt gestrisið samfélag sem oftast hefur staðið afar vel saman þegar á hefur þurft að halda.
Talið er að um 20 miljón manns séu á flótta í heiminum. Einungis hluti þeirra fær stöðu flóttamanns. Mjög lítill hluti þeirra sem fá stöðu flóttamanns hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðannna (UNHCR). Mjög lítill hluti þeirra sem fá stöðu flóttamanna eru metnir í það mikilli hættu að þeim sé ekki vært nema í þriðja landi.
Íslendingar hafa tekið á móti flóttamönnum úr þessum hópi. Við höfum tekið á móti fjölskyldum af blönduðum hjónaböndum Serba og Króata sem á sínum tíma var hvorki vært í Serbíu né Króatíu. Við höfum tekið á móti fólki sem hefur sætt ofsóknum í Kosovo. Tekið á móti einstæðum mæðrum og börnum þeirra frá Kólumbíu, sem sætt hafa ofsóknum, líflátshótunum og jafnvel mannsali. Móttaka flóttafólks til Íslands er mannúðarstarf og við getum verið stolt af hverju einasta mannslifi sem hefur verið bjargað.
Við getum líka verið stolt af því hvernig tekist hefur að aðlaga flóttamennina að íslensku samfélagi og gera þeim kleift að standa á eigin fótum. Ekki einn einasti flóttamaður sem ég veit að komið hefur til Íslands til að segja sig þar til sveitar. Þvert á móti. Fólkið vill hefja nýtt líf, vinna fyrir sér og sínum og taka virkan þátt í íslensku samfélagi.
Við aðlögun flóttamannanna hefur verið fylgt þeirri ágætu meginreglu að Róm ertu Rómverji og á Íslandi ertu Íslendingur. Ætlir þú að taka virkan þátt í samfélaginu þarftu að spila eftir leikreglum þess og læra tungumál, siði og venjur. Á sama hátt hefur verið lagt að flóttamönnum á Íslandi að halda í sína menningu og kenna börnum sínum sitt upprunalega tungumál. Það er mjög mikilvæg fyrir hugtakaskilning og málþroska að þeir sem eru að læra nýtt tungumál leggi jafnframt rækt við sitt eigið.
Einnig má minna á að við erum stolt af því hvernig íslenskir innflytjendur í Kanada viðhéldu sínu móðurmáli og héldu siðum upprunalandsins og aðrir landnemar í Vesturheimi.
Allir sem til þekkja eru sammála um að framkvæmd flóttamannaverkefna á Íslandi hafi tekist vel. Þau kosta vissulega peninga og þrátt fyrir að þeir fjármuni skili sér fljótt til baka þegar fólkið fer að vinna og skapa verðmæti eigum við að líta á þá fjármuni sem framlag ríkar þjóðar til mannúðarmála.
Fólk og stjórnmálaflokkar geta haft sínar skoðanir á alþjóðavæðingu, frjálsri för launafólks milli landa og þeirri staðreynd að á Íslandi búa um 19 þúsund manns af erlendum uppruna. En látum það vera að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Móttaka flóttamanna og aðstoð við þá erlendis snýst um björgun mannslífa og gera fórnarlömbum stríðsátaka og ofbeldis kleift að hefja nýtt líf. Þess vegna á ekki að draga málefni flóttamanna inní rökræður þeirra sem hafa mismunandi skoðanir á Íslendingum af erlendum uppruna.
Eins og á að vera í lýðræðislegu samfélagi þá er rétt að spyrja gagnrýnna spurninga og leita svara. Það hefur verið gert. Vonandi hefur þeim spurningum verið svarað meðal annars á fundinum í dag.
Ég veit að Skagamenn munu allir sem einn standa saman að því að taka vel á móti flóttamönnunum þegar þar að kemur. Hinn fjölmenni fundur í dag styrkir mig enn frekar í þeirri trú.
![]() |
Góður andi á upplýsingafundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Sérstaða Óskars Bergssonar, Löngusker og Bitruvirkjun!
26.5.2008 | 09:12
Óskar Bergsson borgarfulltrúi Framsóknarflokksins hefur talað fyrir því að flugvöllurinn verði færður út á Löngusker. Ef Lönguskerjaleiðin verður ekki farin þá kæmi mér ekki á óvart að Óskar telji flugvöllinn eiga að vera áfram í Vatnsmýrinni!
Hann hefur talað þannig!
Óskar er þannig með mikilvæga sérstöðu í minnihlutanum í borginni hvað flugvallarmálið varðar.
Óskar Bergsson hefur reyndar sérstöðu í öðru máli einnig. Það er Bitruvirkjunarmálið.
Óskar hefur réttilega gagnrýnt hversu hratt stjórn Orkuveitunnar afskrifaði tugi ef ekki hundruð góðra starfa við umhverfisvæna iðnframleiðslu í Þorlákshöfn með því að blása Bitruvirkjun af - nánast án þess að kynna sér málið. Óskar virðist því fylgjandi Bitruvirkjun á meðan mér sýnist allir aðrir í minnihlutanum - og reyndar meirihlutanum líka -vera á móti Bitruvirkjun.
Ég er sammála Óskari um Löngusker, en vil flugvöllin hins vegar burt úr Vatnsmýrinni.
Ég er einnig sammála Óskari í því að það sé óábyrgt hjá stjórn Orkuveitunnar að afskrifa Bitruvirkjun nánast án umhugsunar.
![]() |
Meirihluti vill flugvöllinn áfram í Vatnsmýri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)