Guðni á villigötum í umræðunni um aðildarviðræður að ESB?

Ansi er ég hræddur um að vinur minn Guðni Ágústsson sé á villigötum í umræðunni um aðildarviðræður að Evrópusambandinu þegar hann heldur því fram að breytingar á stjórnarskrá Íslands séu forsenda fyrir því að hægt sé að hefja aðildarviðræður!

Þeir sérfræðingar í Evrópurétti sem ég hef borið þessi ummæli Guðna undir eru honum algerlega ósammála! 

Þeir eru sömu skoðunar og ég - að ekkert sé því til fyrirstöðu að ganga til aðildarviðræðna að óbreyttri stjórnarskrá - en að breyta verði stjórnarskránni áður en gengið er inn í Evrópusambandið verði það niðurstaða þjóðarinnar!

Guðni verður að svara því hvaðan hann hefur þessar lögskýringar og hverjar röksemdirnar fyrir þeim eru - ef hann ætlar að halda áfram málflutningi á þessum nótum.

Það dugir ekki fyrir Guðna að slengja þessum lögskýringum fram í Framsóknarmenn á miðstjórnarfundi um helgina - sem skálkaskjól fyrir því að fara ekki að skynsamlegri tillögu Magnúsar Stefánssonar og ungra framsóknarmanna um að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hefja skuli aðildarviðræður við ESB.

Ef Guðni ætlar að halda þessum málflutningi áfram verður hann að leggja fram trausta greinargerð viðurkenndra lögfræðinga fyrir þessari sérstöku lögfræðilegu túlkun. Ef hún liggur ekki fyrir - þá er ekkert því til fyrirstöðu að Guðni taki af skarið og fylki Framsóknarmönnum - andstæðingum Evrópuaðildar og jafnt sem Evrópusinnum - saman um að leggja ákvörðun um aðildarviðræður fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum! Þeirri atkvæðagreiðslu þjóðarinnar ber Framsóknarflokknum að lúta!


Guðni er glæsilegur formaður Framsóknarflokksins!

Guðni Ágústsson er glæsilegur formaður Framsóknarflokksins og ég styð hann sem slíkan! Ástæða þess að ég undirstrika þetta er að sá misskilningur komst á kreik vegna skrifa minna um Jón Sigurðsson forvera Guðna í embætti formanns Framsóknarflokksins, að ég styddi ekki Guðna sem formann Framsóknarflokksins. Því fer fjarri!

Mér þótti hins vegar nauðsynlegt í þeirri umræðu sem fram fór í fjölmiðlum um grein Jóns þar sem hann færir fram sterk rök fyrir því að nú sé tími til kominn að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið, að minna á að Jón er ekki einhver Jón úti í bæ, heldur Jón Sigursson sem var réttkjörinn formaður Framsóknarflokksins á síðasta flokksþingi, en flokksþing er æðsta stofnun Framsóknarflokksins.

Mér þótti tilhneyging hjá sumum Framsóknarmönnum að gera lítið úr traustri röksemdarfærslu Jóns og að lítið væri gert úr þeirri staðreynd að Jón var nýlega kjörinn formaður Framsóknarflokksins með meirihluta atkvæða flokksþingsfulltrúa og meirihluta flokksmanna að baki sér!

Jón ákvað að segja af sér þegar hann komst ekki á þing og við tók Guðni Ágústsson varaformaður. Ég studdi Guðna í að taka við formennskunni og ég styð Guðna ennþá sem formann. Ég geri ráð fyrir að fá tækifæri til að kjósa Guðna sem formann á flokksþingi í vor - ef ég verð valinn fulltrúi til flokksþings - sem er ekki sjálfgefið þótt ég sé ennþá skráður í Framsóknarflokkinn.

Ég treysti Guðna líka til að taka af skarið, ná skynsamlegustu lendingu fyrir Framsóknarflokkinn sem unnt er í Evrópumálunum og hvetja til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort ganga skuli til aðildarviðræðna við ESB eða ekki. Mismunandi afstaða Framsóknarmanna til mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu þarf ekki að kljúfa flokkinn. Þjóðin á að ákveða aðildarviðræður eða aðildarviðræður ekki. Ekki Framsóknarflokkurinn.

Bloggið sem olli þessum misskilningi er hér: Jón Sigurðsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins á síðasta flokksþingi!


Jón Sigurðsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins á síðasta flokksþingi!

Jón Sigurðsson var réttkjörinn formaður Framsóknarflokksins á síðasta flokksþingi, en flokksþing er æðsta stofnun Framsóknarflokksins. Jón stígur nú fram fyrir skjöldu og segir að nú sé rétti tíminn til aðildarumsóknar að Evrópusambandinu. Jón færir skotheld rök fyrir þeirri skoðun sinni í frábærri grein.  Jón er að tala fyrir munn stórs hluta Framsóknarmanna.  

 

Magnús Stefánsson er reyndur alþingismaður og helsti sérfræðingur þingflokks Framsóknarmanna í efnahagsmálum. Hann hefur lagt til að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Íslendingar skuli ganga til aðildarviðræðna um ESB. Magnús er að tala fyrir hönd meirihluta Framsóknarmanna.  

 

Bjarni Harðarson er snjall og nýkjörinn alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn. Hann berst gegn Evrópusambandinu og hann berst gegn þeirri tillögu Magnúsar að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður. Bjarni er talsmaður minnihluta Framsóknarmanna í málinu.  

 

Jón Sigurðsson komst illu heilli ekki að sem alþingismaður Reykvíkinga, en hann tók þá áhættu að fara fram í veikasta kjördæmi flokksins þar sem skoðanakannanir sýndu að nær vonlaust var fyrir flokkinn að ná manni. En Jón tók áhættuna og slaginn. Það vantaði einungis 300 atkvæði að hann næði inn á þing.  

 

Auðvitað átti Jón að halda áfram sem formaður Framsóknarflokksins. En hann kaus að gera það ekki.  Sumir segja vegna þess að brot úr nýjum þingflokki Framsóknarmanna var ekki reiðubúið til að standa óskorað að baki honum þar sem hann var ekki í þingflokknum.  Meirihlutinn hefði hins vegar lagt að honum að halda áfram. Ekki veit ég hvort það er rétt.   

 

Við tók varaformaður Framsóknarflokksins til margra ára, hinn glæsilegi stjórnmálamaður Guðni Ágústsson. Hann var ekki kjörinn formaður, hann tók einungis við sem varaformaður eins og lög Framsóknarflokksins gera ráð fyrir.


 

Guðni verður væntanlega réttkjörinn formaður á flokksþingi Framsóknarflokksins næsta vor.


Bloggfærslur 30. apríl 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband