Kalár í fasteignatúnum eða tími Jóhönnu kominn sem vorboðinn ljúfi?
25.4.2008 | 20:57
Nú er fasteignamarkaðurinn frosinn. Ef heldur fram sem horfir verður þetta illræmt kalár á fasteignamarkaðstúninu. Eins og bændur vita getur tekið langan tíma að vinna upp alvarleg kalsár í túni.
Vandamálið er að kalið verður ekki einskorðað við fasteignamarkaðinn. Kalið getur leikið efnahagslíf þjóðarinnar grátt. En það getur verið að í ríkisstjórninni leynist vorboðinn ljúfi sem hefur tök á því að velgja markaðinn og koma í veg fyrir illyrmislegt kal. Nú gæti tími vorboðans ljúfa verið kominn.
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra hefur tækin til að koma í veg fyrir algjört hrun og getur tryggt efnahagslífinu mjúka lendingu. Það eina er að fá haukana - eða fálkana - í fjármálaráðuneytinu til að slaka á klónni og leggjast ekki lengur gegn nauðsynlegum aðgerðum.
Aðgerðirnar geta verið eftirfarandi:
- Afnám úrelts viðmiðunar lána Íbúðalánasjóðs við brunabótamat
- Leiðrétting á hámarksláni Íbúðalánasjóð úr 18 milljónum í þær 25 sem hámarkslánið ætti að vera ef fyrra viðmiði hefði verið haldið
- Afnám stimpilgjalda
- Uppsetning skattfrjáls húsnæðissparnaðarreikninga þar sem ungt fólk leggur til hliðar fjármagn vegna innborgunar samhliða því að ríkið taki upp beina styrki til fyrstu kaupenda á móti húsnæðissparnaðinum.
Fyrstu þrír liðirnir gætu tekið gildi strax ef ríkisstjórnin vaknar af dvalanum og stuðlað að mjúkri lendingu efnahagslífsins, en fjórði liðurinn tæki að virka eftir nokkur misseri þegar ungt fólk hefur lagt til hliðar á húsnæðissparnaðarreikninga um eitthvert skeið.
Þessar áhyggjur eru ekki einungis áhyggjur mínar.
Rætt var við hinn virta hagfræðing og sérfræðing í húsnæðismálum, Sjálfstæðismanninn Magnús Árni Skúlason í fréttum RÚV í dag:
"Örva þarf fasteignamarkaðinn"
Vextir bankanna þurfa að lækka eða hámarkslán Íbúðalánasjóðs að hækka til að koma lífi í fasteignamarkaðinn á ný, segir Magnús Árni Skúlason hagfræðingur. Lækkun fasteignaverðs geti haft afar neikvæðar afleiðingar fyrir hagkerfið og lengt og dýpkað þá kreppu sem nú ríkir.
Umsvif á fasteignamarkaði hafa dregist mikið saman undanfarnar vikur og segja fasteignasalar sem fréttastofa Útvarps hefur rætt við að greinileg skil séu um páskana, þá hafa viðskipti nánast stöðvast. Sumir, þó ekki allir, vilja kenna þetta við spá Seðlabankans um 30% lækkun raunverð fasteigna á næstu tveimur árum.
Einn fasteignasali kallar það rothögg og segir mörg dæmi vera í sínu starfi um að fólk hafi þá snarlega kippt að sér höndunum og fallið frá áður ákveðnum viðskiptum. Samkvæmt Fasteignamati ríkisins hefur verð nú þegar lækkað lítillega á fasteignum.
Magnús Árni Skúlason hefur um langt skeið rannsakað fasteignamarkaðinn. Hann segir nokkra þætti helst valda lækkun á verði: þeir séu: Hækkandi vextir sem auki greiðslubyrði, það hafi þegar gerst hér. Verðbólga umfram verðhækkun á húsnæði hækki höfuðstól verðtryggðu lánanna, það geti étið upp eigið fé. Atvinnuleysi minnki greiðslugetu og geti leitt til nauðungarsölu og loks skapi offramboð nýbygginga þrýsting á verktaka að selja sem geti valdið lækkun á fasteignaverði.
Almennt séð geti lækkun fasteignaverðs haft talsvert neikvæðar afleiðingar fyrir hagkerfið. Ef húsnæðisverð lækkar séu afleiðingarnar yfirleitt mun alvarlegri og geti staðið í nærri tvöfalt lengri tíma en leiðrétting á hlutabréfamörkuðum. Framleiðslutapið sé einnig tvöfalt meira sem endurspegli meiri áhrif á neyslu og bankakerfi en bankar séu oft berskjaldaðir gagnvart breytingum á verði fasteigna. Til að koma í veg fyrir þessi neikvæðu áhrif verði að tryggja eðlileg umsvif á fasteignamarkaði.
![]() |
Einungis 51 kaupsamningi þinglýst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.4.2008 kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)